Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Mynd / Teikning / Hlynur Gauti
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. nóvember næstkomandi, virðast flest allir nokkuð sammála um að bændur þurfi betri lánakjör og margir nefna aukinn fjárfestingastuðning.

Öllum flokkum gafst kostur á að koma áherslum sínum í landbúnaðarmálum á framfæri með því að svara, í hnitmiðuðu máli, eftirfarandi spurningum Bændablaðsins.

  1. Hverjar eru áherslur framboðsins við gerð nýrra búvörusamninga sem taka eiga gildi 1. janúar 2027? Hverju viljið þið breyta efnislega miðað við núverandi stuðningskerfi?
  2. Hvaða aðgerðum, bændum í hag, hyggst flokkurinn þinn beita sér fyrir á kjörtímabilinu?

Afstaða framboðanna fylgja hér með en svör bárust ekki frá Lýðræðisflokknum né Ábyrgri framtíð.

Flokkur fólksins
  1. Flokkur fólksins vill efla stuðning við bændur sem glíma við himinháar vaxtagreiðslur og brostnar forsendur fyrir lántöku. Flokkur fólksins vill útrýma fátækt og liður í því er að styðja við bændur og koma í veg fyrir að þeir þurfi að bregða búi. Við munum tryggja bændum fyrirsjáanleika með því að ráðast að verðbólgunni og taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni og tryggja bændum langtímalán á hagkvæmum föstum vöxtum.

  2. Flokkur fólksins hefur lengi barist við frekari niðurgreiðslum á raforkukostnaði gróðurhúsabænda. Það eru stór tækifæri í gróðurhúsarækt á Íslandi, enda er fjarlægð milli landa slík að innflutt grænmeti er fokdýrt í verði, og þá eru aðstæður innanlands góðar vegna okkar hreina vatns og grænu raforku.
Framsóknarflokkurinn
  1. Framsókn leggur áherslu á að tryggja sjálfbærni í landbúnaði og auka samkeppnishæfni íslenskra bænda. Endurskoða þarf núverandi stuðningskerfi með því að einbeita sér að því að styrkja innlenda matvælaframleiðslu, auka aðgengi að henni og stuðla að nýsköpun í landbúnaði. Einnig þarf að bæta aðstæður bænda og bregðast við erfiðri stöðu þeirra í ljósi þungs regluverks og mikils innflutnings. Auka þarf fjárfestingar í innviðum og tryggja að stuðningskerfi allra bænda sé sanngjarnt, skýrt útfært og fyrirsjáanlegt. Einnig þarf að endurskoða tollaumhverfi landbúnaðar m.a. með leiðréttingu krónutölutolls sem ekki hefur þróast í takt við almennar verðlagsbreytingar frá því honum var komið á.

  2. Framsókn vill tryggja bændum eðlileg starfsskilyrði og afkomu fyrir vinnuframlag sitt svo þeir geti starfað áfram og njóti sambærilegra lífskjara og aðrar stéttir. Vinna þarf að bættu afleysingakerfi fyrir bændur m.a. með það að markmiði að tryggja ungum bændum bætta möguleika á að taka fæðingarorlof, sem er einn liður í því að stuðla að frekari nýliðun ungs fólks í greininni. Nauðsynlegt er að gera breytingar á lánsfjármögnun til jarðakaupa og búrekstrar m.a. með því að tryggja aðgengi að þolinmóðu lánsfé á sanngjörnum kjörum. Það má meðal annars gera með því að veita bændum lán í gegnum Byggðastofnun á lágum vöxtum til lengri tíma. Einnig verður horft til hlutdeildarlána, sérstaklega til bænda. Þá er nauðsynlegt að skilvirkt og áreiðanlegt tryggingakerfi sé til staðar fyrir bændur. Eins þarf að skoða tryggingavernd bænda í kjölfar náttúruhamfara. Framsókn vill auka möguleika bænda og býla á að skapa sér sérstöðu til að auka virði afurða og búa til hliðarafurðir sem byggja á matarmenningu og upplifun gesta. Einfalda þarf regluverk vegna heimavinnslu og smásölu á matvælum og auðvelda þannig bændum að framleiða og selja matvæli beint frá býli. Tryggja þarf gott aðgengi bænda að dýralæknum t.d. með bættu starfsumhverfi og stuðningi við dýralæknanema.
Miðflokkurinn
  1. Við endurskoðun búvörusamninga þurfa meginmarkmiðin að vera þau að tryggja hag bænda, hagsmuni neytenda og öryggi ásamt stöðugleika innlendrar matvælaframleiðslu til langrar framtíðar. Stuðningur við landbúnað verði aukinn í takt við aukna framleiðslu og fyrirkomulag hans einfaldað. Stutt verðið við nýliðun í greininni svo sem með sérstökum lánaflokkum hjá Byggðastofnun og skattaívilnunum við flutning bújarða milli kynslóða. Tryggja þarf að eftirlit með landbúnaðarstarfsemi og matvælaframleiðslu sé samræmt á landsvísu og að eftirlitskostnaður sé ekki íþyngjandi.

  2. Miðflokkurinn hefur ávallt lagt ríka áherslu á mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu og þau stóru tækifæri þjóðarinnar til framtíðar sem felast í heilnæmi matvæla, fæðuöryggi og vaxandi möguleikum til nýtingar vistvænnar orku til matvælaframleiðslu. Auka þarf þegar í stað tollvernd innlendrar framleiðslu með uppsögn og endurskoðun tollasamninga. Koma þarf í veg fyrir óheftan innflutning á ófrosnu kjöti sem er um leið afar mikilvægt lýðheilsumál fyrir þjóðina.

    Stutt verði við nýsköpun, uppbyggingu og markaðsstarf sem mætir þörfum samtímans. Núgildandi tollasamningar hafa skapað mikið ójafnvægi á markaði þar sem innlend framleiðsla þarf að keppa við innflutning á vörum sem ekki sæta sömu kröfum og gerðar eru hér á landi. Koma þarf á betra eftirliti með innflutningi og setja skýrari kröfur um upprunamerkingu matvæla þar sem fram komi upplýsingar um notkun hormóna og sýklalyfja við framleiðsluna. Þá er rétt að vísa til þingsályktunartillögu Miðflokksins um „stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðar“ sem þingflokkurinn hefur lagt fram ítrekað á undanförnum þingum.

Píratar
  1. Áhersla Pírata snýr að því að nýir búvörusamningar taki mið af breyttum aðstæðum og áskorunum sem bændur standa frammi fyrir í landbúnaði og ræktun. Ein stærsta hindrun bænda er kostnaður við framkvæmdir til að byggja ný hús og aðstöðu, og þarf því að tryggja betri lánakjör fyrir bændur sem fara í framkvæmdir til að byggja ný hús. Sömuleiðis þarf að skapa meiri hvata fyrir bændur sem vilja fara út í ylrækt og jarðrækt, þar sem þau geta sótt um styrki til að byrja þá starfsemi – ásamt því að rafmagnskostnaður verði að hluta til niðurgreiddur, þar sem hann er oft gríðarleg hindrun.

  2. Að okkar mati þarf að snúa forgangsröðun stuðningskerfisins við, þannig að fyrsta hugsun sé að styðja við grunnframfærslu bænda. Þannig gæti hugmyndafræði Pírata um borgaralaun nýst til að skjóta styrkum stoðum undir byggð í landinu. Núverandi fyrirkomulag er allt of stíft, bundið framleiðslumagni og pólitík til að taka eðlilegt mið af stöðu bændastéttarinnar hverju sinni.

    Stuðningskerfið þarf líka að taka meira mið af þeim gríðarlegu tækifærum í umhverfis- og loftslagsmálum sem landbúnaður býður upp á, en þar skortir verulega upp á að hið opinbera sé faglegur bakhjarl bænda sem vilja þróa sig í átt að loftslagsvænni landbúnaði.

Samfylkingin
  1. Krafan um íslensk kjör á sannarlega við um bændur enda eru laun þeirra eða reiknað endurgjald víða undir lágmarkslaunum landsmanna. Samfylkingin vill áfram styðja við landbúnað á Íslandi en tímabært er að ráðast í umbætur á landbúnaðarkerfinu í samráði við bændur. Markmiðið er að nýta styrki hins opinbera betur með það fyrir augum að auka frelsi og bæta hag bæði bænda og neytenda en stuðla jafnframt að nýsköpun og fjölbreytni, aukinni grænmetisrækt og umhverfisvænni matvælaframleiðslu.

  2. Landbúnaður á Íslandi hefur mikla sérstöðu sem við í Samfylkingunni viljum virða. Þróun landbúnaðar er ekki aðeins þýðingarmikil fyrir fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar heldur einnig fyrir byggðaþróun í landinu. Þróun heimsmála síðustu ár sýnir með óyggjandi hætti hversu mikilvæg innlend matvælaframleiðsla er þjóðarbúinu. Því er nauðsynlegt að taka sérstaklega mið af landbúnaði við mótun atvinnustefnu. Ljóst er að í dag stendur landbúnaðurinn ekki nógu vel. Til að skapa eftirsóknarverðari starfsskilyrði, nýliðun og tækifæri til nýsköpunar og þróunar er þörf á að bæta fjármögnunarkjör til bænda svo hægt sé að lifa af greininni. Þá verður að gæta þess að regluverk og tollaumhverfi taki mið af þeim ríku kröfum sem við gerum til íslensks landbúnaðar. Hagsmunagæsla innan EES á við um landbúnað líkt og aðrar atvinnugreinar á Íslandi. Til að bæta hag bænda er vert að líta til fyrirmynda í Evrópu þegar kemur að vinnu við nýjan búvörusamning, svo sem til stuðningskerfa landbúnaðar í Noregi og innan Evrópusambandsins.
Sjálfstæðisflokkurinn
  1. Mikilvægt er að skapa landbúnaðinum starfsumhverfi sem hvetur til aukinnar samkeppnishæfni, verðmætasköpunar, sjálfbærni og nýsköpunar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt áherslu á að atvinnugreinin búi við frelsi til að takast á við sveiflur og vinna að langtímahagsmunum bænda og neytenda. Þegar kemur að gerð nýrra búvörusamninga er mikilvægt að stuðningurinn skapi stöðugan og traustan grundvöll fyrir innlenda framleiðslu og allar þrjár stoðir sjálfbærni séu til grundvallar; umhverfisleg, efnahagsleg og félagsleg. Búvörusamningar verða að tryggja bæði fæðuöryggi og matvælaöryggi með því að efla innlenda landbúnaðarframleiðslu. Taka þarf tillit til landfræðilegrar legu landsins og þeirra tækifæra sem landgæði bjóða upp á.

  2. Skapa þarf landbúnaðinum hagstætt og gott rekstrarumhverfi sem bætir afkomu greinarinnar, þannig tryggjum við best nýliðun til framtíðar. Þá er viðvarandi verkefni að huga sérstaklega að því að regluverk hamli ekki nýsköpun og framþróun.

    Af einstökum þáttum má nefna að móta þarf ramma um framleiðslu vottaðra kolefniseininga í landbúnaði og landnotkun þannig að hagsmunir Íslands séu sem best tryggðir. Þá þarf að tryggja dreifingu á raforku á samkeppnishæfu verði til ylræktar til að skapa fyrirsjáanleika í rekstri garðyrkjunnar en þar eru mikil sóknarfæri.
Sósíalistaflokkurinn
  1. a) Sósíalistar vilja endurskoða landbúnaðarkerfið og koma á þjóðarsátt um hvað í landbúnaði felst, í náinni samvinnu við bændur og ábúendur jarða þar sem búskapur í víðum skilningi er stundaður. Ekki er sjálfgefið að fyrirkomulag búvörusamninga sem einblínir á kindakjöts- og mjólkurframleiðslu sé það sem best hentar.

    Við leggjum áherslu á að fæðuöryggi sé tryggt á Íslandi með stöðugri og aukinni innlendri fæðuframleiðslu og eðlilegu matvælaverði og að bændum séu tryggð mannsæmandi kjör og starfsskilyrði.

    Innflutt matvæli skuli lúta sömu reglum og innlendar hvað varðar matvælaöryggi og dýravernd svo að ekki sé grafið undan innlendri framleiðslu og afsláttur gefinn af öryggi og gæðum matvæla.

    b) Við viljum afnema framsalskerfi kvóta og skal kvóti vera tengdur búsetu og/eða skuldbindingu til framleiðslu en ekki verslunarvara sem hægt er að braska með. Einnig viljum við að lífræn framleiðsla og annar búskapur í sveitum en sauðfjár- og nautgriparækt eigi möguleika á að njóta stuðnings samkvæmt lögum.

  2. Að auknir nýsköpunarstyrkir verði veittir í landbúnaði með áherslu á lífræna ræktun og heimavinnslu afurða. Með hinu síðarnefnda fylgir að gera landbúnaðarkerfið sanngjarnara og sveigjanlegra hvað varðar eftirlitsgjöld og vottorð, svo sem við slátrun og annað svo að litlar framleiðslueiningar geti lifað af.

    Flokkurinn hyggst gera Landsbankann að samfélagsbanka en við það munu lánakjör bænda til framkvæmda verða mun hagstæðari. Í dag er staðan þannig að dreifbýlið býr við mikið ójafnræði og afarkosti af hendi fjármálafyrirtækja.

    Við hyggjumst beita okkur fyrir breytingum á jarða- og ábúðarlögum sem koma í veg fyrir að einstaklingar eða fyrirtæki geti safnað að sér bújörðum og öðru landi til eignar. Til þess skal beita takmörkunum svo sem búsetuskilyrðum og fjölda- og stærðartakmörkunum á jörðum og landsvæðum.

    Við ætlum að breyta um stefnu í meðferð fasteigna ríkisins, bæði húsa og bújarða og hreinsa frjálshyggjuna þar út. Með uppbyggingarstefnu í stað sölu og niðurrifs á eigum almennings er hægt að efla nýliðun í bændastétt og standa vörð um eignir almennings í leiðinni.

Viðreisn
  1. Viðreisn er vel ljóst að stöðugleiki og festa í rekstrarumhverfi bænda eru mikilvægir þættir eins og í öðrum atvinnugreinum. Í nýjum búvörusamningum þarf að stuðla að þessu en jafnframt að gæta að svigrúmi til framþróunar, nýsköpunar, landverndar og framlagi til loftslagsmála. Það þarf að draga úr miðstýringu í landbúnaði og auka frelsi til hagsbóta fyrir bæði neytendur og bændur.

  2. Viðreisn telur að mikilvægasta framlag stjórnmálanna til bænda sé að draga úr verðbólgu og ná niður vöxtum. Háir vextir bitna á bændum með miklum þunga, bú eru skuldsett og yfirleitt frekar smá miðað við annan rekstur og vaxtakjör þeirra því oft lakari en í öðrum rekstri. Segja má að síðasta krónan sem verður til í virðiskeðju framleiðslu- og sölu landbúnaðarafurða renni til bóndans. Þeim fækkar eftir því sem vextir og verðbólga verða hærri. Fyrir þessar kosningar leggur Viðreisn höfuðáherslu á að ná niður vöxtum og verðbólgu.

Vinstri græn
  1. Nýtt stuðningskerfi sem tekur við þegar núgildandi búvörusamningar renna sitt skeið þarf að virka betur fyrir bændur. Til þess þarf samtal og vandlegan undirbúning. Við teljum að auka þurfi stuðning um 3–4 milljarða á ári frá því sem nú er til þess að áherslur okkar nái markmiðum sínum. Leggja þarf f.o.f. aukna áherslu á nýliða- og fjárfestingarstuðning. En vaxtakostnaður er íþyngjandi stærð í bókhaldi margra bænda líkt og í samfélaginu öllu. Halda þarf áfram að byggja upp akuryrkju á þeim grunni sem Svandís Svavarsdóttir hóf með stefnumótun og stórauknum framlögum til kornræktar frá árinu 2024. Þá þarf að viðurkenna hlutverk bænda sem vörslumenn landsins og gera það eftirsóknarverðara að stunda öfluga endurheimt vistkerfa og vernd náttúrugæða.

  2. Að ná niður verðbólgu og þar með skapa skilyrði fyrir lækkandi vöxtum er stærsta hagsmunamál samfélagsins og þar með talið bænda. Til viðbótar þeim áherslum sem birtast í svari við fyrri spurningu telja VG að það þurfi að greina kostina við að endurreisa það fyrirkomulag sem var við lýði á Íslandi lengst af og var illu heilli einkavætt fyrir hrun, Lánasjóð landbúnaðarins sem veitti lán á betri kjörum en buðust í bönkum. Vísir að slíku fyrirkomulagi er að finna í Byggðastofnun, sem hefur verið umsvifamikil í útlánum til bænda síðustu ár.
Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...