Eyrarbúið nær sjálfbært um fóðurframleiðslu fyrir nautgripina
Eggert Ólafsson hóf kornrækt á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum árið 1950 og stóð fyrir stofnun kornræktarfélags bænda á svæðinu. Bygg hefur verið ræktað á Þorvaldseyri samfellt frá árinu 1960 og síðustu 34 árin undir stjórn Ólafs, sonar hans. Um 160 tonna uppskera fékkst af byggi og repju þetta haustið, sem er meira en venjulega – en mikið þarf að gerast í tíðarfari undir Eyjafjöllum til að hagga þeim fasta í búrekstri Eyrarbúsins á Þorvaldseyri.
Á seinni árum hefur Páll Eggert, sonur Ólafs, komið inn í búskapinn á Eyri og séð um korn- og repjuræktunina ásamt föður sínum – og hliðarafurðir repjunnar – sem einnig er mikilvægur liður búrekstrarins í átt að sjálfbærni.
Gera þarf eitthvað róttækt í kornræktarmálunum
„Jú, jú, ég fylgist nokkuð vel með umræðunni, en nú þurfa stjórnvöld að fara að gera eitthvað róttækt til að lyfta greininni upp á eitthvert almennilegt plan í stað þess að tala endalaust um hlutina.
Nú þarf að láta verkin tala því þessi kreppa sem við erum í núna er ekkert að hverfa,“ segir Ólafur og rifjar upp að ekki er langt síðan að nokkuð blómleg kornrækt var í sveitum undir Eyjafjöllum eftir fjármálakreppuna 2008. „Þá fundum við fyrir miklum áhuga bænda á að auka verulega kornrækt sína. Síðan lenda bændur kannski í tjóni, eitt eða tvö ár, og þá gefast margir upp.“
Hærri beinni styrki
Ólafur telur að styrkja þurfi kornræktina mun meira með beinum hætti. „Við erum að fá helmingi minna hér heima en til dæmis í Danmörku og annars staðar. Þannig að við erum langt frá því að vera samkeppnisfær hér í framleiðslunni. Jafnvel þótt innflutt kornvara hafi hækkað mjög mikið í verði, sem gerir samkeppnina fyrir innlendu framleiðsluna aðeins hagstæðari, þá megum við ekki gleyma því að önnur aðföng til ræktunarinnar, eins og sáðvara, olía og áburður, hafa einnig hækkað mikið.
Hann segir að við þurfum að grípa strax til aðgerða, vera viðbúin því að eitthvað enn verra gerist á heimsmörkuðum, því það taki tíma að þróa hagkvæma búgrein kornræktar. „Við búum vissulega við góð skilyrði hérna við sjávarsíðuna undir Eyjafjöllum, en ég held að önnur svæði Íslands séu mörg hver stórlega vanmetin. Það hefur sýnt sig að korn er hægt að rækta í flestum árum víða á landinu, ég hef ekki áhyggjur af því. Það vantar hins vegar mikið upp á að það séu stöðugar markaðsforsendur fyrir íslenska kornið, ef til dæmis uppskeran stendur ekki undir væntingum hvað varðar gæði. Þú situr þá uppi með allt tjónið.“
Betri skilyrði til kornræktar
Að sögn Ólafs eru veðurfarsleg skilyrði að verða betri fyrir kornræktina. „Það vex allt betur hér á landi núna; trjágróður og gras – bændur slá orðið þrisvar og allt er eftir þessu. Landið er líka til staðar, svakalega fínt ræktarland víða á láglendi á Íslandi.
Í fjármálahruninu voru hér bara tveggja vikna olíubirgðir á tímabili og við áttum varla gjaldeyri til að kaupa kjarnfóður. Þá ruku allir af stað í kornræktina. Svipað gerðist í Covid-faraldrinum, að farið er aðhugainnávið–ogsvonúna vegna stríðsátakanna. Hugarfarið hérna heima getur ekki sveiflast svona með ástandi heimsmála hverju sinni – að við séum alltaf í hálfgerðri tilraunastarfsemi varðandi okkar fæðuöryggis- og orkumál,“ segir Ólafur.
Tilfinningalegt tjón
Á þessari stundu í viðtalinu við Ólaf er Páll Eggert kominn inn í samtalið og bendir á að það sé líka stundum þannig að tilfinningatjónið vegi þyngra en það fjárhagslega þegar illa gengur í kornræktinni. „Þegar bændur fá kannski tvö leiðinleg ár í röð, og votviðrasamt haust, þá bara nenna menn ekki að standa í þessu næsta ár. Sæmileg kúabú ættu alveg að ráða við slík áföll endrum og sinnum. Öðru máli gegnir auðvitað um þá sem eingöngu eru í kornrækt.
Í sumum löndum tíðkast það að kornbændum er tryggð afkoma þó þeir lendi í áföllum, eins og í Ástralíu til dæmis þar sem stundum er ekki hægt að sá í tvö, þrjú ár vegna þurrka. Það þyrfti að skoða einhvers konar afkomutryggingu fyrir greinina hér,“ segir Páll.
„Í Noregi hefur verið mörkuð stefna um að þeir rækti allt sitt korn og hveiti sjálfir og mér sýnist þeir vera komnir vel áleiðis með það,“ bætir Ólafur við.
Kostir og gallar alls staðar
Ólafur bendir á að það séu ekki alltaf kjöraðstæður á Þorvaldseyri þó kornakrarnir séu vissulega vel í sveit settir. „Eins og annars staðar eru ókostir líka hérna hjá okkur, hér er oft hvassviðri og talsvert votviðrasamt – en hér vorar fyrr og sumrin kannski lengri. Síðasta vor var til dæmis gott, sumarið frekar kalt en haustið svo mjög gott.
Til lengri tíma hefur það alveg sýnt sig að þetta margborgar sig en það hefur auðvitað tekið tíma að byggja ræktunina upp. Við höfum gert mistök líka og þurft að prófa okkur áfram með ýmislegt. Til dæmis notuðum við í byrjum bara heimasmíðaðar þurrkunargræjur, súrþurrkunarblásara með heitu lofti. Um 1990 fáum við fyrstu hefðbundnu þurrkturnana sem við settum inn í fjóshlöðuna og svo þessa sem við erum með núna fengum við árið 2012. Nú er þetta komið á það stig að aðstæður eru ákjósanlegar hvað varðar allan tækjabúnað og hægt að selja kornið okkar sem matvöru líka.“
Ný kornþurrkstöð
Árið 2015 var byggð kornþurrkstöð með geymslusílóum og lager á Þorvaldseyri sem uppfyllti skilyrði til matvælaframleiðslu. „Það er mikil fjárfesting í svona þurrkstöðvum, til ára eða áratuga, og við ákváðum að hafa hana í stærra lagi til að halda opnum möguleikum um aukningu á kornrækt til matvælaframleiðslu.
En þessi stöð gæti leikandi afkastað svona 6-700 tonnum á hausti af korni og repju, en við þurrkum ekki nema kannski 150- 160 tonn. Af því magni fara um 60 tonn beint sem fóður í kúabúskapinn, um 40 tonn fara til bjórgerðar og um tíu tonn í formi mjöls til bakara. Restin fer þá bara á markað,“ segir Ólafur og bætir við að öll korn- og repjuræktun á Þorvaldseyri sé stunduð án allra eiturefna og annarra óæskilegra efna, eins og skordýraeiturs og illgresiseyðis.
Repjuræktun frá 2008
Repjuræktun hefur verið stunduð á Þorvaldseyri frá 2008, þegar tilraunir hófust til framleiðslu á repjuolíu. Á þeim tíma var Eyrarbúið meðal þátttakenda í verkefni Siglingamálastofnunar sem snerist um framleiðslu á lífeldsneyti úr repjuolíu. Síðan hefur Eyrarbúið ræktað repju til olíuframleiðslu, bæði til manneldis og sem eldsneytisgjafa á vélar. Þá er hratið frá pressuninni á fræjunum blandað við byggið og notað sem próteingjafi fyrir nautgripina á bænum, en í grunninn er Þorvaldseyri kúabú. „Við uppskárum meira en sex tonn af repjufræjum í haust, sem við pressum og vinnum úr eftir þörfum. Repjumjöli er blandað saman við valsað bygg og fiskimjöl.
Út úr þessu kemur heildstæð blanda fyrir kýrnar og því höfum við ekki þurft að kaupa neitt annað fóður í um fimm ár.
Olían má segja að sé aukaafurð út úr þessu, en við notum hana þegar búið er að hreinsa hana á dráttarvélarnar og á þurrkstöðina við þurrkunina á korninu og repjufræjunum – í það fóru um tvö þúsund lítrar. Um tíma prófuðum við að markaðssetja olíuna sem matarolíu en það reyndist ekki vera markaður fyrir slíka olíu, eða réttara sagt að neytendur völdu frekar ódýrari innflutta matarolíu en okkar á því verði sem við þurftum að selja hana á,“ segir Ólafur.
Kolefnishlutleysi Eyrarbúsins
Þeir feðgar segja að stefnt sé á kolefnishlutleysi búrekstrarins og í raun sé það komið nokkuð nálægt því marki. „Við þurfum reyndar að blanda lífeldsneytinu saman við jarðefnaeldsneytið, en repjan gefur okkur um þriðjung þess eldsneytis sem við þurfum,“ segir Páll Eggert, sem sér um þessa hlið mála í búrekstrinum. „Á móti kemur að repjuræktunin sjálf er mjög öflugur þáttur kolefnisbindingar á búinu.
Til að hægt sé að nota repjuolíuna sem eldsneyti þarf hún að fara í gegnum svolítið ferli. Það þarf að sía hana og fjarlægja fitusýrurnar úr olíunni áður en hægt er að dæla henni á vélar, sem er gert með metanóli og olían þannig hvörfuð. Að svo búnu getum við dælt beint af þessari dælustöð sem við fjárfestum í síðastliðið vor,“ segir Páll Eggert.