Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Að vera með í Bændasamtökunum
Mynd / TB
Lesendarýni 3. ágúst 2017

Að vera með í Bændasamtökunum

Höfundur: Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri BÍ
Eins og lesendum Bændablaðsins ætti að vera kunnugt þá urðu miklar breytingar hjá BÍ í byrjun þessa árs þegar innheimta félagsgjalds hófst. Starfsemi samtaka bænda var um árabil fjármögnuð með sjóðagjöldum af búvöruframleiðslunni, síðustu tvo áratugi með búnaðargjaldi sem skiptist milli BÍ, búnaðarsambanda, búgreinafélaga og Bjargráðasjóðs. Heildarálagning árið 2016 er áætluð tæpar 600 milljónir króna, þar af runnu um 140 milljónir til BÍ. Landbúnaðurinn greiðir ekki þetta gjald vegna framleiðslunnar á þessu ári.
 
Félagsgjald í stað búnaðargjalds
 
Á árinu 2017 hófst innheimta félagsgjalda hjá BÍ. Gjöldin eru ekki lengur dregin sjálfkrafa af innlegginu, heldur innheimt sérstaklega. Sendir voru reikningar á alla sem skráðir voru í BÍ, þ.e. alla félagsmenn aðildarfélaga samtakanna. Í ljós kom að ekki höfðu allir gert sér grein fyrir því að með því að vera í aðildarfélagi væru þeir jafnframt skráðir í BÍ, auk þess sem ýmsir voru og eru í félögunum með litla eða enga landbúnaðarstarfsemi. Það voru því miklar annir hjá starfsfólki fyrstu mánuðina við að leiðrétta skráningar. Við því mátti búast, en segja má að innleiðing félagsgjaldanna hafi gengið ágætlega og að mestu í samræmi við áætlanir.  
 
Það fylgir breytingunum að greina verður skýrar á milli þjónustu við þá sem ætla áfram að vera félagar og þeirra sem kjósa að vera það ekki. Félagsmenn eiga nú einir kost á styrkjum úr starfsmenntasjóði BÍ, orlofshúsum, aðgangi að lögfræðingi samtakanna, bændaverði á gistingu á Hótel Sögu sem og almennri aðstoð og ráðgjöf BÍ. Þá verður jafnframt sérstakt svæði opnað á Bændatorginu fyrir félagsmenn þar sem birtar verða upplýsingar ætlaðar þeim, svo sem ársreikningar BÍ og dótturfélaga sem og annað efni eingöngu ætlað félagsmönnum.
 
Hugbúnaður á hagstæðu verði
 
Síðast en ekki síst þá fá félagsmenn BÍ hugbúnað BÍ á lægra verði en aðrir. Hugbúnaðurinn sem um ræðir er Huppa, Fjárvís, Heiðrún, Jörð og dkBúbót. Með aðild að BÍ fæst fullur aðgangur að þessum kerfum á 30% lægra verði.
 
Í búvörusamningunum sem tóku gildi í byrjun þessa árs er hins vegar gerð krafa um þátttöku í skýrsluhaldi BÍ. Vegna þessa var samið við ríkið að í Huppu, Fjárvís, Heiðrúnu og Jörð yrði jafnframt boðið upp á svokallaðan lögbundinn aðgang. Sá aðgangur nýtist til að skila öllum upplýsingum sem krafist er til að fá greiðslur samkvæmt búvörusamningum, en aðrir möguleikar hugbúnaðarins fylgja ekki. Hann nýtist því ekki í búrekstrinum eins og fullur aðgangur gerir. Þessi aðgangur er á sama verði óháð aðild að BÍ og gjöld fyrir hann eru háð samþykki atvinnuvegaráðuneytisins.
 
Samtök með sögu
 
Samtök bænda á Íslandi eiga sér langa sögu. Reyndar eru á þessu ári 180 ár liðin frá stofnun fyrstu samtaka bænda, Hús- og bústjórnarfélags Suðuramtsins. Sú saga hefur verið rakin á öðrum vettvangi en segja má að á 20. öldinni hafi samtök bænda orðið að nokkurs konar stjórnsýslustofnun landbúnaðarins – í fullri samvinnu við þáverandi stjórnvöld. En nú á 21. öldinni er það allt breytt.  Stjórnsýsluverkefnin hafa verið flutt annað og með niðurfellingu búnaðargjalds og upptöku félagsgjalda má segja að bein tengsl við ríkið séu brott fallin. Það breytir því ekki að landbúnaðurinn nýtur mikils opinbers stuðnings og það er hinu opinbera ekki síður nauðsynlegt að hafa sterkan málsvara hinu megin við borðið þegar málefni greinarinnar eru til umfjöllunar.
 
En það þýðir líka að Bænda­samtök Íslands eru nú líkari öðrum hagsmunasamtökum í landinu. Þau berjast fyrir hag landbúnaðarins en fara ekki með stjórnsýslu hans um leið. Til að sú hagsmunabarátta hafi slagkraft þurfa bændur að standa með samtökunum. Við erum sterkari saman. Það er ekkert flókið.
Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...