Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Megi það byrja hjá mér
Mynd / Bbl
Lesendarýni 14. maí 2019

Megi það byrja hjá mér

Höfundur: Sigríður Ævarsdóttir
Í náttúrunni er ekkert til sem heitir rusl. Þar er allt fullnýtt. Það sem er úrgangur frá einni starfsemi eða einni lífveru er nýtt af annarri og til verður hringrás efna og orku þar sem ekkert er undanskilið og allt hefur tilgang og markmið. 
 
Þessa dagana horfum við á heilu sjónvarpsseríurnar þar sem okkur eru sýndar afleiðingar ósjálfbærs lífsstíls mannskepnunnar, hvernig heilu vistkerfin eru að hrynja undan afleiðingum skilningsleysis og meðvitundarleysis okkar mannkyns á stöðu okkar sem hluta í þessu sama kerfi. Við horfum á þættina í vantrú, frosin yfir þeim staðreyndum sem við blasa en eiginlega ekki að ná því samt að það erum ég og þú sem eigum hér sök og í ennþá meiri efa um að við getum komist af þessari braut, hvað þá fundið aðra betri.
 
Á hverjum einasta degi banka þessar spurningar upp á með einum eða öðrum hætti: Hvað getum við gert til að stoppa þessa þróun? Hvernig getum við tryggt börnunum okkar lífvænlega framtíð hér á jörðinni ? Eru ekki örugglega „hinir“ þ.e. einhverjir aðrir að gera eitthvað ? … og hinir … hverjir eru það ?  Þessir hinir erum við sjálf!   M.ö.o. breytingin verður að verða hjá hverjum og einum og dreifast þaðan.  
 
Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er ekki eins dags átak, ekki eitthvað sem klárast á vikum eða mánuði – heldur framtíðarverkefni – sem þýðir að alger hugafarsbreyting þarf að verða hjá öllum. Ávinningurinn er stór og til hans vinnandi, lífvænlegri framtíð hér á jörð. Þetta tekst einungis með samvinnu, ekki sundrungu og nú reynir á. Hver og einn þarf að taka þátt og tíminn er núna.
 
Mig langar með þessum skrifum að undirstrika og draga saman það sem við áður höfum heyrt  um þessi mál, þar sem góð vísa verður ekki of oft kveðin. Einnig að koma með mitt sérstaka tilboð, sem ég veit ekki til að hafi áður verið sett fram í þessum tilgangi. 
 
Hér er það sem allir geta gert án þess að fara í stórkostlegar eða kostnaðarsamar breytingar
á lífi sínu.
  1. Flokka sorpið og moltugera lífrænan úrgang. 
  2. Versla vörur úr nærumhverfi. 
  3. Minnka matarsóun og fullnýta allt hráefni sem til fellur, tæma ísskápinn.
  4. Hætta að kaupa einnota vörur og skipta yfir í fjölnota.
  5. Minnka plastnotkun og setja í endurvinnslu að notkun lokinni. Plast er hægt að endurvinna 1-2svar sinnum.
  6. Nota ál frekar en plast og skila svo í endurvinnslu. Hægt er að endurvinna ál endalaust og það á við um flesta aðra málma sem og gler.
  7. Draga úr neysluhyggju – kaupa það sem þarf, ekki það sem mann langar í ef maður þarf það ekki.  Fullnýta og endurnýta. Láta lagfæra það sem bilar, ekki kaupa bara nýtt.
  8. Hætta að eitra í jörðum og nota lífrænar og umhverfisvænar aðferðir við að halda sníkjudýrum í skefjum í garðrækt. Auka þannig líffræðilegan fjölbreytileika og minnka mengun á jarðvegi og jarðvatni.
  9. Velja með kortinu okkar – kaupa umhverfisvænar og vottaðar vörur umfram aðrar og búa þannig til hvata fyrir fyrirtæki til að vanda sig og huga að umhverfisþáttum og sýna samfélagslega ábyrgð við framleiðslu sína. 
  10. Ganga vel um og sýna sjálf samfélagslega ábyrgð og meðvitund. Það munar mann ekkert að hafa með sér poka eða annað ílát til að stinga í rusli sem maður gengur fram á í göngutúrum eða rekst á á áfangastöðum úti í náttúrunni.  Ekki bíða eftir að aðrir geri það – rusl sem ekki er hreinsað upp fýkur og endar oftar en ekki í sjónum með tilheyrandi mengun fyrir lífríkið þar. 
  11. Hugarfarsbreyting – lána, leigja, samnýta, vinna saman – það þurfa ekki allir að kaupa og eiga alla hluti sem notaðir eru – alls staðar þar sem það er hægt, m.a. í samgöngum, þarf að auka samnýtingu og minnka neyslu. 
Allir út að planta
 
Skógar eru lungu jarðarinnar. Þeir búa til það súrefni sem við þurfum til að geta lifað. Það gerir annar gróður líka. Það þarf að auka gróður á hvaða formi sem er til að vega upp á móti vaxandi gróðurhúsalofttegundum í andrúmslofti. Við þurfum að græða upp og við þurfum að planta trjám. Það þarf að gerast núna og það þarf að gerast hratt og í miklum mæli. 
 
Ég og bóndi minn eigum bújörð í Borgarfirði og hluti hennar er nú þegar skipulagður undir skógrækt. Utan þess svæðis er land sem einnig hentar vel til skógræktar en er ekki enn skipulagt sem slíkt. Nú langar mig að bjóða þeim sem ekki eiga land, en langar til að planta trjám, að setja  þar niður tré.  Svæðið verður skipulagt með það í huga, girt af og gert aðgengilegt til plöntunar, þeim sem vilja nýta sér, í samráði við okkur landeigendur. Einnig munum við leggja til húsdýraáburð, tilsögn og verkfæri sé þess þörf. Þetta tilboð fer í gang strax í vor og mun standa meðan pláss verður fyrir tré og runna á svæðinu. 
 
Ég sé fyrir mér að þeir sem geta nýtt sér þetta tilboð séu:
  1. Fólk sem vill kolefnisjafna ferðalög sín, bílinn sinn eða bara setja niður tré til að sporna við loftslagsbreytingum getur komið og sett þau niður hér.
  2. Fólk sem er að grisja í garðinum sínum og þarf að taka upp stálpaðar plöntur og vill ekki henda þeim. Það getur komið með þær og sett þær niður hér.
  3. Fólk sem á ungar plöntur, stiklinga, eða sjálfsáðar plöntur, sem það vill losna við getur sett þær niður hér. 
  4. Fyrirtæki sem vilja bæta ímynd sína og setja niður tré en eiga ekki land til þess geta komið og sett niður tré hér.
 
Ef fólk nýtir sér þetta og fleiri landeigendur bjóða upp á sambærilegt getur skógrækt aukist margfalt hraðar en annars yrði, sem er jú okkur öllum til hagsbóta. 
Ég vona að fleiri bændur opni á þennan möguleika á jörðum sínum og taki frá skika sem fólk má setja  niður plöntur í. Þær vaxa upp og verða að trjám sem binda gróðurhúsalofttegundir, fegra umhverfi, auka fjölbreytileika lífríkisins, mynda skjól og heimkynni fyrir fugla og önnur dýr og allir græða.
 
Þeim sem vilja nýta sér þennan möguleika er velkomið að hafa samband í gegnum netfangið sigga@purenatura.is 
 
Sigríður Ævarsdóttir,
Gufuá, 311 Borgarnes.

Skylt efni: plastmengun | rusl | náttúran

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu
Lesendarýni 13. nóvember 2024

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu

Það er stór ábyrgðarhluti stjórnvalda að reyna að tryggja að atvinnugreinar séu ...

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara
Lesendarýni 12. nóvember 2024

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara

Eyrnamörk eða fjármörk eru, eins og margir þekkja, skurðir í eyru á fé til að sk...

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi
Lesendarýni 11. nóvember 2024

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi

Landbúnaður hefur löngum verið ein af burðarstoðum atvinnulífs í Norðausturkjörd...

Hnignun ESB
Lesendarýni 8. nóvember 2024

Hnignun ESB

„Evrópusambandið líkist Sovétríkjunum í vestrænum fötum“, á Mikhail Gorbasjov að...

Gróska eða stöðnun?
Lesendarýni 7. nóvember 2024

Gróska eða stöðnun?

Árið 2018 vann KPMG skýrslu fyrir þáverandi landbúnaðar­ráðherra þar sem sviðsmy...

Þjóðarátak í samgöngumálum
Lesendarýni 6. nóvember 2024

Þjóðarátak í samgöngumálum

Íslenskt samfélag stendur á tímamótum þegar kemur að samgöngumálum. Vegakerfi la...

Ekkert fæðuöryggi án landbúnaðar
Lesendarýni 5. nóvember 2024

Ekkert fæðuöryggi án landbúnaðar

Íslendingar eru og hafa ætíð verið landbúnaðarþjóð. Ræktun lands og nytjar hafa ...

Kvenfélagið Freyja 90 ára
Lesendarýni 1. nóvember 2024

Kvenfélagið Freyja 90 ára

Það var í júní árið 1934 sem nokkrar konur komu saman að Krossi í Austur-Landeyj...