Fjölskyldan á Gröf tekur yfir Instagram Bændablaðsins næstu daga. Þar er stundaður sauðfjárbúskapur. Jón Atli heldur á Melkorku Sif og Bryndís ber Patrek Þór á háhesti.
Fjölskyldan á Gröf tekur yfir Instagram Bændablaðsins næstu daga. Þar er stundaður sauðfjárbúskapur. Jón Atli heldur á Melkorku Sif og Bryndís ber Patrek Þór á háhesti.
Mynd / Aðsendar
Bóndinn 11. október 2024

Sauðfé passleg stærð

Hjónin Jón Atli Jónsson og Bryndís Karen Pálsdóttir reka sauðfjárbúið Gröf í Skaftárhreppi og telja sig hafa sauðfjárræktina í blóðinu. Lesendur geta fylgst með daglegum störfum þeirra á Instagram-reikningi Bændablaðsins á næstu dögum.

Jón Atli ólst upp í Gröf frá fimm ára aldri. Hann tók virkan þátt í bústörfum sem krakki. Bryndís kemur frá Fossi/Rauðalæk í Rangárvallasýslu og hefur ávallt verið mikill dýravinur. Þau fluttu saman í Gröf eftir útskrift úr búfræði vorið 2017.

Hvenær hófu ábúendur búskap og hvers vegna? Haustið 2017 völdum við ásetning þar sem foreldrar Jóns vildu hætta búskap. Við tókum við búrekstrinum 2018 og leigjum jörðina, tæki og skepnur enn sem komið er en það stendur til að gera kaupsamning. Sauðfjárræktin er í blóðinu og við erum við þakklát fyrir að geta stundað sauðfjárbúskap.

Býli, gerð bús, staðsetning og stærð jarðar? Sauðfjárbú í Gröf í Skaftártungu, Skaftárhreppi. Jörðin er 643 ha að heildarstærð. Þar af eru 49 ha ræktaðir.

Ábúendur, fjölskyldustærð (og gæludýr)? Við hjónin eigum tvö börn, Melkorku Sif, 6 ára og Patrek Þór, 4 ára. Svo eru tveir aðrir ættliðir í sama húsi, foreldrar Jóns Atla, bróðir og amma og afi. Til viðbótar eigum við þrjá Border Collie hunda, þau Ás, Bellu og Tinna.

Fjöldi búfjár? Síðasta vetur var 320 fjár en munum ná að fjölga aðeins í haust samkvæmt okkar ræktunarmarkmiðum.

Hvers vegna veljið þið þessa búgrein? Aðallega vegna þess að sauðfé er í passlegri stærð fyrir okkur stubbana. Svo er sauðkindin falleg, skemmtileg, bragðgóð og allt bras í kringum hana er svo gefandi.

Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Það er svo sem ekkert hefðbundið í sveitinni en dagurinn byrjar yfirleitt á kaffi eða morgunmat. Jón Atli vinnur utan bús hálft árið við rafvirkjun á Kirkjubæjarklaustri. Yfir innistöðutíma byrjar hann á því að gefa fénu áður en lagt er til vinnu á Klaustri.

Bryndís vinnur í ferðaþjónustu á næsta bæ svo það eru oftast þrif og þvottar fram yfir hádegi. Gefur svo oftast seinniparts-gjöfina. Þá er reynt að nýta helgar í tímafrekari vinnu í fénu, t.d. bólusetningar, rúning og þess háttar.

Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Sauðburður, smalamennskur og fjárrag á haustin er toppurinn, einnig heyskapur. Bryndís getur svo aftur á móti sturlast yfir því að gera við gamlar girðingar! Þó er allra leiðinlegast að þurfa að aflífa veik dýr.

Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Þann 18. maí 2020, á miðjum sauðburði, var Bryndís komin sex mánuði á leið. Ærnar voru úti að viðra sig í blíðskaparveðri þegar hún ssá eingöngu haus standa út úr burðarliðnum hjá einni ánni. Bryndís ætlaði sér heldur betur að ná kindinni hratt og örugglega til að bjarga lambinu en þá sneri kindin sér við og stefndi beint á hana.

Það fór ekki betur en svo að þegar Bryndís reyndi að grípa kindina þá datt hún um hjólför og þurfti að bruna á bráðamóttökuna á Selfossi. Út úr þessu kom illa tognaður ökkli, hækjur og gips í viku og ekki meiri þátttaka í sauðburði það árið.

Hvað er það jákvæða við að vera bóndi? Svo margt, þú færð að búa og vera í náttúrunni. Taka á móti ungviði og sjá það dafna. Rækta þitt eigið og sjá árangur. Einnig skapa fæðu fyrir íbúa landsins.

Hverjar eru áskoranirnar? Þær eru alls konar t.d. að ná ræktunarmarkmiðum, einnig er veðurfar á Íslandi talsverð áskorun og að standast álag sem fylgir þeirri vinnu að vera bóndi.

Hvernig væri hægt að gera búskapinn ykkar hagkvæmari? Sennilega með því að gera áætlun og fylgja henni eftir eins og á við um margt. Ná upp betri gerð svo meira fáist fyrir hvern dilk.

Hvernig sjáið þið landbúnað á Íslandi þróast næstu árin? Það er margt stórmerkilegt að gerast, eins og arfgerðargreiningar gegn riðu og kyngreint sæði í kúabúskapnum. Vonandi halda bændur sínu striki þrátt fyrir erfiðleikana. Bændastéttin á skilið meiri virðingu frá samfélagi sínu og stjórnvöld mega ekki gleyma hvernig landið er uppbyggt. Íslenskt – Já, takk!

Sauðfé passleg stærð
Bóndinn 11. október 2024

Sauðfé passleg stærð

Hjónin Jón Atli Jónsson og Bryndís Karen Pálsdóttir reka sauðfjárbúið Gröf í Ska...

Blómlegt býli
Bóndinn 27. september 2024

Blómlegt býli

Freydís Gunnarsdóttir er tiltölulega nýtekin við rekstri Gróðrarstöðvarinnar Árt...

Göngur og góður reiðtúr
Bóndinn 13. september 2024

Göngur og góður reiðtúr

Á Fjöllum 2 í Kelduhverfi stunda Berglind Ýr Ingvarsdóttir og Jóhannes Guðmundss...

Farsæl gúrkutíð
Bóndinn 30. ágúst 2024

Farsæl gúrkutíð

Gúrkuplantan vex hratt á garðyrkjustöðinni Gufuhlíð í Biskupstungum en fjölskyld...

Endalaus verkefnalisti
Bóndinn 16. ágúst 2024

Endalaus verkefnalisti

Ofaldar hryðjuverkahænur, rótargrænmeti, ferðamenn og kindur þrífast vel á Þurra...

Svín og korn
Bóndinn 12. júlí 2024

Svín og korn

Bændurnir í Laxárdal stunda svína- og kornrækt en lesendur munu geta fylgst með ...

Góð samvinna
Bóndinn 28. júní 2024

Góð samvinna

Þau Eyjólfur Ingvi Bjarnason og Guðbjört Lóa Þorgríms- dóttir tóku við búinu Ásg...

Reksturinn í góðum höndum
Bóndinn 14. júní 2024

Reksturinn í góðum höndum

Bústjóri og fjósameistari Flateyjar á Mýrum taka nú við keflinu en lesendur geta...