Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Árni Björn Haraldsson hefur búið í áratugi nyrst í Noregi og haft Finna og Rússa að nágrönnum beggja vegna. Nú hyggst hann bregða búi og flytja í þéttbýli í austurhluta Noregs sökum heilsubrests.
Árni Björn Haraldsson hefur búið í áratugi nyrst í Noregi og haft Finna og Rússa að nágrönnum beggja vegna. Nú hyggst hann bregða búi og flytja í þéttbýli í austurhluta Noregs sökum heilsubrests.
Mynd / Aðsendar
Líf og starf 29. júní 2023

Dásamlegt land fyrir hestamennsku

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Árni Björn Haraldsson hefur búið hartnær hálfa öld í Noregi og lengst af í Pasvikdalnum, botnlanganum milli Finnlands og Rússlands, nyrst í Noregi.

„Ég er að heimsækja mömmu, hún verður 100 ára í janúar og býr á Hrafnistu, maður veit aldrei hvort þetta er í síðasta skipti sem ég sé hana,“ segir Árni um erindi sitt til Íslands að þessu sinni. Vinnuhelgi í Eggertslundi í Reykholtsskógi í Borgarfirði, þar sem langafi hans var prestur, sé líka meðal erinda, auk þess að setja jörðina sína í Noregi á sölu.

Útreiðar til skemmtunar og heilsubótar hafa alltaf fylgt Árna en hann hefur bara einu sinni keppt í gæðingakeppni, sér til skemmtunar þegar hann varð sjötugur, sem gekk vonum framar.

Hann er sonur Haraldar Árnasonar heitins, fyrrum ráðunautar hjá Búnaðarfélagi Íslands, og móðir hans er Herdís Jónsdóttir kennari. Árni fæddist í Bandaríkjunum en var alinn upp í Kópavoginum og ævinlega í sveit á sumrin. Lengst í Vorsabæjarhjáleigu í Gaulverjabæjarhreppi, tvö sumur var hann kúskur á Hvanneyri. Sumarlangt vann hann á dönsku tilraunabúi, settist í Bændaskólann á Hvanneyri í eitt ár og þaðan lá leiðin í bútæknideild í Ási í Noregi. Síðan lenti hann, með einhverjum lúppum, til Tansaníu í Afríku þar sem hann tók þátt í samnorrænu þróunarhjálparverkefni og í kjöl­ farið gerðist hann forstöðumaður tilraunabús í Pasvikdalnum, en þaðan var fyrri kona hans.

„Þetta var eins og nýbýlasjóður og vélasjóður ríkisins á sínum tíma. Á tilraunabúinu voru gerðar út gröfur og jarðýtur til að vinna fyrir bændurna og ég stjórnaði þeirri útgerð,“ segir Árni og segir búið einnig hafa annast kennslu grunnkúrs í landbúnaði.

„Í þessu starfi var ég í 8 ár en byrjaði þá með sjálfstæðan rekstur, sem á fáum árum þróaðist alveg yfir í fasteignamat, og hafði meira en nóg að gera þar. Þetta gerði ég svo þangað til ég varð að hætta, ég hafði fengið mænuveiki níu ára gamall, hélt fullum kröftum en fékk seinskaðana þannig að allt í einu var orkan búin. Ég hafði til dæmis verið mikið í Finnmörku á rjúpnaveiðum og gengið ofsalegar vegalengdir en svo allt í einu þá bara gat ég ekki meira.“

Árni kyndir öll hús sín með birki sem hann vinnur sjálfur úr skóginum.

Ógurlega gaman að rækta

Hann bjó í totunni milli Finnlands og Rússlands í 33 ár. Árið 1981 brá tengdafaðir hans búi í Pasvikdalnum og Árna leist illa á að jörðin myndi grotna niður. Hann keypti því jörðina og tengdaforeldrar hans bjuggu þar áfram en Árni annaðist búskapinn. „Ég lét grafa alla skurði upp á nýtt og framræsa öll túnin með drenum, landareignin var öll mýri,“ segir hann. „Þarna var fjós með alls konar vistarverum fyrir hesta, svín og hænsn og ég opnaði þetta allt og breytti í stóra hlöðu, setti upp voldugan súgþurrkunarblásara og framleiddi þarna heilmikið af heyi til sölu. Þetta var nú bara hobbí við hliðina á vinnunni en mér finnst ógurlega gaman að rækta,“ segir Árni.

Svo kom að því eitt árið að hann losnaði ekki við allt heyið og ákvað að fara út í dálitla hestarækt. Hann átti íslenska geldinga til útreiða og afréð að kaupa þrjár merar. Árni segir folöldin sem komu undan merunum hafa verið tamin og seld og það hafi gengið ágætlega. Fyrir nokkrum árum hafi hann þó ákveðið að hætta ræktuninni og halda aftur aðeins hesta til útreiða. Nú er hann orðinn 76 ára og heilsu sinnar vegna segist hann ætla að láta jörðina. „Ég ætla að selja jörðina og kaupa hús einhvers staðar í borginni Kongsvinger í austurhluta Noregs ásamt konunni minni. Ég er svona að velta fyrir mér hvort einhverjir Íslendingar hefðu hug á að kaupa af mér,“ segir hann og telur jörðina vænlega fyrir hestatengda ferðaþjónustu, til dæmis.

Hann segir um 20% hesta í Noregi vera íslenska og sterkt samfélag sé í kringum íslenska hestinn og ræktun hans þar. „Annað veifið eru fluttir inn til Noregs íslenskir graðhestar og fólk hefur verið mjög upptekið af því, en það eru líka nokkrir góðir graðhestar fæddir í Noregi. Ég hef ekki viljað eiga hesta sem eru fluttir inn frá Íslandi því þeir fá svo oft sumarexem. Ég las grein um að 7% af öllum hestum, sama af hvaða kyni þeir eru, fái þetta ofnæmi en helmingur allra hesta sem fluttir eru út tveggja ára og eldri fá þetta þar sem þeim tekst ekki að mynda mótefni.“

Búskapurinn var lengi vel hobbí hjá Árna til hliðar við starf hans í fasteignamati. Hann segist alltaf hafa haft gaman af að rækta.

Rússnesk-úkraínskt samband

Árni er kvæntur rússnesk­úkraínskri náttúruvísindakonu, Elenu Vladimír­ ovnu, sem nam á sínum tíma við skógræktarháskólann í Moskvu og starfaði við rannsóknir á Laplandskiy­ náttúruverndarsvæðinu á Kólaskaga.

Þau kynntust þegar hún kom til Noregs í vinnuferð en í dag er hún með norskan og rússneskan ríkis­ borgararétt og vinnur sem deildar­stjóri á barnaverndarheimili, en áður vann hún sjö ár í kvennaathvarfi.

Að gefnu tilefni er Árni spurður hvort þjóðerni Elenu valdi henni vandræðum nú um stundir þegar Rússar heyja innrásarstríð í Úkraínu. Hann segir aldrei nokkurn tíma hafa verið neitt áreiti vegna uppruna hennar. „Þar sem við búum eru rússneskumælandi konur frá Rússlandi, Úkraínu og baltnesku löndunum. Þær eru með óformlegan klúbb og reyna að hittast einu sinni í mánuði og fara út að borða saman.

Þá gildir ekki hvaða landi þær eru frá heldur hvaða mál þær tala. Þetta hefur ekki verið neitt vandamál á okkar svæði.“

Skylt efni: Noregur

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 15. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn er eitthvað órór þessa dagana enda einhver stífla á verkefnum í krin...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 12. júlí 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Bænder
Líf og starf 12. júlí 2024

Bænder

Sumir fara á Tinder. Aðrir hafa ekki tíma í slíkt vegna anna í búskapnum. Hér, k...

Vættafundur á Eyjabökkum
Líf og starf 10. júlí 2024

Vættafundur á Eyjabökkum

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Oddbjörgu Sigfúsdóttur.

Sumarkveðja
Líf og starf 10. júlí 2024

Sumarkveðja

Nú þegar lífið kviknar með sumrinu og golan leikur við kinn, skulum við gleðjast...

Himbrimi
Líf og starf 9. júlí 2024

Himbrimi

Himbrimi er nokkuð stór vatnafugl og er einn af einkennisfuglum íslenskra heiðav...

Sumarsveiflan 2024
Líf og starf 8. júlí 2024

Sumarsveiflan 2024

Áherslur tískunnar fara nokkuð vítt og breitt þetta árið en nú þegar er farið að...

Dugur og elja ofar öllu
Líf og starf 8. júlí 2024

Dugur og elja ofar öllu

Eitt þeirra mætu kvenfélaga sem hér á landi sitja er Kvenfélag Hringsins sem hef...