Allt með ævintýrablæ í Ögri
Höfundur: Tjörvi Bjarnason
Í Ögri í Ísafjarðardjúpi reka eigendur jarðarinnar ferðaþjónustuna Ögurferðir yfir sumarið. Þjónustan samanstendur af kayakferðum með leiðsögn um Djúp með áherslu á náttúruna og sögu svæðisins.
Ferðaúrvalið spannar frá dagsferðum upp í nokkurra daga ferðir. Í Ögri er einnig rekið lítið kaffihús sem gaman er að heimsækja. Þá er haldið í gamla ballhefð en eigendur halda Ögurs-sveitaball með gamla laginu á hverju sumri. Þar með er viðhaldið hefð sem er a.m.k. jafngömul Samkomuhúsinu í Ögri sem var byggt árið 1926.
Hafliði Halldórsson, matreiðslumeistari, er einn af þeim sem standa að ballinu en að hans sögn gekk það geysilega vel. „Um 400 manns mættu á svæðið og megnið af gestunum tjaldaði í Ögri. Bandið Þórunn og Halli léku fyrir dansi og eru æviráðin eins og góðir ríkisstarfsmenn. Það var góð stemning á ballinu og framkoma og umgengni gesta til fyrirmyndar,“ sagði Hafliði.
Íbúðarhúsið í Ögri til vinstri og samkomuhúsið til hægri. Mynd / Elísabet Reynisdóttir