Snjallsímar bannaðir í grunnskóla
Frá því í haust hefur nemendum Kirkjubæjarskóla verið óheimilt að vera með snjallsíma.
Valgeir Jens Guðmundsson skólastjóri segir nemendur ná að einbeita sér betur, tala meira saman og að andrúms loftið í skólanum sé betra en áður. Meirihluti foreldra er ánægður með bannið auk þess sem velferðarráð Skaftárhrepps lýsti yfir ánægju með þessa ákvörðun. Nokkrar athugasemdir hafa borist frá foreldrum til sveita sem hafa áhyggjur af því að ekki væri hægt að hringja börnin. Þeir nemendur fá að koma með síma en notkun á skólatíma er óheimil. Skólastjórinn telur að það sé orðið lýðheilsumál að yfirvöld banni snjallsímanotkun barna því þetta hafi ekki eingöngu verið vandamál á Kirkjubæjarklaustri. „Það eru margir skólar á landinu sem hafa gripið til þess ráðs að banna síma. Auk þess sýnir hver rannsókn á fætur annarri fram á skaðsemina,” segir Valgeir. Nemendur Kirkjubæjarskóla eru 46 talsins.