Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Landgræðsla og sjálfbærniviðmið
Lesendarýni 16. febrúar 2022

Landgræðsla og sjálfbærniviðmið

Höfundur: Oddný Steina Valsdóttir

Landgræðsla er fallegt orð. Með landgræðslu er landið okkar, sjálf móðir jörð klædd gróðri og gædd lífi. Forsenda þess er að byggja upp jarðveg sem er undirstaða flests sem við þurfum í raun, helstu grunnþarfa mannsins og flestra annarra dýrategunda.

Á Íslandi eru víða möguleikar til landgræðslu, það hefur mikið verk verið unnið undanfarið árhundrað, verkefnið sem enn er óunnið er engu að síður mikið. Þegar markið er sett um hvert skuli stefna við endurheimt landgæða er gjarnan vísað til líklegs ástands gróðurs og jarðvegs sem hér var þegar land var numið. Hversu sannar vangaveltur eru um mögulega gróðursæld og magn kolefnis í jarðvegi fyrir tíma mannsins getum við líklega aldrei verið alveg viss. Framvinda og hnignun gróðurs og jarðvegs getur átt náttúrulegar orsakir og á Íslandi eru til eyðimerkur frá náttúrunnar hendi. Engu að síður hefur hér gróður og jarðvegur víða tapast og týnst umfram eðlilegar náttúrulegar sveiflur og er ástæðan að líkindum samspil af áhrifum vegna nýtingar mannsins við óblíða veðráttu, eldgos og aðrar náttúruhamfarir. Ómögulegt er fyrir okkur nútímamanninn að áætla hlutdeild hvers áhrifaþáttar.

Í umræðunni virðist manni oft að sauðkindin hafi verið gerð að táknmynd og stærsta orsakaþætti gróðureyðingar. Þekkjandi vel til beitar sauðfjár og hvernig sú nýting hefur þróast hefur mér alltaf þótt sú hugmynd fremur ótrúleg en sú öllu líklegri að búfjárbeit og þá sér í lagi vetrarbeit hafi komið frekar inn sem áhrifaþáttur til að viðhalda gróðurleysi og þá einkum skógleysi þar sem hann hefur eyðst vegna eldsumbrota, verið hogginn til eldiviðaröflunar eða jafnvel brenndur til að skapa beiti- og slægnalönd. Hvernig sem því var farið er þetta gjaldið sem landið hefur greitt fyrir viðgang og viðhald íslenskrar þjóðar í gegnum aldirnar.

Uppbygging jarðvegsauðlindar og aukin fæðuöflun

Viðfangsefni okkar nú er ekki að verja orku í karp um þetta. Áskorunin er að halda ótrauð áfram að vinna til baka gróðurhuluna og byggja upp jarðvegsauðlind samhliða því að viðhalda og helst auka í fæðuöflun og fæðuöryggi fyrir landann. Þjóðin er langt frá því að vera sjálfri sér næg um mat. Við ættum að stefna að því að uppfylla nokkurn veginn þarfir fyrir kjöt og mjólkurvörur og auka hlutdeild kornvöru og grænmetis, en þar liggja líklega stærstu sóknarmöguleikarnir.

Hingað er fluttur inn allur tilbúinn áburður á meðan lífræn efni sem falla til eru ekki fullnýtt og er reyndar ýmislegt í okkar regluverki sem er verulega hamlandi þegar kemur að nýtingu lífrænna áburðarefna. Þetta er því alvöru áskorun. Það er margt sem vinnur með okkur, s.s. tækniframfarir og hlýtt veðurfar. En það eru einnig áskoranir, svo sem stóraukin umferð fólks um landið, einkum vegna aukins ferðamannafjölda. Gagnvart fæðuöfluninni er sveiflukennt umhverfi landbúnaðarins áhyggju­efni og reyndar sérstakur kapítuli. Vilja og skilning almennings og stjórnvalda þarf til að takast á við verkefni tengd landgræðslu og sjálfbærri landnýtingu, en fjármagn hefur aukist í málaflokkinn undanfarin ár. Við þurfum að skilja og geta greint áhrif núverandi nýtingar. Það er mikilvægt að setja fram reglur og viðmið um nýtingu til að fyrirbyggja eins og mögulegt er neikvæð áhrif hennar. Þessar reglur þurfa að vera rökréttar og skiljanlegar og gegna sínu hlutverki en á sama tíma vera sem minnst hamlandi fyrir matvælaframleiðslu og aðra mikilvæga landnýtingu.

Í landgræðslulögum er kveðið á um hvernig skuli vinna þessar reglur. Samkvæmt þeim skal Landgræðslan gera tillögu að viðmiðum um sjálfbæra landnýtingu er varða beit, jarðrækt, umferð og framkvæmdir. Stofnuninni er skylt að vinna þau í samráði við viðeigandi stofnanir, sveitarfélög og hagsmunaaðila. Ráðherra setur svo reglugerð þar um. Hljómar eins og ágætt fyrirkomulag, ekki satt? Á síðastliðnu ári skilaði Landgræðslan tillögu að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu til ráðherra. Ráðherra valdi að leggja þá tillögu óbreytta inn í samráðsgátt. Það er skemmst frá því að segja að þessi vinna fær algjöra útreið í umsögnum mjög margra aðila allt frá sveitarfélögum, bændum, öðrum hagsmunaaðilum og vísindafólki. Stofnuninni mistókst algjörlega að hafa viðmiðin skýr og auðskilin, þaðan af síður er regluverkið rökrétt eða sanngjarnt og augljóst að samráð við helstu aðila málsins var ýmist ófullnægjandi eða ekki neitt. Af umsögnunum að dæma á þetta einkum við um viðmið sem snúa að beit og jarðrækt.

Ginnungagap milli aðila

Það virðist vera ginnungagap milli aðila þegar kemur að viðhorfum til áhrifa búfjárbeitar á gróður. Margir afgreiða beit sem neikvæðan áhrifaþátt á gróður og setja núverandi nýtingu iðulega í samhengi við hnignunarsögu Íslands sem er auðvitað fráleitt. Þessi ágreiningur er ekki nýtilkominn en sauðfjárbændur beittu sér mjög fyrir því á meðan ég sat í stjórn Landssamtaka sauðfjárbænda að koma á vönduðu vöktunarkerfi fyrir gróðurauðlindina. Það varð loks að veruleika í kjölfar búvörusamninganna 2017 að skrifað var undir slíkt samkomulag milli samtaka bænda, ráðuneytisins og Landgræðslunnar sem hefur haldið á framkvæmd verkefnisins sem kallað er Grólind. Væntingar bænda með þessari samvinnu voru fyrst og fremst að byggja undir faglega grunninn þegar kemur að því að meta sjálfbær beitarnot og freista þess að brúa bil á milli viðhorfa. Smíði Landgræðslunnar á fyrrgreindum sjálfbærniviðmiðum urðu því gríðarleg vonbrigði og vandséð í hvaða tilgangi bændur ættu að halda samstarfi um vöktunarverkefni áfram ef ekki er stefnan að nota niðurstöður verkefnisins með vitrænum hætti inn í sjálfbærnimatið.

Það er ekki hægt að byggja stefnu um landgræðslustarf og stjórn beitarmála á einhverri óræðri teóríu. Byggja ætti á þeirri þekkingu sem er til og stefna að því að stoppa í götin þar sem hana vantar. Á þann hátt er hægt að leggja fram skýrar praktískar leiðir að settu marki. Þá er mikilvægt að allir hlutaðeigandi skilji hugtök eins og sjálfbær not á sama hátt. Þekking og skilningur verður einnig að vera á áhrifum beitar og búskaparháttum og þróun þeirra, jafnt sem á eðli og eiginleikum gróðurs og jarðvegs.

Hugmynd til umræðu, umhugsunar og gagnrýni

Það er ekki góður vani að gagnrýna vinnu annarra en leggja ekkert til. Á eftirfarandi skýringarmynd legg ég fram hugmynd að leið. Hugmyndin er til umræðu, umhugsunar og gagnrýni. Til að vinna matið þarf ástandsmat allra beitarhólfa að liggja fyrir. Það er síðan borið saman við viðmiðunarástand lands. Viðmiðunarástand á að lýsa því ástandi lands sem landið ætti að geta verið í miðað við náttúrulegar aðstæður s.s. hitastig, úrkomu, vindálag o.s.frv. Í næsta skrefi er landinu skipt eftir því hvort það samræmist viðmiðunarástandi eða ekki. Það land sem er í lakara ástandi en viðmiðið segir til um er til frekari skoðunar gagnvart sjálfbærri nýtingu. Annað land ekki, enda landið í ástandi miðað við aðstæður og ekki árangurs að vænta af aðgerðum, s.s. uppgræðslu eða breyttri landnotkun. Gert er ráð fyrir vöktun gróðurs og mat á þróun gróðurfars er nýtt í næsta skrefi. Það land sem er undir viðmiðunarástandi er flokkað í land í framför annars vegar og hins vegar í land sem er án framfara eða í afturför. Land í framför er ekki til frekari skoðunar. Hins vegar það land sem er undir viðmiðunarástandi og ekki í framför þarf að skoða sérstaklega gagnvart sjálfbærum notum. Á slíku landi er landbótaáætlana krafist og nýting og aðrir áhrifaþættir settir undir nálarauga. Skoða þarf beitarnotin, fjölda beitardaga og beitartíma. Leggja þarf mat á beitarummerki á svæðinu og önnur áhrif vegna búfjárbeitar. Meta önnur áhrif s.s. af villtum dýrum, umferð fólks o.fl. Út frá þessum upplýsingum eru lögð til inngrip eða beinar aðgerðir, s.s. landgræðslu eða breytta beitarstjórnun, væntanlega friðun í einhverjum tilfellum. Markmið og aðgerðaáætlun þar um sett fram í landbótaáætlun.

Eins og áður sagði er þessu varpað hér fram sem tillögu að nálgun. Samtalið þarf að eiga sér stað á breiðum grunni. Á meðan þekkingargrunnurinn er ekki traustari en raun ber vitni þurfa aðilar máls e.t.v. að teygja sig eftir sjónarmiðum til að byrja með. Engu að síður ætti að stefna að því að byggja svo undir þekkinguna að ákvarðanir séu teknar á grunni niðurstaðna og nokkuð öruggri vitneskju um afleiðingar og áhrif. Þá þarf að hafa í huga aðrar stoðir sjálfbærni en þá umhverfislegu þ.e. þegar landnotkun hefur veruleg efnahagsleg og kannski ekki síður samfélagsleg áhrif. Vonandi munu bændur og aðrir hagaðilar fá að koma að uppbyggilegu samtali um hvernig þessum takmörkunum verði fyrirkomið svo byggja megi traust sem flestra aðila á að þær leiði okkur að sem bestri niðurstöðu. Það er ekki bara mikilvægt heldur nauðsynlegt.

Oddný Steina Valsdóttir

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti
Lesendarýni 5. júlí 2024

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti

Í síðasta eintaki af Bbl. birtist grein um það hvernig öldusveigjan umhverfis Ve...

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra
Lesendarýni 2. júlí 2024

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra

Velferð dýra er ófrávíkjanleg krafa siðmenntaðs samfélags, hvort sem um ræðir gæ...

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn
Lesendarýni 24. júní 2024

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn

Fyrir röskum þremur árum ritaði greinarhöfundur þrjár greinar um landbúnað og sa...

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda
Lesendarýni 21. júní 2024

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda

Ágætu bændur. Í Bændablaðinu þann 16. maí sl. reifaði ég í bréfi til ykkar áhygg...

Af heimanautum og sæðinganautum
Lesendarýni 21. júní 2024

Af heimanautum og sæðinganautum

Mikil notkun heimanauta hefur um langa hríð verið eitt helsta umræðuefni og þræt...

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna
Lesendarýni 21. júní 2024

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna

Strandveiðitímabilið hófst í byrjun maí. Mikil veiði hefur verið enda mikið af f...

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki
Lesendarýni 20. júní 2024

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki

Tandrabretti ehf. hefur undanfarin ár unnið að uppbyggingu á viðarperluframleiðs...

Og svo kom vorið
Lesendarýni 18. júní 2024

Og svo kom vorið

Nú í byrjun júnímánaðar fengu landsmenn yfir sig sannkallað vetrarveður sem varð...