Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Ungur nytjaskógur í íslenskri sveit, alaskaösp í forgrunni. Með ræktun alaskaaspar má fá verðmætar afurðir á aldarfjórðungi. Eftir skógarhöggið vaxa aspirnar upp aftur, binda nýtt kolefni og geta gefið verðmætar afurðir á ný eftir aldarfjórðung eða minna.
Ungur nytjaskógur í íslenskri sveit, alaskaösp í forgrunni. Með ræktun alaskaaspar má fá verðmætar afurðir á aldarfjórðungi. Eftir skógarhöggið vaxa aspirnar upp aftur, binda nýtt kolefni og geta gefið verðmætar afurðir á ný eftir aldarfjórðung eða minna.
Mynd / Pétur Halldórsson
Lesendarýni 26. nóvember 2019

Fjóshaugur mannkyns

Höfundur: Pétur Halldórsson
Nytjaskógrækt er varanleg aðferð til kolefnisbindingar. Nytjaskógur er fjölbreytilegt vistkerfi með mikla líffræðilega fjölbreytni, rétt eins og birkiskógur. Nytjaskógrækt er ein þeirra leiða sem við verðum að nota til að ná árangri gegn loftslagsvandanum. En hvað er eiginlega þetta kolefni?
 
Kolefni er eitt algengasta frumefni í heiminum. Hvar sem þú kemur, lesandi góður, má heita víst að þú sért umkringdur kolefni í ýmsum myndum. Sjálf erum við að miklu leyti kolefni. Maturinn okkar, sykurinn, fötin, húsgögnin, húsin okkar, bækurnar, blómin, grasið, málningin, plastið, bensínið … Hvarvetna blasir kolefnið við okkur í ýmsum myndum. Tré eru líka að mestu úr kolefni, rétt eins og aðrar lífverur. Þá svífur kolefni einnig um í loftinu í kringum okkur í hjónabandi við súrefni sem sameindin CO2 og kallast koltvísýringur.
 
Kolefni hefur verið byggingarefni lífs á jörðinni í yfir þrjá milljarða ára. Fyrir tilstilli ljóstillífunar nýta plöntur, þörungar, sumar bakteríur og frumdýr sólarorku til að ná kolefni úr andrúmsloftinu og nýta það til næringar og í vefi sína. Þó er það svo, að í of miklu magni ógnar koltvísýringur í lofthjúpnum framtíð lífsins á jörðinni, að minnsta kosti framtíð þess mannlífs sem við þekkjum nú. Koltvísýringurinn lokar inni varma niður við jörð sem ella geislaði út í geiminn. Frá iðnbyltingu hefur hlutfall CO2 í lofthjúpnum aukist mjög enda ákvað mannkyn að nýta sér til framfara þær risastóru kolefnisgeymslur sem er að finna í iðrum jarðar sem olíu, kol og jarðgas. Þessar kolefnisgeymslur hafa verið að myndast í hundruð milljóna ára úr leifum lífvera sem lifðu, önduðu og dóu hér á jörðinni.
 
Verkefni okkar jarðarbúa nú er að hætta að bæta í þann kolefnisforða sem við höfum verið að byggja upp í lofthjúpnum með athöfnum okkar í um 250 ár en allra mest síðustu áratugi. Því miður hefur mannkynið aldrei mengað meira en nú þrátt fyrir alþjóðlega samninga um loftslagsmál. Ef við brennum olíu þurfum við að bíða í tugi eða hundruð milljóna ára eftir því að jafnmikið kolefni bindist á ný sem olía. Það er of langur tími til að teljast sjálfbært á mælikvarða okkar. Við þurfum að binda kolefnið hraðar.
 
Stingum út!
 
Ímyndum okkur fjóshaug. Haughúsið er að verða fullt. Þá er tvennt til ráða. Við getum hætt með kýr eða mokað úr haugnum. Reyndar mætti líka fara bil beggja. Við gætum líka fækkað kúnum og þá er magnið minna sem við þurfum að losa úr haughúsinu. Við höfum notað lofthjúp jarðar eins og fjóshaug frá iðnbyltingu og nú er svo komið að meira verður ekki bætt í hann án þess að illa fari. Verkefni okkar er að draga smám saman úr því sem við bætum í hauginn og reyna að moka úr honum líka. 
 
Margs konar verkfæri koma að gagni við þennan mokstur. Eitt af þeim er skógur. Nýlegar niðurstöður Crowther Lab vísindastofnunarinnar í Sviss sýna okkur að nægilegt landrými er fyrir hendi á jörðinni til að rækta skóg sem á næsta mannsaldri gæti bundið tvo þriðju af öllu því kolefni sem mannkynið hefur samanlagt losað frá iðnbyltingu. Ekki er víst að allur sá skógur verði ræktaður en þetta sýnir okkur hvers skógarnir eru megnugir, líka hérlendis. Skógrækt er góð skófla til að moka úr kolefnisforðanum í lofthjúpnum sem mannkynið hefur látið safnast upp líkt og vanhirtan fjóshaug. Trén geta mokað úr þeim fjóshaug fyrir okkur.
 
Stöðug binding í nytjaskógi
 
Að uppnefna ræktaða skóga á Íslandi „plantekrur“ eins og Snorri Baldursson, deildarforseti við LbhÍ, gerði í Bændablaðsgrein 24. október, er ekki málefnalegt. Hann talar vel um vistheimt en niður til skógræktar og annarrar ræktunar. Ræktaðir skógar á Íslandi eru langlífir og í þeim þroskast skógarvistkerfi, sem fóstrar fjölbreytta flóru og fánu. Grisjun skóganna hjálpar til svo vistkerfi skógarins verði fjölbreytt og heilbrigt. Jarðrask er sáralítið, áburðarnotkun einnig og engin eiturefni notuð. Vissulega er skógurinn loks felldur en ef hann er ræktaður með sjálfbærum hætti hverfur hann ekki. Um helmingur þess kolefnisforða sem skógurinn hefur bundið verður eftir sem kolefni í jarðvegi. Rætur, greinar og lauf eða barr sem aukið hefur á kolefnisforða jarðvegsins er almennt skilið eftir. Kolefnisbinding skógarins heldur svo áfram með nýjum trjám sem ýmist vaxa upp af fræi eða gróðursettum plöntum. Samfelldur skógur, samfelld binding.
 
Jafnvel þótt ein eða fáar trjátegundir séu ríkjandi í skógi hefur það ekkert gildi að uppnefna skóginn plantekru. Íslenskir birkiskógar eru að mestu ein trjátegund, birki, með stöku reynivið og víði inn á milli. Í frumskógum víða um heim er gjarnan ein tegund ríkjandi þótt það eigi ekki við um regnskóga hitabeltisins. Tegundafjölbreytni í íslenskum nytjaskógum er síst minni en víða í  frumskógum. Nytjaskóga má rækta með þeim hætti að þeir verði öflug, fjölbreytt og gjöful vistkerfi og það er gert á Íslandi.
 
Áðurnefndur deildarforseti LbhÍ, sem raunar er yfirmaður skógfræðináms við skólann, gefur ranga mynd af nytjaskógrækt í grein sinni. Hann skrifar að í nytjaskógum bindist vissulega mikið kolefni á stuttum tíma en ofanjarðarhluti þess kolefnis sé fjarlægður eftir einhverja áratugi og mestu af því brennt aftur og losað út í andrúmsloftið. Sannarlega er iðnviður til brennslu mikilvægur því það er miklu betra að fá brenni úr skógi en nota kol, olíu eða gas. Kolefnið sem losnaði úr viðnum binst fljótt aftur í nýjum trjám þegar skógar eru ræktaðir og nytjaðir með sjálfbærum hætti. Kolefnið úr olíu eða jarðkolum er hins vegar ný viðbót sem núverandi vistkerfi ná ekki að binda. Svo er það keppikefli í íslenskum skógarnytjum að þróa notkunarmöguleika viðarins sem fela í sér varðveislu kolefnisins í honum til lengri tíma, t.d. í byggingum eða húsgögnum. Nytjaviður getur leyst af hólmi efni sem valda mikilli losun eins og stál og steinsteypu.
 
Bæði náttúruskóga og nytjaskóga
 
Snorri gefur í skyn að skógrækt sé ekki lausn á loftslagsvanda mannkyns heldur viðhaldi hún þvert á móti neyslusamfélaginu og skyndilausnum þess. Hann vitnar til greinar eftir Simon L. Lewis í tímaritinu Nature þar sem fullyrt sé að endurheimt náttúruskóga í hitabeltinu sé mun áhrifaríkari og varanlegri leið til að binda kolefni en „plantekruskógar“ eins og hann kýs að kalla nytjaskóga. Munurinn geti verið allt að fertugfaldur, náttúruskógum í vil.
 
Illt er að afvegaleiða fólk með þessum hætti. Í grein Lewis er einungis fjallað um samanburð á ræktuðum skógum Eucalyptus- og Acacia-tegunda í hitabeltinu, sem eru ræktaðir í mjög þröngum tilgangi til pappírsframleiðslu, og náttúrlegum regnskógum sem ekki eru felldir. Trén í fyrrnefndu skógunum eru felld eftir 10 ár eða svo frá gróðursetningu. Ekkert af því sem þarna er til umfjöllunar á við um skógrækt á Íslandi, ekki einu sinni um asparrækt í 25 ára lotum. Augljóslega er villandi að bera saman 80 m háa regnskóga með 100 trjátegundir á hektara og íslenska birkiskóga sem oftast eru undir 2 m á hæð og verða sjaldnast nema 50-70 ára gamlir. 
 
Við eigum bæði að útbreiða birkiskóga og rækta nytjaskóg. Hvort tveggja hefur loftslagsávinning í för með sér. Skógræktin hefur unnið að því að friða og útbreiða birkiskóga frá árinu 1905 og heldur því áfram. Birkiskógarnir hafa á þeim tíma breiðst margfalt meira út en ræktuðu skógarnir. Ræktuðu skógarnir binda hins vegar miklu meira á hverjum hektara lands, gefa annars konar verðmæti en birkiskógar og líffjölbreytni er síst minni. 
 
Sama rósin sprettur aldrei aftur
 
Náttúran er síbreytileg. Birkiskógar sem við breiðum út á ný verða ekki eins og þeir sem hér voru við landnám. Þeir fóstra ýmsar lífverur sem þá fundust ekki á Íslandi. Skógur er alltaf skógur, burtséð frá uppruna þeirra tegunda sem þar þrífast. Skógar gera gagn, hvort sem það er að fóstra lífríki, vernda jarðveg, skapa skjól, binda kolefni eða framleiða timbur. Þessi gagnsemi skóga hefur verið nefnd þjónusta, jafnvel vistkerfisþjónusta. Skiptir kannski meira máli hvaða þjónustu skógarnir veita en hvaða trjátegundir vaxa þar?  Ræktun hvers kyns skóga felur í sér ákveðna vistheimt en það hugtak er umfjöllunarefni í nefndri grein Snorra í Bændablaðinu. 
 
Við getum bundið mjög mikið kolefni með nytjaskógum á örlitlu broti landsins. Nú þegar binda nytjaskógar á hálfu prósenti landsins um 10% af losun landsmanna. Við þyrftum einungis nytjaskóg á 5% landsins til að binda allt kolefni sem þjóðin þarf að standa skil á. Það þætti þó enn lítil skógarþekja í samanburði heimsins. Engin ein leið er „eina ásættanlega leiðin“ til að bæta kolefnisbúskap landsvæða og sama rósin sprettur aldrei aftur. Við þurfum að nota margar leiðir og horfa til framtíðar.
 
Pétur Halldórsson
Höfundur starfar að kynningarmálum hjá Skógræktinni
Kosningarnar snúast líka um landbúnað
Lesendarýni 21. nóvember 2024

Kosningarnar snúast líka um landbúnað

Frá upphafi hefur landbúnaður gegnt lykilhlutverki í að móta íslenska menningu o...

Af virðingu við landið
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Af virðingu við landið

Í aðdraganda kosninga erum við ítrekað minnt á að margar stærstu áskoranir samfé...

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni

Eru hjúkrunarheimili á landsbyggðinni með viðunandi fjármögnun? Er tilefni til a...

Vegleysur á Vestfjörðum
Lesendarýni 18. nóvember 2024

Vegleysur á Vestfjörðum

Sem frambjóðandi á ferð fór ég akandi um Vestfirði um helgina. Vegur um Strandir...

Kosningar og hvað svo?
Lesendarýni 15. nóvember 2024

Kosningar og hvað svo?

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtu Bændasamtök Íslands áskorun til frambjóð...

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu
Lesendarýni 13. nóvember 2024

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu

Það er stór ábyrgðarhluti stjórnvalda að reyna að tryggja að atvinnugreinar séu ...

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara
Lesendarýni 12. nóvember 2024

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara

Eyrnamörk eða fjármörk eru, eins og margir þekkja, skurðir í eyru á fé til að sk...

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi
Lesendarýni 11. nóvember 2024

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi

Landbúnaður hefur löngum verið ein af burðarstoðum atvinnulífs í Norðausturkjörd...