Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Hafmeyjuteppi
Mynd / Handverkskúnst
Hannyrðahornið 18. nóvember 2016

Hafmeyjuteppi

Höfundur: Handverkskúnst
Hafmeyjuteppi hafa verið vinsæl um nokkurt skeið og hafa yfirleitt verið hekluð. Ég er mun meiri prjónakona og ákvað í sumar að prjóna svona teppi og hafa múrsteinamunstur. Ég notaði tækifærið til að mynda 9 ára frænku mína þegar hún kom í heimsókn frá Kaupmannahöfn, með teppið ásamt því að sjá hvort hún teldi að vel hefði tekist til hjá mér. 
 
Þetta teppi sló í gegn hjá Stínu frænku og Aþenu ömmugulli og þær voru alsælar og pöntuðu sér teppi í sínum uppáhaldslitum. Auðvelt er að stækka teppið með því að fjölga lykkjum í uppfiti og prjóna það lengra ef maður vill prjóna t.d. fullorðinsteppi. Það er gaman að segja frá því að Móri ömmugull pantaði sér líka teppi og sagði hann að það væri jú til Hafmeyjukóngur svo þetta teppi er svo sannarlega ekki bundið við kvenkynið eingöngu.
 
Stærðir: u.þ.b. 4-6 (7-11) 12-14 ára.
Garn: Kartopu Basak og Kartopu Kar-Sim. (söluaðilar víða um land, sjá auglýsingu hér til hliðar). Teppið kemur einnig fallega út í einum lit.
- Kartopu Basak, litur A: 3 (5) 7 dokkur
- Kartopu Kar-Sim, litur B: 2 (2) 3 dokkur
Prjónar: Hringprjónn 80 sm, nr 7-8 eða sú stærð sem þarf til að prjónfesta í garðaprjóni, með tvöföldum þræði, sé 13 lykkjur = 10 sm
Annað: 2 prjónamerki
Múrsteinamunstur: Munstrið er deilanlegt með 6 + 3 lykkjur. Óprjónuð lykkja er alltaf tekin eins og prjóna eigi hana brugðið.
Umferðir 1-2 (með lit B): Prjónið slétt
Umferð 3 (með lit A): Prjónið 4 lykkjur slétt, takið 1 lykkju óprjónaða *prjónið 5 lykkjur slétt, takið 1 lykkju óprjónaða* Endurtakið frá *-* þar til 4 lykkjur eru eftir. Prjónið 4 lykkjur slétt
Umferð 4 (með lit A): Prjónið 4 lykkjur brugðið, takið 1 lykkju óprjónaða, *prjónið 5 lykkjur brugðið, takið 1 lykkju óprjónaða* Endurtakið frá *-* þar til 4 lykkjur eru eftir. Prjónið 4 lykkjur brugðið
Umferð 5 (með lit A): Prjónið eins og umferð 3
Umferð 6 (með lit A): Prjónið eins og umferð 4
Umferðir 7-8 ( með lit B): Prjónið slétt allar lykkjur
Umferð 9 (með lit A): Prjónið 1 lykkju slétt, takið 1 lykkju óprjónaða * prjónið 5 lykkjur slétt, takið 1 lykkju óprjónaða* Endurtakið frá *-* þar til 1 lykkja er eftir. Prjónið 1 lykkju slétt
Umferð 10 (með lit A): Prjónið 1 lykkju brugðið, takið 1 lykkju óprjónaða, *prjónið 5 lykkjur brugðið, takið 1 lykkju óprjónaða* Endurtakið frá *-* þar til 1 lykkja eru eftir. Prjónið 1 lykkju brugðið
Umferð 11 (með lit A): Prjónið eins og umferð 9
Umferð 12 (með lit A): Prjónið eins og umferð 10
Endurtakið þessar 12 umferðir þar til réttri lengd er náð
 
Aðferð: Fyrstu 6 og síðustu 6 lykkjurnar eru alltaf prjónaðar slétt og teljast ekki með í munstri. Teppið er prjónað með tvöföldum þræði allan tímann, ofan frá og niður, fram og til baka. Sporður er prjónaður sér og saumaður á teppið í lokin.
 
Teppið: Fitjið upp með lit A 99 (111) 123 lykkjur með tvöföldum þræði og prjónið 7 umferðir slétt = 4 garðar (1. umferð er frá röngu). Prjónið nú múrsteinamunstur þannig: 6 lykkjur garðaprjón (kantur), munstur, 6 lykkjur garðaprjón (kantur). Prjónið þar til teppið mælist 74 (90) 100 sm (eða um 25 sm styttra en endanleg lengd teppisins á að vera, án sporðs). Prjónið áfram eftir munstri en nú hefjast úrtökur í hvorri hlið þannig: Prjónið 6 lykkjur slétt (kantur), 2 snúið slétt saman (eða takið 1 lykkju óprjónaða, prjónið 1 lykkju slétt og steypið óprjónuðu lykkjunni yfir), prjónið samkvæmt munstri þar til 8 lykkjur eru eftir af umferðinni, prjónið 2 lykkjur slétt saman, 6 lykkjur slétt (kantur). Takið úr þannig í 4. hverri umferð 3 (3) 3 sinnum og síðan í 2. hverri umferð 12 (12) 12 sinnum = 69 (81) 93 lykkjur á prjóninum. Prjónið nú *1 lykkja slétt, 2 lykkjur slétt saman* endurtakið frá *-* út umferðina . Prjónið síðan stroff *1 slétt, 1 brugðin* um 8-10 sm. Fellið af allar lykkjur. Skiljið eftir langan þráð til að sauma saman teppið að aftan um 25 sm upp.
 
Sporður
 
Sporðurinn er prjónaður fram og til baka og mótaður með styttum umferðum. Þegar snúið er við á miðju stykki er fyrsta lykkja tekin óprjónuð af vinstri prjóni yfir á þann hægri, herðið lykkjuna svo ekki myndist gat í hverjum viðsnúningi.
 
Fitjið upp 45 (50) 60 lykkjur og prjónið 2 umferðir slétt = 1 garður. Prjónið *23 (26) 31 lykkjur slétt, setjið prjónamerki, snúið við og prjónið brugðið til baka. Prjónið 35 (40) 46  lykkjur slétt, setjið prjónamerki, snúið við og prjónið slétt til baka. Prjónið 2 umferðir slétt yfir allar lykkjurnar 45 (50) 60* Endurtakið frá *-* 1 (1) 1 sinni enn. Nú hefjast úrtökur þannig: prjónið 2 lykkjur slétt saman í 4. hverri umferð, ásamt því að halda áfram að prjóna eins og áður frá *-* styttar umferðir, prjónamerki sýna hvar snúa á við þar sem lykkjum að fyrsta prjónamerki fækkar smátt og smátt. Haldið áfram þar til 26 (33) 38 lykkjur eru eftir á prjóninum prjónið þá án úrtöku 2 garða (4 umferðir slétt) yfir allar lykkjurnar. Nú byrjar útaukning og mótun seinni helmings sporðsins, sem er í raun speglun á fyrri helmingi hans. Aukið er út með því að prjóna framan og aftan í fyrstu lykkju umferðar, endurtakið útaukningu í 4. hverri umferð þar til 45 (50) 60 lykkjur eru á prjóninum ásamt því að prjóna styttar umferðir eins og áður. Fellið af allar lykkjur.
 
Frágangur: Saumið saman teppið að aftan frá stroffi og upp að umferð þar sem úrtaka byrjar á teppinu. Saumið sporðinn neðan á stroffið neðst á teppi og lokið um leið enda teppisins. Gangið frá endum, þvoið teppið og leggið til þerris. 
 
Prjónakveðja,
Mæðgurnar í Handverkskúnst, www.garn.is.
 
Sveitahúfa (Húfa á húsin)
Hannyrðahornið 16. desember 2024

Sveitahúfa (Húfa á húsin)

Hugmyndir að uppskriftum og mynstrum koma víða að. Þessi húfa varð að stofni til...

Jólapottaleppar
Hannyrðahornið 3. desember 2024

Jólapottaleppar

Jólin nálgast óðfluga og alltaf gaman að taka upp jólahlutina og gefa heimilinu ...

Peysan Björk
Hannyrðahornið 20. nóvember 2024

Peysan Björk

Stærðir: XS S M L XL XXL. Yfirvídd: 88 94 100 111 120 128.

Lily Leaper Socks
Hannyrðahornið 6. nóvember 2024

Lily Leaper Socks

Prjónaðir stuttir sokkar í stroffprjóni úr DROPS Fiesta. Fiesta er nýtt nylonsty...

Peysan Fis
Hannyrðahornið 22. október 2024

Peysan Fis

Létta, lipra peysan sem göngugarpar elska að skella í bakpokann.

Bubba
Hannyrðahornið 24. september 2024

Bubba

Stærðir: XS S M L XL XXL.

Manstu vorið?
Hannyrðahornið 10. september 2024

Manstu vorið?

Þessi fallega peysa með gatamynstri á ermum er prjónuð úr DROPS Alpaca og DROPS ...

Búðarháls
Hannyrðahornið 27. ágúst 2024

Búðarháls

Uppskrift að vesti fyrir Ullarviku á Suðurlandi 2024