Barnapeysa fyrir 2–4 ára
Efni: Þingborgarlopi 100-110 gr Dóruband 12 litir 10-15 gr af hverjum eða 150 gr af einum lit. Sokkaprjónar 4.5 og 5 mm Hringprjónn 60 sm langur, 4.5 og 5 mm.
Aðferð: Peysan er prjónuð í hring neðan frá og upp og er með laskaúrtöku. Lesið uppskriftina áður en hafist er handa.
Útaukning á ermum: Í upphafi umferðar; prjónið eina lykkju, aukið um eina, prjónið þar til 1 lykkja er eftir í umferðinni, aukið um eina lykkju og prjónið svo þá síðustu.
Laskaúrtaka: Laskaúrtaka er þar sem ermar og bolur mætast, á fjórum stöðum. Það eru 6 lykkjur í hverri úrtöku, þrjár af bol og þrjár af ermi. *Prjónið 2 lykkjur saman, prjónið tvær, takið eina lykkju óprjónaða, prjónið eina og steypið þeirri óprjónuðu yfir. Endurtakið þrisvar sinnum þar sem bolur og ermar mætast. Prjónið eina umferð án úrtöku. * Endurtakið frá * til *.
Það getur verið mjög hjálplegt að nota google til að finna leiðbeiningar á alnetinu um úrtökuna.
Peysan
Bolur: Fitjið upp í aðallit 100 lykkjur á hringpjrón 4.5 mm. Tengið í hring og prjónið 3 umferðir brugðið. Skiptið yfir á hringprjón 5 mm og prjónið fyrsta litinn, * 5 umferðir slétt prjón í lit og eina umferð slétta með aðallit og 3 umferðir brugðnar í aðallit. * Endurtakið frá * til * þar til kominn er níundi litur, prjónið 2 umferðir af honum.
Ermar: Fitjið upp í aðallit 32 lykkjur á sokkaprjóna 4.5 mm, tengið í hring og prjónið 3 brugðnar umferðir. Skiptið yfir á sokkaprjóna 5 mm og prjónið ermi með sömu litasamsetningu og bolinn og endið á sama lit 2 umferðir sléttar. Í þriðja lit hefst útaukning: Prjónið 3 umferðir af lit, aukið út í umferð 4 í litnum, prjónið umferð 5. Endurtakið útaukningu með sömu aðferð í hverjum lit upp ermina 4 sinnum. Nú ættu að vera 42 lykkjur á erminni.
Axlastykki: Takið 3 fyrstu og 3 síðustu lykkjur á ermum og setjið á nælu. Setjið 6 fyrstu lykkjurnar á bol á nælu. Prjónið ermi við bolinn 36 lykkjur, prjónið 44 lykkjur af bol, setjið næstu 6 lykkjur af bol á nælu, prjónið hina ermina við og svo 44 lykkjur af bol.
Hefjið úrtöku eins og lýst var að ofan. Haldið áfram að prjóna með úrtöku og með sömu aðferð við litaskiptingar þar til 48 lykkjur eru eftir. Prjónið hálsmál með aðallit 6 umferðir sléttar og fellið af frekar laust. Lykkjið saman undir höndum lykkjurnar sem geymdar voru á nælum. Gangið vel frá öllum endum.
Þvottur: Þvoið flíkina í höndum með volgu vatni og mildri sápu. Kreistið vatnið vel úr og leggið á handklæði til þerris.