Landbúnaðurinn skotinn úr hendi stjórnarráðsins 2007
Höfundur: Guðni Ágústsson
Nokkrir áhrifamenn hafa verið að velta fyrir sér stöðu og áhrifum landbúnaðarins og hversu öll umgjörðin bæði í stjórnarráðinu og félagskerfi bænda virðist hafa veikst á síðustu árum. Höfum samt eitt á hreinu að núverandi forystumenn bænda og nýr landbúnaðarráðherra, Kristján Þór Júlíusson, eru ekki viðriðnir þessar miklu kerfisbreytingar sem ég tel að hafi verið skaðlegar fyrir málefni bænda og landbúnaðarins.
Ég tel eitt stærsta verkefnið meðal forystumanna bænda nú vera að leita leiða til að laga þessa stöðu í samráði við stjórnmála-menn, þar eru ráðherrarnir Kristján Þór Júlíusson, Bjarni Benediktsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Katrín Jakobsdóttir lykilmenn ásamt alþingismönnum úr öllum flokkum.
Landbúnaðurinn smátt og smátt settur í rassvasabókhald
Ég tel að landbúnaðurinn hafi smátt og smátt verið settur í rassvasabókhald með stjórnarráðsbreytingunum miklu árið 2007. Þá tók við völdum ríkisstjórn Geirs H Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur en þá var tekið að hræra einhliða í stjórnarráðinu með óljósum tilgangi. Þá var ákveðið meðal annars að setja í eitt ráðuneyti landbúnað og sjávarútveg.
Sigurgeir Þorgeirsson, þá framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, var gerður að ráðuneytisstjóra hins nýja ráðuneytis, vænn og öflugur maður landbúnaðarins. Hann átti að vera svona smá brjóstsykur í munninn á bændum sem sýndu góðan vilja. Síðan komu kerfisbreytingar frá ESB sem kröfðust breytinga á félagskerfi bænda, með afleitum afleiðingum.
Landbúnaðurinn hornreka í ráðuneytinu
Ég og fleiri vöruðum við þessari stefnumörkun á Alþingi 2007 og gagnrýndum þessa breytingu hart á þeirri forsendu að þessir mikilvægu atvinnuvegir ættu ekki vel saman í einu ráðuneyti, afleiðingin yrði sú að landbúnaðurinn yrði hornreka. Sjávarútvegurinn, með þeim stærstu sinnar tegundar í veröldinni en hinn, þ.e. landbúnaðurinn, smár í sniðum.
Sjávarútvegurinn og kvótakerfi hans er umdeilt og alltaf uppi harðvítugar deilur um þennan mikilvæga atvinnuveg.
Landbúnaður á Íslandi er mjög einstakur og var í mjög góðri stöðu þá meðal þjóðarinnar, og þjóðin styður enn sinn góða landbúnað. Landbúnaðurinn er styrktur hér sem annars staðar en sjávarútvegurinn sterkur hér án allra styrkja, en nýtur styrkja víðast í Evrópu.
Landbúnaðurinn hefði farið betur með t.d. samgöngu- og byggðamálum eins og í tíð landbúnaðarráðherranna Ingólfs Jónssonar, Halldórs E. Sigurðssonar, Steingríms J. Sigfússonar og Halldórs Blöndals. Að auki voru hrein landbúnaðarverkefni færð annað eins og Skógrækt og Landgræðsla undir umhverfisráðuneyti, en hvort tveggja tilheyrir landbúnaðarmálum um víða veröld.
Landbúnaðarháskólarnir á Hvanneyri og Hólum voru settir í menntamálaráðuneytið, Rannsóknarstofnun landbúnaðarins (RALA) var sömuleiðis færð frá atvinnuveginum, vísindin og rannsóknirnar, sem eru grunnur framfara í landbúnaði.
Búnaðarstofan sett undir MAST, hvers vegna?
Ekki batnaði staða landbúnaðarins og bænda þegar nýja Búnaðarstofan eða stuðningskerfi landbúnaðarins, fjöreggið, var sett undir Matvælastofnun, eftirlitsstofnun ríkisins, þegjandi og hljóðalaust. Nú heyra stuðningsgreiðslur bænda og hagtölusöfnun landbúnaðarins, og svo margt, margt fleira undir þessa stofnun, sem er komin langt út fyrir sitt fagsvið.
Búnaðarstofan hefði átt að vera sjálfstæð stjórnsýslustofnun og heyra beint undir ráðuneyti landbúnaðarmála.
Mikill vafi er á því hvort þetta fyrirkomulag stenst góða stjórnsýsluhætti þar sem illa fer saman að hafa eftirlit með bændum og á sama tíma greiða þeim stuðningsgreiðslur.
Að mínu áliti er mjög brýnt að breyta þessu fyrirkomulagi án tafar því með þessu eru hagsmunir bænda fyrir borð bornir.
Svo má ekki gleyma því að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar steig nýtt risaskref og bjó til atvinnuvegaráðuneytið og bætti við málaflokkum og hengdi svo einn ráðuneytisstjóra yfir tvo ráðherra og nokkur ráðuneyti, það stærsta í sögu stjórnarráðsins. Það er skrýtin stjórnsýsla, en sýnir kannski best hvernig er komið fyrir stjórnsýslu í landbúnaði, þegar best menntaði embættismaðurinn í þessu risavaxna ráðuneyti, Sigurgeir Þorgeirsson, doktor í búvísindum og sérfræðingur í sauðfjárrækt, var færður úr landbúnaðarmálum og settur yfir feitan makríl sjávarútvegsmegin í ráðuneytinu.
90% allra matvæla koma frá bændum
Það sjá allir að þessar miklu breytingar gera það að verkum að landbúnaðurinn fær minni og minni athygli ráðherra síns og stjórnvalda og starfsfólks í stjórnsýslunni.
Faglærðu starfsfólki sem sinnir landbúnaðinum hefur fækkar með markvissum hætti og rödd landbúnaðarins innan stjórnarráðsins verður sífellt lágværari – og hverfur að lokum.
Auðvitað mátti breyta einhverju og nýir tímar kalla á breytingar en þessi umbylting öll var óvirðing við einn aðal höfuðatvinnuveg landsins; landbúnaðinn, og „Matvælalandið Ísland“.
Munum að 90% allra matvæla koma frá bændum og landbúnaðarráðuneyti er aðalsmerki matvælaþjóðar. Ég kynntist sterkri hlið landbúnaðarmála í Noregi á minni tíð sem landbúnaðarráðherra, þar var Per Harald ráðuneytisstjóri. Hann hafði lifað 18 landbúnaðarráðherra og var einstakur embættismaður sem kunni sitt fag.
Ég tel að gott væri fyrir okkur Íslendinga að kynna okkur stöðu landbúnaðarins í Noregi og reyndar víðar. Málefni landbúnaðarins innan stjórnarráðsins eru ekki í brennidepli lengur og félagskerfi bænda er alltof veikt.
Bændablaðið er vinsælt og mikilvægt sem sverð og skjöldur sveitanna. Bændaforystan og öflugir félagsmálamenn, bæði frá bændum og stjórnmálamönnum, eiga að meta þessa stöðu upp á nýtt, gera það án allra ásakana horfa beint fram og draga nýjar línur í sandinn, með framsækinn og öflugan landbúnað á Íslandi að leiðarljósi. Við eigum frábæran landbúnað og eigum að framleiða sem mest af okkar matvælum í okkar landi.