Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Grýlan er rammíslensk
Lesendarýni 8. febrúar 2024

Grýlan er rammíslensk

Höfundur: Oddný Anna Björnsdóttir, framkvæmdastjóri SSFM/BFB.

Í skýrslu sem Margrét Einarsdóttir lagaprófessor vann fyrir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið um innleiðingu EES-reglna í landsrétt á málefnasviði ráðuneytisins á árunum 2010–2022, kemur fram að í 41% tilvika voru reglurnar meira íþyngjandi en EES-samstarfið kveður á um.

Ef eingöngu er litið til sl. fjögurra ára var hlutfallið 50% sem sýnir að vandamálið hefur verið að aukast. Þessi herðing á reglum og heimasmíðuðu ákvæði hafa verið kölluð gullhúðun eða blýhúðun. Eitt lítið dæmi sem útskýrir vandann mjög vel er þegar ákveðið var í innleiðingarferli að krefjast þess að lagnir í jörð færu í umhverfismat ef þær væru lengri en 1 km þó regluverk ESB krefðist þess að það yrði gert ef þær væru lengri en 40 km.

Annað dæmi er þegar innleiddar voru íþyngjandi reglur á stórfyrirtæki. Á Íslandi var fjöldi þeirra fyrirtækja teljandi á fingrum annarrar handar og því var ákveðið að útvíkka þær svo þær næðu einnig til minni fyrirtækja sem hafði óþarfa íþyngjandi áhrif á hundruð fyrirtækja. Um þetta var fjallað á framleiðsluþingi Samtaka iðnaðarins á dögunum en upptökuna má nálgast á vef samtakanna.

Dregur úr verðmætasköpun og samkeppnishæfni Íslands

Undirrituð hefur kosið að nota orðið blýhúðun frekar en gullhúðun því það lýsir betur áhrifum íþyngjandi regluverks þegar það leggst af fullum þunga yfir atvinnulífið og borgarana. Blýhúðunin dregur úr framkvæmdavilja, verðmætasköpun, veldur óþarfa töfum og eykur kostnað við verk og athafnir. Fyrirtæki hafa svo engra annarra kosta völ en að velta þessum heimatilbúna aukakostnaði út í verðlagið.

Blýhúðunin á einnig við um regluverk sem almenningur þarf að lúta og skerðir því að óþörfu ráðstöfunartekjur og dýrmætan tíma venjulegs fólks. Heildarárhrifin eru þau að blýhúðunin dregur úr lífsgæðum og hagsæld hér á landi sem og samkeppnishæfni Íslands.

Ekki allt ESB / EES samningum að kenna

Samtök smáframleiðenda matvæla og Beint frá býli (SSFM/BFB) hafa um árabil bent á að regluverk Evrópusambandsins sé ekki sú Grýla sem margir vilja meina að það sé, heldur sé Grýlan að stórum hluta alíslensk, eins og móðir íslensku jólasveinanna.

Grýlan birtist ekki einungis í hertari reglum og heimasmíðuðum ákvæðum í innleidda regluverkinu. Þegar kemur að framkvæmdinni læsir hún klónum ekki síður í fólk og fyrirtæki.

Með því er átt við þær heimatilbúnu hindranir sem eftirlitsaðilar búa allt of oft til í leyfisveitingaferlinu og við reglubundið eftirlit sem og viljaleysið til að nýta það svigrúm sem þó er gefið í innleidda regluverkinu, sinna leiðbeiningaskyldu og virða tímafresti.

Losum heimatilbúnu hlekkina

Utanríkisráðherra skipaði á dögunum starfshóp um aðgerðir gegn umræddri gullhúðun. Í frétt frá ráðuneytinu kemur fram að „starfshópurinn skuli taka mið af fyrri vinnu og skoða einstök tilvik um gullhúðun sem hópurinn fær ábendingar um eða hafa komið fram á öðrum vettvangi. Hópurinn geti í framhaldi af því lagt til almennar úrbætur eða vegna einstakra mála sem eru til þess fallnar að draga úr áhættunni á að gullhúðun eigi sér stað.“

Ekki er dregið úr mikilvægi þeirrar vinnu, þá sérstaklega ef hópurinn kemur með hugmyndir að úrbótum sem koma í veg fyrir að hægt sé að blýhúða regluverkið án vitundar og umræðu á Alþingi. En það er morgunljóst að ekki er nóg að skoða handahófskennt einstök mál á ólíkum málefnasviðum.Nauðsynlegt er að hver og einn ráðherra fái sérfræðing til að rýna regluverkið á sínu málefnasviði og gera sambærilega skýrslu. Engin ein aðgerð hefur meiri möguleika á að draga úr óþarfa kostnaði og verðbólgu en sú aðgerð; og það besta er að kostnaðurinn við slíka vinnu er brotabrotabrot af þeim fjárhagslega ávinningi sem hún hefur möguleika á að skapa. Matvælaráðuneytið er þar engin undantekning enda erum við í SSFM/BFB ekki í nokkrum vafa um að niðurstaðan yrði sambærileg ef regluverkið á málefnasviði þess yrði rýnt; enda bent á ýmis tilvik í ræðu og riti á undanförnum árum.

Skorum á starfandi matvælaráðherra

Við skorum því á starfandi matvælaráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, að fara fram á sambærilega úttekt án tafar, enda fáar aðgerðir betur til þess fallnar að auka innlenda matvælaframleiðslu og gera hana arðbærari. Ekki er vanþörf á.

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...