Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Benjamína-vettlingar
Hannyrðahornið 1. nóvember 2022

Benjamína-vettlingar

Höfundur: Feykirknitting

Munstrið á þessum vettlingum er innblásið af minni fyrstu lopapeysuhönnun sem heitir Benjamína.

Dömustærð: Vettlingarnir eru prjónaðir úr léttlopa, ein dokka af aðallit og ein af munsturlit. Notast er við sokkaprjóna nr. 3 og 4,5. Prjónafesta gefur 18 lykkjur á 10 cm.

(Herrastærð): Vettlingarnir eru prjónaðir úr tvöföldum plötulopa, ein plata af aðallit og ein af munsturlit. Notast er við sokkaprjóna nr. 4,5 og 5,5. Prjónafesta gefur 14 lykkjur á 10 cm. Vettlingarnir eru nokkuð stórir, ef þú vilt hafa þá minni má notast við prjóna sem er hálfu nr. minni.

Til að koma í veg fyrir löng bönd inni í vettlingunum er gott að snúa garninu saman að aftan eftir hverjar 4-5 lykkjur. Ekki snúa garninu á sama stað í næstu umferð fyrir ofan, betra er að það sé gert á mismunandi stöðum svo það sjáist ekki í gegn

Fitjið upp 36 lykkjur með aðallit á prjóna nr. 3 (4,5). Skiptið lykkjunum niður á fjóra prjóna og tengið í hring. Prjónið stroff, 2 lykkjur sléttar og 2 lykkjur brugðnar til skiptis. Prjónið 6 umferðir stroff með aðallit, *prjónið 2 umferðir stroff með munsturlit, prjónið 2 umferðir stroff með aðallit*, endurtakið *til*. Prjónið 2 umferðir stroff með munsturlit og að lokum 5 umferðir stroff með aðallit. Skiptið yfir á prjóna nr. 4,5 (5,5) og prjónið slétt eftir munstri, í fyrstu umferð er aukið út um 4 lykkjur nokkuð jafnt yfir umferð, þá eru 40 lykkjur á prjónunum (10 lykkjur á hverjum prjón). Þegar búið er að prjóna 14 umferðir af munstri er gert ráð fyrir þumli (rautt strik á munstri sýnir hægri vettling).

Fyrir hægri vettling: Á fyrsta prjóni, prjónið þrjár lykkjur slétt, prjónið næstu 7 lykkjurnar á aukaband, færið þessar 7 lykkjur aftur yfir á vinstri prjón og prjónið yfir þær eftir munstri.

Fyrir vinstri vettling: Á öðrum prjóni, prjónið 1 lykkju slétt, prjónið næstu 7 lykkjur á aukaband, færið þessar 7 lykkjur aftur yfir á vinstri prjón og prjónið yfir þær með munstri

Úrtaka er gerð á eftirfarandi hátt:

Á fyrsta prjón eru tvær lykkjur prjónaðar slétt, þriðja lykkjan er færð óprjónuð yfir á hægri prjón, prjónið eina lykkju og steypið óprjónuðu lykkjunni yfir prjónuðu lykkjuna, prjónið næst út prjóninn. Á öðrum prjóni er prjónað út prjóninn þar til þrjár lykkjur eru eftir, prjónið tvær lykkjur saman, prjónið síðustu lykkjuna slétt. Þriðji prjónn er prjónaður eins og fyrsti prjónn. Fjórði prjónn er prjónaður eins og annar prjónn. Þessi úrtaka er endurtekin í hverri umferð þar til 8 lykkjur eru eftir á prjónunum. Athugið að í síðustu úrtöku er óprjónuðu lykkjunni steypt yfir lykkjurnar tvær sem voru prjónaðar saman. Slítið frá og dragið endann í gegnum lykkjurnar.

Næst er þumallinn prjónaður.

Hann er prjónaður á prjóna nr. 4,5 (5,5) með lit A. Takið aukabandið úr og takið upp 16 lykkjur, hafið 8 lykkjur á prjóni fyrir ofan þumalinn og notið 2 prjóna fyrir neðan þumalinn, 4 lykkjur á hvorum prjón. Prjónið 17 umferðir, úrtaka er gerð á hliðum, á fyrsta prjón er fyrsta lykkjan tekið óprjónuð yfir á hægri prjón, prjónið eina lykkju og steypið óprjónuðu lykkjunni yfir hana, prjónið út prjóninn. Á öðrum prjóni er prjónað þar til 2 lykkjur eru eftir, þær eru prjónaðar saman. Á þriðja prjóni er fyrsta lykkjan tekin óprjónuð yfir á hægri prjón, prjónið eina lykkju slétt og steypið óprjónuðu lykkjunni yfir hana, prjónið þar til tvær lykkjur eru eftir á prjóninum, þær eru prjónaðar saman. Þetta er endurtekið þar til 8 lykkjur eru eftir, slítið þá frá og dragið endann í gegnum lykkjurnar.

Gangið frá öllum endum, ef göt hafa myndast við þumal saumið fyrir þau. Þvoið vettlingana og leggið til þerris.

Aðrar uppskriftir eftir höfund er að finna á Instagram og Facebook undir Feykirknitting. Einnig er hægt að hafa samband við feykirknitting@gmail.com.

Skylt efni: vettlingar

Sveitahúfa (Húfa á húsin)
Hannyrðahornið 16. desember 2024

Sveitahúfa (Húfa á húsin)

Hugmyndir að uppskriftum og mynstrum koma víða að. Þessi húfa varð að stofni til...

Jólapottaleppar
Hannyrðahornið 3. desember 2024

Jólapottaleppar

Jólin nálgast óðfluga og alltaf gaman að taka upp jólahlutina og gefa heimilinu ...

Peysan Björk
Hannyrðahornið 20. nóvember 2024

Peysan Björk

Stærðir: XS S M L XL XXL. Yfirvídd: 88 94 100 111 120 128.

Lily Leaper Socks
Hannyrðahornið 6. nóvember 2024

Lily Leaper Socks

Prjónaðir stuttir sokkar í stroffprjóni úr DROPS Fiesta. Fiesta er nýtt nylonsty...

Peysan Fis
Hannyrðahornið 22. október 2024

Peysan Fis

Létta, lipra peysan sem göngugarpar elska að skella í bakpokann.

Bubba
Hannyrðahornið 24. september 2024

Bubba

Stærðir: XS S M L XL XXL.

Manstu vorið?
Hannyrðahornið 10. september 2024

Manstu vorið?

Þessi fallega peysa með gatamynstri á ermum er prjónuð úr DROPS Alpaca og DROPS ...

Búðarháls
Hannyrðahornið 27. ágúst 2024

Búðarháls

Uppskrift að vesti fyrir Ullarviku á Suðurlandi 2024