Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Kartöflumyglan og innflutt útsæði
Lesendarýni 21. maí 2015

Kartöflumyglan og innflutt útsæði

Höfundur: Sigurgeir Ólafsson
Kartöflumyglan er einhver þekktasti og útbreiddasti sjúkdómur á kartöflum í Evrópu. Sveppurinn (Phytophthora infestans) sem henni veldur er upprunninn í Mexíkó og herjaði fyrst í Evrópu árið 1845 og 1846. Alþekktar eru þær hörmungar sem myglufaraldurinn olli þessi ár í mörgum löndum og þá sérstaklega í Írlandi en engir voru eins háðir kartöflunni til matar eins og Írar.
 
Sigurgeir Ólafsson.
Á Íslandi var myglan landlæg frá um 1890 og fram yfir 1960. Tjón var misjafnt milli ára en sennilega var það einna mest árið 1953 þegar metuppskera fékkst en stór hluti hennar rotnaði í geymslum bænda. Útbreiðslusvæðið var frá Snæfellsnesi austur um til Reyðarfjarðar. Aldrei var tjón á Norðurlandi en þess þó getið að til hennar hafi sést. Til þess að myglufaraldur verði þarf veðurfar að vera hagstætt fyrir hana yfir lengri tíma um sumarið, hlýindi og raki en það fer fremur saman á syðri hluta landsins en á Norðurlandi.
 
Með kólnandi veðurfari virtist myglan hverfa hér upp úr 1960. Hún sást haustið 1984 á suðvesturhorni landsins en ekki á Suðurlandi þrátt fyrir ágætis mygluskilyrði þar. Sumarið 1988 voru einnig ágætis mygluskilyrði á Suðurlandi án þess að sæist til myglu. Haustið 1990 varð síðan myglufaraldur á Suðurlandi og aftur sumarið 1991. Einungis sást til myglu í einum garði 1992 en ekkert kalda sumarið 1993. Þá virðist myglan vera horfin á ný úr innlendu útsæði þvi ekkert bar á henni næstu ár þrátt fyrir oft ágætis skilyrði. Þannig var það mat höfundar að sumarið 1998 hafi verið fullnægjandi veðurfarsskilyrði fyrir myglu en ekki kom myglan. Síðan gerist það að myglufaraldur kemur upp á Suðurlandi sumarið 1999. Eftir það má segja að myglan hafi verið landlæg á Suðurlandi þótt vissulega hafi komið þurr sumur þar sem ekki hafi sést til hennar en ekki hefur verið  fylgst nægjanlega með myglu og mygluskilyrðum til að unnt sé að staðhæfa hvort smit hafi horfið úr innlendu útsæði. Bændur úða því garða sína gjarnan fyrirbyggjandi með sveppalyfjum telji þeir veðurfar hagstætt fyrir myglu. Áhætta og álag af myglu hér á landi er þó verulega minna en annars staðar í Evrópu og nægir hér oft að úða einu til tvisvar sinnum en erlendis er algengt að úða 7-10 sinnum og jafnvel oftar.  
 
Myglan er það algengur sjúkdómur í Evrópu að ávallt má búast við að smit geti verið til staðar þegar fluttar eru inn kartöflur hvort sem það eru matarkartöflur eða útsæði. Sveppgróin sem dreifa sjúkdómnum eru viðkvæm og þola illa þurrk en ná þó að berast milli nálægra landa í Evrópu en nær útilokað er að þau nái að lifa af flutning með loftstraumum hingað. Því má fullyrða að þegar mygla kviknar hér eftir myglufrí tímabil þá hafi smit borist með innfluttu útsæði. Dæmi eru þó um að sveppurinn geti myndað kynjuð egggró sem lifað geti í jarðvegi yfir veturinn en við göngum út frá því að svo sé ekki enn hér á landi og að garðurinn sé laus við smit að vori svo fremi sem frjósi almennilega og kartöflur lifi ekki af veturinn í jörð. 
 
Það er venja erlendis að úða fyrirbyggjandi gegn myglu og ef mygluvarnir takast vel virðist vera lítil hætta á að kartöflurnar beri smit. Ef hins vegar votviðrasamt veðurfar gerir mönnum ókleift að úða samkvæmt áætlun og mygla nær sér á strik í garðinum aukast líkurnar á því að útsæðisuppskeran beri með sér smit yfir í næstu ræktun. Breytt hegðun myglunnar að undanförnu með kynæxlun hefur gert mygluvarnir erfiðari vegna myndunar egggróa og jarðvegssmits og vegna aukinnar þolmyndunar gegn vissum kerfisvirkum varnarefnum.  
 
Þegar mygla kom hér upp árið 1990 eru líkur á að smit hafi borist með Gullauga frá Noregi sem flutt var inn vorið 1990 og 1991. Það kom frá Troms fylki í Norður-Noregi og var það staðfest að mygla hefði herjað þar bæði 1989 og 1990. Þegar mygla kom upp á ný árið 1999 eftir nokkur myglufrí ár eru líkur á að smit hafi komið með hollenskum Premiere sem fluttur var inn vorið 1999. Árið áður hafði mygla sést í maíbyrjun í Hollandi og samfelldar rigningar í júní og júlí torvelduðu mygluvarnir og þar af leiðandi hefur verið óvenjulega mikið smit í útsæði.
 
Eins og áður var getið hefur mygla aldrei valdið tjóni í Eyjafirði þótt oft hafi menn sett þar niður innflutt útsæði og smit því borist þangað eins og á Suðurlandi. Þar fara hins vegar síður saman hlýindi og raki. Að jafnaði er mun þurrara í Eyjafirði en á Suðurlandi. Svo virðist þó sem mygla hafi komið upp í Eyjafirði sumarið 2014 án þess þó að valda verulegu tjóni. Höfundur fann myglukartöflur á þremur bæjum en á einum þeirra var sett niður innflutt útsæði um vorið. Veðurfar var mjög óvenjulegt síðastliðið sumar í Eyjafirði.  Á Akureyri var meðalhiti í júli 2,7°C yfir meðaltali áranna 1961-1990 og úrkoman tvöföld meðalúrkoma júlímánaðar eða 73,1 mm. Ágúst og september voru einnig hlýir. Hagstæð skilyrði fyrir mygluna komu ítrekað í júní, júlí og ágúst með nægum hita og raka.  
Ekki hefur sést til myglu á Hornafirði síðustu 50-60 ár þótt veðurfar sé þar oft hagstætt fyrir myglu. Er það einkum því að þakka að bændur þar hafa verið samstíga í því að setja ekki niður innflutt útsæði og smit hefur ekki náð að berast þangað með vindi af Suðurlandi.
Svo virðist sem myglusmit geti nánast horfið úr innlendu útsæði komi nokkur ár í röð þar sem veðurfarsskilyrði eru óhagstæð fyrir myglu og ræktendur beita virkum mygluvörnum. Lítil hætta er á að smit berist með innfluttu útsæði hafi vel tekist til með mygluvarnir á ræktunarstað útsæðisins. Hins vegar er veruleg hætta á að myglusmit berist með útsæðinu hafi myglan náð sér á strik í útsæðisgarðinum vegna misheppnaðra mygluvarna. Góð varúðarregla er að úða garða með innfluttu útsæði með læknandi myglulyfi, einkum ef fréttist af erfiðum mygluskilyrðum á ræktunarstað útsæðisins  og þegar talið er að smit sé horfið úr innlendu útsæði. 
Almennt má segja að myglulyf séu af tvennum toga. Annars vegar eru lyf sem hafa einungis fyrirbyggjandi verkun. Þau mynda varnarlag á yfirborði blaða og stöngla og hindra smitun frá loftbornum sveppgróum. Þau geta haft djúpverkun í blaðinu en fara ekki eftir leiðslukerfinu um plöntuna (eru ekki kerfisvirk). Slík efni eru m.a.  Shirlan (fluazinam), Ranman (cyazofamid) og Dithane (mancozeb). Hins vegar eru efni sem til viðbótar við hinn fyrirbyggjandi þátt innihalda kerfisvirk efni sem berast um plöntuna og geta stöðvað mygluna í þegar smitaðri plöntu og varið nývöxtinn í einhvern tíma. Slík efni eru m.a. Epok (metalaxyl-M + fluazinam), Ridomil Gold MZ Pepite (metalaxyl-M + mancozeb), Consento (propamocarb + fenamidon) og Proxanil (propamocarb + cymoxanil). Einungis Dithane, Epok og Shirlan eru heimiluð hér eins og er.
 
Sigurgeir Ólafsson
plöntusjúkdómafræðingur
 
Sjá nánar:
Sigurgeir Ólafsson (1992). Kartöflumyglan. Freyr 88 (8),
s. 325-333.
Sigurgeir Ólafsson (1998). Kartöflumyglan – ógn í fortíð og framtíð. Morgunblaðið
25. janúar 1998. s. 30-31.
Sigurgeir Ólafsson (2000). Kartöflumyglan og sumarið 2000. Bændablaðið 14. mars 2000. s.10.

2 myndir:

Öflug innlend matvælaframleiðsla
Lesendarýni 22. nóvember 2024

Öflug innlend matvælaframleiðsla

Kosningar í lok þessa mánaðar munu ekki einungis skera úr um hverjir sitja á Alþ...

Kosningarnar snúast líka um landbúnað
Lesendarýni 21. nóvember 2024

Kosningarnar snúast líka um landbúnað

Frá upphafi hefur landbúnaður gegnt lykilhlutverki í að móta íslenska menningu o...

Af virðingu við landið
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Af virðingu við landið

Í aðdraganda kosninga erum við ítrekað minnt á að margar stærstu áskoranir samfé...

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni

Eru hjúkrunarheimili á landsbyggðinni með viðunandi fjármögnun? Er tilefni til a...

Vegleysur á Vestfjörðum
Lesendarýni 18. nóvember 2024

Vegleysur á Vestfjörðum

Sem frambjóðandi á ferð fór ég akandi um Vestfirði um helgina. Vegur um Strandir...

Kosningar og hvað svo?
Lesendarýni 15. nóvember 2024

Kosningar og hvað svo?

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtu Bændasamtök Íslands áskorun til frambjóð...

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu
Lesendarýni 13. nóvember 2024

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu

Það er stór ábyrgðarhluti stjórnvalda að reyna að tryggja að atvinnugreinar séu ...

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara
Lesendarýni 12. nóvember 2024

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara

Eyrnamörk eða fjármörk eru, eins og margir þekkja, skurðir í eyru á fé til að sk...