Sannleikurinn um sauðfjárrækt, séð frá hagfræðinni
Ísland var þróunarríki samkvæmt skilgreiningu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fram til um 1960, en er í dag eitt tekjuhæsta land heims.
Á þessum tíma hefur framlegð vaxið í flestum atvinnugreinum til að styðja auknar tekjur. Kúabú hafa stækkað og vélvæðing í formi mjaltaþjarka (róbóta) hefur leitt til fækkunar, en um leið stækkunar kúabúa.
Sama gildir um svína- og kjúklingarækt, fiskveiðar, vinnslu og fiskirækt. Sauðfjárræktin situr hins vegar eftir með litla framlegðaraukningu sem leitt hefur til þess að sú starfsemi getur ekki staðið undir launakröfum samtímans (þrátt fyrir að hlutfall tvílembdra áa hafi aukist til muna).
Hér verður rakið af hverju það hefur leitt til breytinga á búskaparháttum og af hverju sauðfjárrækt getur ekki haldið áfram óbreytt um ókomna tíð án þess að það leiði til minni hagsældar, bæði þeirra sem hana stunda og allra landsmanna.
Breytingu á búskaparháttum má skipta í nokkur tímabil:
- Frá landnámi að móðuharðindum.
- Frá móðuharðindum þar til að vistarbönd féllu niður.
- Frá vistarböndum til stríðsára, síldar, skuttogara og stóriðju.
- Frá stóriðju til dagsins í dag.
1. Landnámsmenn komu með sinn bústofn; kýr, kindur, svín, geitur, hænsni og hesta. Kýr kindur og geitur voru mjólkaðar, enda vinnuafl nægt í formi vinnuhjúa og þræla, sem greidd voru engin eða óveruleg laun nema í formi nauðþurfta (matar, húsnæðis og klæða). Nokkuð var um kornrækt sem gerði svínarækt mögulega. Í móðuharðindunum og þeim drepsóttum sem á eftir komu hríðféllu bæði menn og skepnur.
2. Eftir móðuharðindin vantaði vinnuafl til sveita og veðurfar varð verra. Búskaparhættir breyttust. Svínarækt hafði lagst af og meira hvíldi á sauðfjárrækt og mjólkurkúm. Enn var vinnuafl það ódýrt, bæði sökum tækifærisleysis og vistarbanda, að það borgaði sig enn að stunda fráfærur og mjólka ær. Nokkuð sem kostaði mikið vinnuafl, þó nokkur afföll á lömbum, en gaf litlar afurðir. Flest allt fé var haft heima við eða í seljum, utan hrúta og sauða sem völsuðu meira um frjálsir.
3. Eftir að lögin um vistarbönd liðu undir lok rétt fyrir aldamótin 1800/1900 og fólk fór almennt að fá laun fyrir sína vinnu varð ógerlegt að stunda fráfærur og mjólka kindur. Tekjur af slíkri starfsemi stóðu einfaldlega ekki undir launum. Við tók mikið hagvaxtarskeið á Íslandi. Fólk fluttist til sjávarþorpanna og keypt voru stærri fiskiskip, auk þess sem erlendir aðilar stunduðu veiðar hér, m.a. á hval. Í seinni heimsstyrjöldinni fengu vinnandi hendur greitt beint í peningum og næga vinnu var að fá. Fólk fluttist í stórum stíl úr sveitunum til kaupstaða, ekki síst Reykjavíkur. Bændur fóru að reka fé almennt á afrétti og reyndu, til að ná svipuðum hagvexti og í þjóðfélaginu öllu, að stækka sína bústofna og þar með að fjölga fé. Það náði hámarki um 1980 með mikilli offramleiðslu og ofbeit víða um land. Útkoman var m.a. svokölluð smjör- og kjötfjöll sem voru svo seld úr landi fyrir smápening, auk þess sem landið blés upp í stórum stíl sem enn má sjá merki um víða.
4. Um og upp úr 1980 kemur stóriðjan sterk inn og tæknibreytingar verða í sjávarútvegi. Hagsæld vex og þjóðartekjur á mann hafa nú rúmlega tvöfaldast frá árinu 1995. Sauðfjárrækt sem stóð halloka 1980 stendur enn verr í dag. Neysla lambakjöts hefur dregist saman pr. mann á Íslandi og annars staðar í heiminum, enda bæði óhagkvæmt og með mikið sótspor.
Sauðfjárrækt er ekki lengur burðarás íslenskrar matvælaframleiðslu, og mun ekki verða. Allar tilraunir til að hverfa til fortíðar munu einungis rýra lífsgæði á Íslandi almennt og viðhalda fátækragildrunni hjá minni sauðfjárbændum.
Tún eru víða ekki nýtt þar sem vetrarfóðruðum ám hefur fækkað um rúman helming frá því sem mest var. Tún eru nýtt þegar verðmæti þeirrar nýtingar réttlætir slíkt, hvort sem það er til; hamp-, skógar- eða kornræktar. Þau verða ekki nýtt til að framleiða meira lambakjöt, þar sem það er ekki markaður fyrir það á því verði sem þarf til að stunda slíka framleiðslu í hálaunalandi. Eins og staðan er núna er meiri eftirspurn eftir landi til að binda kolefni en eftir lambakjöti sem framleitt er með ærnum tilkostnaði og miklu sótspori. Það að fólk flytjist til sveita sem ekki stundar hefðbundinn búskap er bara af hinu góða. Kaup slíkra aðila hefur gert eldri bændum kleift að losa um eign sína, komast úr fátækragildrunni og á eftirlaun. Lífeyrissjóður bænda hefur ekki verið ávaxtaður þannig að bændum sem hætta störfum bíði digur lífeyrir þaðan.
Í ljósi ofangreinds beini ég þeim tilmælum til málsvara bænda, bæði framkvæmdastjóra og formanns, að þeir horfi til framtíðar og mæli fyrir hagsmunum allra bænda, en reyni ekki að þvinga okkur til fyrri búskaparhátta og þar með fátæktar fortíðarinnar.