Þórhildur nýr formaður Samtaka smáframleiðenda matvæla
Þórhildur M. Jónsdóttir, sem starfar hjá Kokkhúsi og BioPol, er nýr formaður Samtaka smáframleiðenda matvæla. Hún var kjörin á stjórnarfundi samtakanna í morgun.
Karen Jónsdóttir fráfarandi formaður óskaði eftir að láta af störfum í vikunni vegna anna.
Nýja stjórn skipa þau Þórhildur M. Jónsdóttir formaður, Svava Hrönn Guðmundsdóttir frá Sælkerasinnepi Svövu er varaformaður, Ólafur Lofsson frá Súrkál fyrir sælkera er meðstjórnandi ásamt Þresti Heiðari Erlingssyni frá kjötvinnslunni Birkihlíð og Auði B. Ólafsdóttur frá Pönnukökuvagninum.
Þórhildur er matreiðslumeistari að mennt og hjá Kokkhúsi starfar hún við eigin framleiðslu á heitreyktri Hólableikju með villijurtum. Hjá BioPol, sem er með höfuðstöðvar á Skagaströnd, hefur hún umsjón með vörusmiðju.
Samtök smáframleiðenda matvæla voru stofnuð 5. nóvember á síðasta ári. Innan þeirra vébanda eru 75 framleiðendur.
Frá stofnfundi samtakanna. Guðrún Hafsteinsdóttir, fundarstjóri, og svo kemur fyrsta stjórnin; Þröstur Heiðar Erlingsson, Guðný Harðardóttir, Svava Hrönn Guðmundsdóttir og Þórhildur M. Jónsdóttir. Á myndina vantaði Karen Jónsdóttur. Mynd / TB