Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Ánægðir nemendur eftir einstaklega lærdómsríka daga og góðar móttökur í Danmörku.
Ánægðir nemendur eftir einstaklega lærdómsríka daga og góðar móttökur í Danmörku.
Mynd / Helena S. Stefánsdóttir
Lesendarýni 28. september 2023

Námsferð nema Garðyrkjuskólans

Höfundur: Jóhanna Hjaltadóttir og Helena Stefánsdóttir

Þann 19. ágúst sl. héldu af stað 24 nemendur í námsferð til Danmerkur. Ferðinni var heitið á Blomsterfestivalen í Óðinsvéum en þar er árleg blómahátíð.

Í einmuna blíðu var sunnudeginum varið í að skoða sýninguna, en allur miðbærinn var undirlagður af margs konar blómaskreytingum og garðlistaverkum og fjöldi fólks og fyrirtækja kom að sýningunni. Margs konar sölubásar með plöntum, verkfærum og handverki eru ómissandi þáttur af sýningunni.

Mánudaginn 21. ágúst var ferðinni heitið í GASA group, en það er heildsali og dreifingaraðili fyrir blóma- og plöntuframleiðendur um öll Norðurlönd og víðar. Þar fengum við að kynnast starfseminni, skoða húsnæðið þeirra og fræðast um það hvernig starfsemin yrkju fer fram. Þegar heimsókninni hjá þeim lauk var haldið í Kortegaard, sem er garðstöð sem sérhæfir sig í framleiðslu götutrjáa. Þar fengum við að skyggnast inn í verkferla í framleiðslu sem við þekkjum ekki hérlendis. En þetta fyrirtæki ræktar tré fyrir sveitafélög og garðyrkjufyrirtæki sem vilja fá ákveðnar tegundir í ákveðinni hæð og panta tré mörg ár fram í tímann.

Á Blomsterfestivalen í Óðinsvéum var fjölbreytt upplifun fyrir allan aldur.

Þriðjudaginn 22. ágúst skiluðum við af okkur herbergislyklum á hótelinu í Óðinsvéum og héldum af stað með rútu til Hunsballe grönt. Claus Hunsballe tók þar á móti okkur, en hann er garðyrkjubóndi sem ræktar fyrst og fremst jarðarber, bæði hefðbundin og lífræn, ásamt því að rækta lauk í knippum, kúrbít og hnúðsellerí. Þarna skoðuðum við húsin sem hann ræktar jarðarberin í, en þau eru aðeins stærri í sniðum en við þekkjum hér heima og má nefna sem viðmið að fyrsta húsið sem við skoðuðum hjá honum er 1 hektari að stærð og það er bara eitt hús af mörgum.

Næst lá leiðin í Tækniskólann í Hróarskeldu, Roskilde tekniske skole, þar kynntum við okkur garðyrkjudeildina og fræddumst um þær námsleiðir sem eru í boði. Line Juliane Ronne leiddi okkur um skólann þar sem við fengum að skoða margbreytilegar vélar og tæki sem nemendur fá að nota í sínu námi, ásamt gróðurhúsum og ræktunarsvæðum utandyra sem eru mjög vel búin til kennslu.

Síðasta stoppið okkar var svo í Skovskolen, sem er hluti af Kaupmannahafnarháskóla. Þar tók Bent Jensen á móti okkur og byrjaði á að fræða okkur um sögu skólans. Skovskolen kennir allt sem við kemur skógum og viðhaldi skóga, trjáklifur, umgengni við veiðidýr og skógnytjar. Svo fór hann með okkur um svæðið og tók smá verklega kennslu í að saga með langsög. Að lokinni skoðunarferð um svæðið bauð Bent okkur svo í mat í mötuneyti skólans.

Í Tækniskólanum í Hróarskeldu var margt að sjá og fjölbreyttur tækjakostur var ákveðið menningarsjokk.

Í lok dags héldum við svo til Kaupmannahafnar þar sem við gistum síðustu tvær næturnar. Það sem eftir var ferðar var frjálst og nýttu nemendur í að skoða Grasagarðinn í Kaupmannahöfn, Kongens have, tívolígarðinn og fleira garðyrkjutengt, eftir áhugasviði hvers og eins.

Okkur er ljóst eftir þessa ferð að möguleikarnir í garðyrkju eru endalausir, það þarf einungis vilja og hugmyndaflug. Danir eru töluvert framar en við í mörgu og getum við svo sannarlega nýtt okkur það og lært af þeim. Það á ekki bara við um garðyrkjustöðvarnar heldur líka aðstöðu og búnað garðyrkjuskólanna þarna ytra sem er margfalt betri en hér á Íslandi. Við þurfum að fá stjórnvöld til þess að fjárfesta í grænni framtíð og uppbyggingu Garðyrkjuskólans á Reykjum.

Skylt efni: Garðyrkjuskólinn

Öflug innlend matvælaframleiðsla
Lesendarýni 22. nóvember 2024

Öflug innlend matvælaframleiðsla

Kosningar í lok þessa mánaðar munu ekki einungis skera úr um hverjir sitja á Alþ...

Kosningarnar snúast líka um landbúnað
Lesendarýni 21. nóvember 2024

Kosningarnar snúast líka um landbúnað

Frá upphafi hefur landbúnaður gegnt lykilhlutverki í að móta íslenska menningu o...

Af virðingu við landið
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Af virðingu við landið

Í aðdraganda kosninga erum við ítrekað minnt á að margar stærstu áskoranir samfé...

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni

Eru hjúkrunarheimili á landsbyggðinni með viðunandi fjármögnun? Er tilefni til a...

Vegleysur á Vestfjörðum
Lesendarýni 18. nóvember 2024

Vegleysur á Vestfjörðum

Sem frambjóðandi á ferð fór ég akandi um Vestfirði um helgina. Vegur um Strandir...

Kosningar og hvað svo?
Lesendarýni 15. nóvember 2024

Kosningar og hvað svo?

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtu Bændasamtök Íslands áskorun til frambjóð...

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu
Lesendarýni 13. nóvember 2024

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu

Það er stór ábyrgðarhluti stjórnvalda að reyna að tryggja að atvinnugreinar séu ...

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara
Lesendarýni 12. nóvember 2024

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara

Eyrnamörk eða fjármörk eru, eins og margir þekkja, skurðir í eyru á fé til að sk...