Nægjusemi í nóvember
Landvernd og Grænfánaverkefnið standa fyrir átakinu Nægjusamur nóvember.
„Nægjusamur nóvember er hvatningarátak. Mótsvar við neysluhyggju og hugmyndinni um að okkur vanti stöðugt eitthvað“, segir í kynningu Landverndar. Nægjusemi sé jákvæð, auðveld, valdeflandi og nauðsynleg. Tilgangur verkefnisins er að upphefja nægjusemi sem jákvætt skref fyrir einstaklinga og samfélag til að stuðla að góðu og heilbrigðu lífi og minnka um leið vistspor okkar.
Nægjusemi er þannig mótsvar við gífurlegri neyslu í nóvember sem er neysluríkasti mánuður ársins. Þá nálgast jólin og verslanir keppast við að bjóða tilboð á svörtum föstudegi, netmánudegi og degi einhleypra.
„Við erum stöðugt mötuð á því að okkur vanti hitt og þetta og að lífið yrði betra ef við eignumst þetta allt saman. Krafan um endalausan hagvöxt og að framleiða alltaf meira og nýtt er innbyggt í kerfin okkar. Allt er gert til þess að fólk kaupi meira. Það er aldrei nóg, orðið er ekki til í núverandi hagkerfi. Í staðinn kallar kerfið fram í okkur tilfinninguna um að okkur skorti alltaf eitthvað,“ segir Guðrún Schmidt hjá Landvernd. Mótefnið við ofneyslu og skortstilfinningu sé nægjusemi.
Landvernd og Grænfánaverkefnið, í samstarfi við Norræna húsið og Saman gegn sóun, standa í mánuðinum fyrir viðburðum, greinum, viðtölum, erindum og fræðsluverkefnum fyrir skóla þar sem vakin er athygli á kostum nægjuseminnar sem mótsvari við neysluhyggju.