Nýtt meistaranám í sjálfbærum landbúnaði og byggðaþróun
Öflugur landbúnaður, í sátt við umhverfi og samfélag, er ein af grunnstoðum þróunar íslensks samfélags til framtíðar, ekki síst með tilliti til fæðuöryggis og byggðaþróunar.
Þekking sem samtvinnar grundvallaratriði landbúnaðarvísinda við umhverfisvísindi, nýsköpun, félagsvísindi og þróun byggðar er því mikilvæg fyrir okkar samfélag. Landbúnaðarháskóli Íslands og Háskóli Íslands ákváðu því að taka höndum saman og fengu styrk frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu til þess að skipuleggja nám á meistarastigi á þessu sviði. Niðurstaða þess er sú að haustið 2025 verður hægt að hefja meistaranám sem hefur fengið nafnið Sjálfbær landbúnaður og byggðaþróun. Námið er ætlað bæði innlendum og erlendum nemendum og verður kennt á ensku. Skráning í námið verður opnuð í vetur. Nemendur munu annars vegar geta valið um það að innrita sig í þverfræðilegt meistaranám í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands og tekið þar kjörsviðið Sjálfbær landbúnaður og byggðaþróun, og hins vegar í meistaranám í búvísindum við Landbúnaðarháskóla Íslands með áherslusviðið Sjálfbær landbúnaður og byggðaþróun. Með þessu samstarfi er hægt að byggja á grunni beggja háskóla og auka samstarf þvert á stofnanir þar sem kennarar beggja háskóla munu koma að kennslu og leiðbeiningu í náminu. Fjölmörg þemu tengjast umræddu kjörsviði/áherslusviði sem hafa mikilvæga skírskotun til áskorana nútímans, t.d. landbúnaðarkerfi og framleiðsla, fæðukerfi og fæðuöryggi, stefna og stuðningur stjórnvalda, þar með talið stjórnkerfi og stjórntæki hins opinbera, hagsæld og hringrásarhagkerfi, loftslagsbreytingar, byggðaþróun og nýsköpun í dreifbýli, sjálfbær landnýting o.fl.
Þar sem hugmyndin var að þetta nám myndi undirbúa nemendur undir raunveruleg verkefni bæði hjá hinu opinbera og í atvinnulífinu var haldin vinnustofa, sem Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) skipulagði í ágúst 2024, til þess að kalla eftir hugmyndum og umræðum meðal hagaðila um þætti sem mikilvægt væri að námið næði til. Vinnustofan var vel sótt og voru þátttakendur 43 talsins og mikil breidd var í hópnum. Þátttakendur komu meðal annars frá RML, Umhverfisstofnun, Matís, Bændasamtökunum, Landi og skógi, PWC, Samtökum sveitarfélaga, Deloitte, Eflu, Austurbrú, Eim, Orkídeu, Neytendasamtökunum og Byggðastofnun, að ótöldum starfsmönnum Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands.
Í kjölfar vinnustofunnar var ljóst að mikill áhugi er á námi af þessu tagi og hagaðilar komu með verðmætar tillögur inn í þá vinnu sem fram undan er við þróun námskeiða. Með þessu nýja námi er verið að sameina krafta beggja skóla í því að mæta eftirspurn eftir mikilvægri þekkingu og byggir á því besta sem báðir skólar hafa upp á að bjóða.
Í verkefnisstjórn um undirbúning námsins eru Brynhildur Davíðsdóttir og Jón Geir Pétursson, prófessorar við Háskóla Íslands, Jóhanna Gísladóttir og Jón Hjalti Eiríksson, lektorar við Landbúnaðarháskóla Íslands og Björn Helgi Barkarson, skrifstofustjóri í matvælaráðuneytinu.