80 ár frá komu skurðgröfunnar til Íslands
Þann 16. febrúar 2012 skrifaði ég grein í Bændablaðið til að minnast þess að 70 ár voru liðin frá komu fyrstu skurðgrafanna til Íslands.
Skurðgröfurnar tvær voru af gerðinni Pristman Cub, en þær voru settar saman í kolaporti Þórðar Ásmundssonar á Akranesi, en samsetninguna annaðist Eirik Eylands vélfræðingur og hjálparmaður hans, Karl Auðunsson á Jaðri á Akranesi, en Karl varð síðar eftirlits- og viðgerðarmaður Vélasjóðs ríkisins. Eirik van fyrst með gröfunni þann 1. júní 1942 í Garðaflóa á Akranesi.
Eins og kunnugt er hleyptu gröfurnar af stað byltingu í framræslu mýra og stóraukinni túnrækt víða um land. Einnig voru þær notaðar við landanir á fiski með góðum árangri.
Lá undir skemmdum
Eftir margra ára notkun sótti Karl Auðunsson vélina og gerði hana upp fyrir landbúnaðarsýningu. Meðal annars hafði hann skorið út á fjöl nöfn þeirra manna sem unnið höfðu á vélinni.
Þegar hér var komið sögu barst Pétri G. Jónssyni hjá Þjóðminjasafni Íslands þetta til eyrna, en hann brást þegar við og bjargaði gröfunni frá glötun. Pétur kom gröfunni fyrst í hús í Árbæjarsafni, en síðar í geymslu Þjóðminjasafnsins í Kópavogi.
Bjargráð
Bjarni Guðmundsson, forstöðumaður Búvélasafnsins á Hvanneyri, ræddi á þessum árum við þáverandi þjóðminjavörð, Þór Magnússon, um úrbætur og viðgerð gröfunnar ásamt væntanlegri varðveislu.
Síðar mun safnið hafa ætlað að bjóða gröfunni verðugt húsaskjól á vegum Búvélasafnsins og þá í samvinnu við Þjóðminjasafnið.
Ár og áratugir líða og ekkert hefur orðið af framkvæmdum við að bjarga vélinni; hún lá í nokkur ár óvarin að mestu í bragga Þjóðminjasafnsins við Vesturvör í Kópavogi, en nú mun hún hafa verið flutt í varðveisluhúsnæði safnsins austur á Eyrarbakka.
Efndir
Loforð Búvélasafnsins á Hvanneyri og Þjóðminjasafns Íslands hafa ekki verið efnd, þ.e. að vinda bráðan bug að því að gera þessa sögufrægu skurðgröfu upp og koma henni í varanlegt skjól, væntanlega á Hvanneyri, þar sem hún myndi sóma sér vel sem einn af sýningargripum Búvélasafnsins.
Hún hefði sæmt sér vel sem sýningargripur á Landbúnaðarsýningunni í Laugardal nú í lok október 2022; vonandi mun hún í framtíðinni verða til sýnis á Landbúnaðarýningum, þar sem hún á svo sannarlega að eiga sinn afmarkaða bás.