Laxárdalur er í fallegu bæjarstæði.
Laxárdalur er í fallegu bæjarstæði.
Mynd / Aðsendar
Bóndinn 12. júlí 2024

Svín og korn

Bændurnir í Laxárdal stunda svína- og kornrækt en lesendur munu geta fylgst með búskapnum á Instagramreikningi Bændablaðsins á næstu dögum.

Ábúð fjölskyldunnar í Laxárdal hófst í kringum aldamótin 1900 en um 1918 hóf langafi Björgvins Þórs Harðarsonar þar búskap. Þá taldi bústofninn 3 kýr og 240 fjár ásamt hestum og helstu húsdýrum. Árið 1978 kom fyrsta gyltan á bæinn, en þar sem jörðin býður einungis upp á grasuppskeru fyrir lítið býli stóð valið á milli svína- eða kjúklingaræktar og völdu foreldrar Björgvins hið fyrra.

Býli, staðsetning og stærð jarðar? Bærinn heitir Laxárdalur og er í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Stærð jarðarinnar er afmörkuð af afréttargirðingu Flóa og Skeiða, Stóru-Laxá og nærliggjandi jarða og er um 1.700 ha.

Þau hjónin Björgvin og Petrína eru ávallt hress.

Ábúendur, fjölskyldustærð (og gæludýr)? Í Laxárdal eru þrjú heimili. Í húsinu, sem kallast Steinsskarð, búa þau Petrína Þórunn Jónsdóttir og Björgvin Þór Harðarson ásamt börnunum Auðuni Magna, Guðnýju Völu og Sindra Snæ á meðan tvær elstu dæturnar, Hjördís Bára og Rakel Ósk, eru búnar að koma upp sínum eigin heimilum. Foreldrar Björgvins, þau Hörður Harðarson og M. Guðný Guðnadóttir, búa í Laxárdal 2 og eru í svínabúskapnum. Frænka Björgvins, Linda Ósk Högnadóttir, ásamt eiginmanni, Atla Eggertssyni, og börnum búa svo í Laxárdal 1, en þau eru með kúabúskap hér í dalnum og einnig nokkrar kindur.

Gerð bús og fjöldi búfjár? Við erum með svínabú sem telst sem lítið fjölskyldubú og telur um 210–220 gyltur. Einnig eru hér kettir, hundar, kindur og hestar eins og tíðkast víða til sveita.

Hvers vegna veljið þið þessa búgrein? „Eins og pabbi sagði þá grísaði ég á þetta. En án gríns þá kynntist ég svínabónda sem heillaði mig það mikið að ég flutti í sveitina árið 2002,“ segir Petrína Þórunn.

Alls telur búið um 210–220 gyltur.

Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Petrína Þórunn mætir til vinnu í kjötvinnslunni þeirra, Korngrís frá Laxárdal, alla virka morgna og er þar allan daginn. Þar er unnið um 10% kjötsins sem búið framleiðir, sem er svo selt á Suðurlandi til nokkurra veitingastaða svo og á höfuðborgarsvæðinu. Björgvin sinnir hinum ýmsu störfum á búinu eða í kornræktinni, eftir árstíma. Á vorin er jarðvinnsla og sáning á korni sem stendur frá páskum þar til um miðjan maí, um sumarið er úðaður áburður á kornið og síðla sumars er vetraryrkjunum sáð. Um haustið í kringum september er hugað að þreskingu sem lýkur í byrjun nóvember. Mánudagar fara í að senda í sláturhús ásamt þvi að sinna gjöfum og þrifum hjá dýrunum á þeim deildum sem tæmdar hafa verið þann daginn. Aðra hverja helgi eru svo got hjá gyltunum og þá er mikið um að vera í að sinna unggrísunum. Hina vikuna eru svo fráfærur hjá gyltum sem gutu fjórum vikum áður, grísirnir eru teknir undan þeim og settir í stíur sem hentar þeirra aldri. Í svínahúsinu eru blandaðar sex tegundir af fóðri fyrir mismunandi hópa fyrir sig. Þau nýta að mestu heimafengið fóður úr eigin blöndunarstöð

Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Það er allt frábært sem kemur að dýrum og að búa í sveit. Skemmtilegast er fjölbreytnin, en leiðinlegast að þurfa að fara í borgina að sækja aðföng og versla í matinn. Einnig er gaman að fá uppskeruna í hús og þegar hlutirnir ganga upp. Gott veður er alltaf velkomið og rigning í hófi. Best væri ef það myndi alltaf rigna á nóttunni vegna þess að þá nýtist hún best.

Hvað er það jákvæða við að vera bóndi? Fjölbreytnin, vera sinn eigin herra og að sjá árangur erfiðisins, en til að fá góða uppskeru þarf líka að sá í slæmum árum. Að búa á landsbyggðinni er líka ansi jákvætt við að vera í þessu starfi.

Hverjar eru áskoranirnar? Í svínaræktinni er það að geta framleitt nægilega mikið til að minnka innflutning. Fá sem besta grísi undan hverri gyltu. Reyna að standast samkeppnina við innflutninginn, auka samkeppnishæfnina og um leið að bæta dýravelferð og aðstöðu dýranna. Takast á við íslenskt veður í kornræktinni og beita þeim aðferðum sem virka til að minnka áhættuna á uppskerubresti. Í kjötvinnslunni – að kynna fyrir neytendum vörur sem eru alíslenskar frá akri í maga og sýna fram á að þetta getum við líka gert eins og aðrar þjóðir í kringum okkur.

Hvernig væri hægt að gera búskapinn ykkar hagkvæmari? Að ná að endurnýja framleiðsluaðstöðuna fyrir svínin en núverandi vaxtaumhverfi gerir það illmögulegt.

Hvernig sjáið þið landbúnað á Íslandi þróast næstu árin? Aukin neysla á íslenskum landbúnaðarafurðum, betri vitundarvakning neytenda og samþjöppun á markaðnum. Við teljum að framleiðslan muni að mestu haldast í stað en vonandi koma inn nýjar greinar þannig að framleiðslan verði fjölbreyttari.

Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Þegar nýja gothúsið var tekið í notkun sumarið 2022 breyttist aðstaðan svo mikið til hins betra, bæði fyrir gylturnar og okkur sem starfa á búinu. Einnig þegar við opnuðum kjötvinnsluna 2018 og hófum að selja okkar vörur beint frá búinu. Í kornræktinni er það líklega þegar við hófum ræktun í Gunnarsholti 2007. Rétt áður en við fórum að þreskja kom rok og megnið af korninu brotnaði. En það var samt ekki gefist upp heldur notuðum við þetta til að læra betur á ræktunina.

Bændurnir í Laxárdal taka nú yfir Instagram Bændablaðsins, @baendabladid, næstu tvær vikurnar.

Svín og korn
Bóndinn 12. júlí 2024

Svín og korn

Bændurnir í Laxárdal stunda svína- og kornrækt en lesendur munu geta fylgst með ...

Góð samvinna
Bóndinn 28. júní 2024

Góð samvinna

Þau Eyjólfur Ingvi Bjarnason og Guðbjört Lóa Þorgríms- dóttir tóku við búinu Ásg...

Reksturinn í góðum höndum
Bóndinn 14. júní 2024

Reksturinn í góðum höndum

Bústjóri og fjósameistari Flateyjar á Mýrum taka nú við keflinu en lesendur geta...

Með korn og kýr í haga
Bóndinn 31. maí 2024

Með korn og kýr í haga

Nú kynnast lesendur búskapnum á Reykjahlíð í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, en við ...

Bjartsýnir geitabændur
Bóndinn 17. maí 2024

Bjartsýnir geitabændur

Nú kynnast lesendur búskapnum á Gilhaga í Öxarfirði, en við gefum Brynjari Þór V...

Starfinu fylgja forréttindi
Bóndinn 29. apríl 2024

Starfinu fylgja forréttindi

Elínborg Erla Ásgeirsdóttir býr í Breiðargerði í fyrrum Lýtingsstaðahreppi í Ska...

Dýrmæt samvinna
Bóndinn 15. apríl 2024

Dýrmæt samvinna

Þórdís Halldórsdóttir bóndi kynnir lesendum búskap sinn á Ytri-Hofdölum í Skagaf...

Verðmæti til í öllu
Bóndinn 22. mars 2024

Verðmæti til í öllu

Grænegg eiga sér tæplega 70 ára fjölskyldusögu í hænsnarækt auk þess sem Sveinbj...