Flétta saman kúabúskap og framleiðslu vefnaðarvöru
Bændur finna sér í auknum mæli verkefni utan búskaparsins. Margir vinna utan heimilis, ferðaþjónustubændum hefur fjölgað og einnig þeim sem bjóða upp á vörur og þjónustu heima á bæ. Á bænum Hólabaki í Húnabyggð er rekin vefnaðar- og gjafavöruverslun samhliða kúabúskap og hrossarækt.
Á Hólabaki búa þrjár kynslóðir. Björn Magnússon og Aðalheiður Ingvarsdóttir keyptu jörðina 1972 og hafa búið þar síðan. Ingvar Björnsson og Elín Aradóttir hafa búið á Hólabaki ásamt börnum sínum þremur, Aðalheiði, Ara og Elínu, síðan 2013.
„Við hófum búskap fyrir tíu árum síðan og tókum þá við kúabúi foreldra Ingvars. Við höfðum áður búið á Akureyri, en þar hafði ég þegar hafið framleiðslu á vefnaðarvörum í litlu mæli. Þegar við ákváðum að flytja í sveitina þá var frá upphafi meiningin að ég myndi útvíkka þann rekstur. Það hefur síðan gengið eftir og ég hef verið í fullu starfi við fyrirtækið í tíu ár,“ segir Elín, en hún framleiðir undir vörumerkjunum LAGÐUR og TUNDRA.
„Kúabúið er ekki það stórt að það beri tvo starfsmenn í fullu starfi, Ingvar starfar því að mestu einn við búskapinn, en nýtur dyggrar aðstoðar eldri kynslóðar á bænum,“ segir Elín, en á kúabúinu eru um 40 mjólkurkýr ásamt uppeldi, samtals um 80 gripir. Mjólkurframleiðsla á ári er um 250 þúsund lítrar.
Umfang gjafavörufyrirtækisins telur hins vegar um tvö ársverk auk þess sem umtalsverðum saumaskap er útvistað til verktaka í héraði. Elín er eini launþeginn hjá fyrirtækinu árið um kring, en yfir sumartímann er fastur sumarstarfsmaður, auk þess sem verktakar sinna pökkun og afleysingu. Í sumar verður svo verslunin heima að Hólabaki opin alla daga milli kl. 12–17.
„Hólabak er vel staðsett með tilliti til umferðar ferðamanna. Það eru því klárlega tækifæri í verslunarrekstri hér heima á bæ. Að reka gjafavöruverslun í sveit hefur sína kosti og galla. Verslunarrekstur er í raun ákveðin ferðaþjónustustarfsemi og staðsetning á sveitabæ býður upp á ákveðna sérstöðu og óvanalega verslunarupplifun. Bæði íslenskir og erlendir ferðamenn hafa gaman af því að koma heim á býli og sjá hvað bændur og búalið er að sýsla við. Það má því segja að heimsókn í verslunina okkar sé eins konar tækifæri til að hitta heimafólkið í leiðinni, svona eins konar „meet the locals“ hugmyndafræði eins og það er kallað á ensku. Ekki spillir heldur fyrir að verslunin er staðsett við sumarkúahagann og kýrnar og hundurinn á bænum taka því oft og tíðum á móti gestunum,“ segir Elín.
Hún segir að vefnaðarvöruframleiðslan samhliða búskap henti áhugasviði og þekkingu þeirra hjóna. „Okkur hefur því gengið þokkalega að láta þetta ganga upp. Í dag er ekki sjálfgefið að fólk hafi áhuga á að vinna við skepnuhald, þó það hafið valið sér að búa í dreifbýli. Við erum líka þeirrar skoðunar að í grundvallaratriðum sé skynsamlegt að eiga ekki allt sitt undir of fáum breytum. Það skiptast á skin og skúrir í öllum rekstri og þá getur verið gott að geyma ekki öll eggin í sömu körfunni.“