Þau Unnur og Símon ásamt Guðrúnu Árnýju, Ingu og Birgi, vel klædd hlýjum og fallegum peysum.
Þau Unnur og Símon ásamt Guðrúnu Árnýju, Ingu og Birgi, vel klædd hlýjum og fallegum peysum.
Mynd / Aðsendar
Bóndinn 22. nóvember 2024

Fjölbreyttir vinnudagar

Þau Unnur Jónsdóttir og Símon Bergur Sigurgeirsson á Lundi í Lundarreykjadal hófu þar búskap fyrir tæpum tveimur árum. Þau eru bæði uppalin í sveit og létu drauminn rætast – að búa utan þéttbýlis. Lesendur geta fylgst með fjölskyldunni á Instagram-reikningi Bændablaðsins á næstu dögum.

Við tökum við búskap 1. janúar 2023, svo ábúðarsaga okkar er ansi stutt enn þá. Símon starfar við búið en Unnur starfar sem umsjónarkennari við Grunnskóla Borgarfjarðar. Við byrjuðum strax að reyna að stækka kúahjörðina og einfalda vissa verkþætti, t.d. með kaupum á lyftara til að gefa kúnum með.

Helsta breytingin er þó sennilega það að verið er að undirbúa uppsetningu á róbót í fjósinu sem mun vonandi taka til starfa á næstu vikum.

Hvenær hófu ábúendur búskap og hvers vegna? Eins og áður segir tókum við við 1. janúar 2023, við erum bæði fædd og uppalin í sveit og þarna gafst tækifæri til að láta drauminn rætast, taka við búi af foreldrum Unnar og verða bændur.

Býli, gerð bús, staðsetning og stærð jarðar? Bærinn heitir Lundur og er jörðin um 500 hektarar og staðsett í norðanverðum Lundarreykjadal í Borgarfirði. Á bænum er blandað bú með kýr, kindur og hesta, en fyrst og fremst kúabú.

Ábúendur, fjölskyldustærð (og gæludýr)? Á Lundi búa þau Unnur og Símon ásamt börnunum sínum, þeim Guðrúnu Árnýju (11 ára), Ingu (4 ára) og Birgi (2 ára).

Fjöldi búfjár? Eins og stendur eru 37 árskýr á búinu, um 60 kindur og nokkrir hestar sem móðir Unnar á.

Hvers vegna veljið þið þessa búgrein? Kýrnar eru flestar skemmtilegar í umgengni og stórir persónuleikar inn á milli í hjörðinni, maður fær líka fljótt endurgjöf á t.d. breytingar í fóðri og þess háttar og þær geta verið ansi fljótar að læra.

En eins og er eru kýrnar líka að skila talsvert meiri tekjum en margur annar bústofn, svo maður getur unnið við þetta.

Systkinin á sólskinsstund.

Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Vinnudagurinn byrjar alla jafna á morgunmjöltum um kl. 7.30, þeim lýkur í kringum kl. 9. Yfir vetrartímann er svo gefið í fjárhúsin og unnið í hinum og þessum verkefnum sem þarf að inna af hendi. Þau verkefni geta verið æði fjölbreytt, s.s. smíðavinna til að bæta aðstöðu, þrif á hinu og þessu, bókhald og skýrslur, gjafir eða svo ótalmargt annað. Verið að sýsla þetta fram undir kaffi en þá er komið að því að kíkja aftur í fjárhúsin og svo eru kvöldmjaltir um kl. 18.30–20.00.

Yfir vor- og sumartímann tekur svo girðingavinna, jarðyrkja og heyskapur yfir milli mjalta. Vinnudagarnir geta þó verið ansi fjölbreyttir og stundum þarf að vinna langt fram á nótt eða vakna fyrir allar aldir. Þessa dagana er undirbúningur fyrir komu mjaltaþjónsins í talsverðum forgangi og vinnudagarnir gjarnan ansi langir.

Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Skemmtilegustu bústörfin finnst Símoni vera heyskapurinn og að geta gefið skepnunum góð hey. Unni finnst aftur á móti skemmtilegast að mjólka og fylgjast með framleiðslunni hjá kúnum. Sauðburður og fjárrag að hausti eru líka með því skemmtilegra í starfinu.

Leiðinlegast er þegar eitthvað kemur upp á og við þurfum að fella eða missum góðan grip.

Hvað er það jákvæða við að vera bóndi? Fjölbreytnin í starfinu, félagsskapurinn við skepnurnar og nálægðin við náttúruna.

Hverjar eru áskoranirnar? Forgangsraða því sem þarf að gera og láta enda ná saman.

Hvernig væri hægt gera búskapinn ykkar hagkvæmari? Með því að fjölga skepnunum eins og húsin á staðnum ráða við svo þau séu sem best nýtt.

Hvernig sjáið þið landbúnað á Íslandi þróast næstu árin? Við teljum því miður að búum muni fækka og þau sem eftir standa munu stækka til að vera hagkvæmari rekstrareiningar.

Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Nærtækast er þegar gámarnir með mjaltaþjóninum og tilheyrandi komu í hlaðið fyrir skemmstu, en annar flutningabíllinn lenti út af og var nærri oltinn hérna innar í dalnum og þurfti bæði ýtu og vörubíl til að koma honum á rétta braut aftur. En það slapp allt til og góssið komst í hlaðið.

Fjölbreyttir vinnudagar
Bóndinn 22. nóvember 2024

Fjölbreyttir vinnudagar

Þau Unnur Jónsdóttir og Símon Bergur Sigurgeirsson á Lundi í Lundarreykjadal hóf...

Leigja jörð og rekstur
Bóndinn 25. október 2024

Leigja jörð og rekstur

Nú kynnast lesendur búskapnum á Flugumýri í Blönduhlíð í Skagafirði og geta í kj...

Sauðfé passleg stærð
Bóndinn 11. október 2024

Sauðfé passleg stærð

Hjónin Jón Atli Jónsson og Bryndís Karen Pálsdóttir reka sauðfjárbúið Gröf í Ska...

Blómlegt býli
Bóndinn 27. september 2024

Blómlegt býli

Freydís Gunnarsdóttir er tiltölulega nýtekin við rekstri Gróðrarstöðvarinnar Árt...

Göngur og góður reiðtúr
Bóndinn 13. september 2024

Göngur og góður reiðtúr

Á Fjöllum 2 í Kelduhverfi stunda Berglind Ýr Ingvarsdóttir og Jóhannes Guðmundss...

Farsæl gúrkutíð
Bóndinn 30. ágúst 2024

Farsæl gúrkutíð

Gúrkuplantan vex hratt á garðyrkjustöðinni Gufuhlíð í Biskupstungum en fjölskyld...

Endalaus verkefnalisti
Bóndinn 16. ágúst 2024

Endalaus verkefnalisti

Ofaldar hryðjuverkahænur, rótargrænmeti, ferðamenn og kindur þrífast vel á Þurra...

Svín og korn
Bóndinn 12. júlí 2024

Svín og korn

Bændurnir í Laxárdal stunda svína- og kornrækt en lesendur munu geta fylgst með ...