Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Oddný Anna Björnsdóttir í hampakrinum í Gautavík.
Oddný Anna Björnsdóttir í hampakrinum í Gautavík.
Mynd / Geislar
Líf og starf 9. september 2021

Inniheldur CBD sem virkjast í tevatninu

Höfundur: smh

Íslenskt hampte úr innlendri ræktun er nú í fyrsta sinn fáanlegt í íslenskri matvöruverslun.

Framleiðendur eru þau hjónin Pálmi Einarsson og Oddný Anna Björnsdóttir sem markaðssetja vörur sínar undir vörumerkinu Geislar Gautavík, en hampurinn er einmitt ræktaður á bænum þeirra Gautavík í Berufirði.

Ræktun þeirra á iðnaðarhampi sumarið 2019 var í raun upphafið að því ferli sem leiddi til þess að heilbrigðisráðherra skrifaði undir reglugerð vorið 2020 og heimilaði ræktun iðnaðarhamps með undanþáguheimild frá Lyfjastofnun. Endapunkturinn var svo samþykkt Alþingis á frumvarpi heilbrigðisráðherra um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni sem fól í sér að stjórnsýsla og verkefni sem varða innflutning á hampfræjum til ræktunar á iðnaðarhampi fluttist frá Lyfjastofnun til Matvælastofnunar. Við lagasetninguna var horft til þess að iðnaðarhampur væri ekki ávana- og fíkniefni heldur nytjaplanta og því eðlilegra að fræ til ræktunar á honum féllu undir lög um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru sem Matvælastofnun hefur eftirlit með.

Söluhæsta teið í Krónunni

„Við fengum starfsleyfi fyrir framleiðslu á teinu frá Heilbrigðiseftirliti Austurlands í fyrrasumar og seldum það síðastliðinn vetur eingöngu beint frá býli þar sem magnið var ekki það mikið en eftirspurnin þeim mun meiri – það þurfti aðeins eina ­færslu­ í Facebook-hópinn okkar til þess að það seldist upp og fengu færri en vildu,“ útskýrir Oddný.

„Þar sem uppskeran er margfalt meiri í ár sökum góðs tíðarfars og stærra ræktunarsvæðis ákváðum við að dreifa því í verslanir, en seljum það að sjálfsögðu einnig í okkar eigin vefverslun. Við hófum sölu á því í Krónunni í lok ágúst; í Matarbúrinu þeirra sem er samstarfsverkefni Samtaka smáframleiðenda matvæla og Krónunnar og er núna í sex stærstu verslunum Krónunnar. Uppskeran og salan gengu það vel að ákveðið var að setja það líka í tehillurnar í fjórtán verslunum Krónunnar um land allt. Það er gaman að segja frá því að strax í byrjun september var það orðið söluhæsta teið í Krónunni. Næsta skref er svo að dreifa því í verslanir Nettó,“ bætir hún við.

Oddný tekur fram að mikil vinna sé á bakvið hvern poka þar sem enginn tækjabúnaður sé til hér á landi, enn sem komið er. „Við handtínum blómin og laufin næst þeim, þurrkum þau í sérstökum þurrkgrindum við ákveðið hita- og rakastig þar sem þeim er handsnúið nokkrum sinnum og svo færð yfir í netapoka til að tryggja að enginn raki sé í teinu þegar því er pakkað. Svo er það handmalað og handpakkað í vandaða „ziplock“ poka og framleiðsludagsetningin handskrifuð á miðann sem fer á hvern poka,“ segir hún.

Um þúsund manns fræddust um iðnaðarhamp í Gautavík í sumar

Að sögn Oddnýjar var starfsleyfið uppfært í vor þegar þau voru að undirbúa opnun býlisins fyrir almenningi og hófu sölu á einföldum veitingum samhliða því, meðal annars frá félagsmönnum í Samtökum smáframleiðenda matvæla.

„Frá því að við hófum ræktunina árið 2019 hefur fólk streymt hingað til þess að fræðast um hampinn og berja ræktunina augum. Við ákváðum því að bjóða upp á formlega leiðsögn um ræktunarsvæðin og fræðslusetrið okkar í sumar gegn vægu gjaldi og fólki boðið að heilsa upp á húsdýrin í leiðinni og eftir það njóta alls annars sem í boði er á býlinu, eins og að spila golf á heimatilbúna golfvellinum okkar.

Áhuginn var ótrúlega mikill. Okkur telst svo til að hátt í þúsund manns hafi lagt leið sína til okkar til að fræðast um hampinn og voru margir þeirra þegar farnir að rækta sjálfir. Við verðum ekki með formlegan opnunartíma í vetur en bjóðum upp á námskeið fyrir hópa og ef hliðið er opið er fólk velkomið að koma í verslunina. Þess má geta að í byrjun mánaðarins fengum við svo starfsleyfi fyrir framleiðslu á hampsmyrsli sem þeir sem hafa fengið að prófa hafa látið afar vel af.“

Lauf undir smásjá í Gautavík þar sem sjá má kannabínóðana eins og litla kristalla.

Einangraðir kannabínóðar skilgreindir sem nýfæði

Blóm og lauf iðnaðarhampsins eru talin innihalda yfir 130 kannabínóða, þar með talið CBD sem er þeirra þekktastur og mest rannsakaður. Hingað til hafa verið hindranir á sölu á matvörum, þar með talið fæðubótarefnum sem einangruðum kannabínóðum hefur verið bætt út í – eins og hinni svokölluðu „CBD-olíu“. Hún gengur undir því nafni þó hinir kannabínóðarnir geti fylgt með. Ef allir fylgja með í vinnsluferlinu kallast olían „full-spectrum CBD-olía“.

Oddný segir hindranirnar vera vegna þess að „extraktið“ sé skilgreint sem nýfæði og þurfi þess vegna að fá leyfi frá Matvælastofnun fyrir því og hvernig eigi að nota það.

Hampblóm ásamt laufunum næst blóminu. Neðri blöðin fylgja í teframleiðsluna ef annað blóm hefur náð að myndast undir efsta blóminu.

Hún segir það ekki eiga við um teið þar sem það sé einfaldlega þurrkuð og mulin blóm og lauf hampsins sem ekkert er búið að eiga við. Þegar því er blandað út í soðið vatn með ½-1 tsk. af feiti eða matarolíu virkjast og losna kannabínóðarnir af tejurtunum og fara út í tevatnið. „Við mælum með bragðlausri kókosolíu því hún hefur lágmarksáhrif á bragðið af teinu. Svo má bragðbæta það, til dæmis með hunangi,“ segir Oddný.

Hún útskýrir ferlið við framleiðslu á CBD-olíunni þannig að fyrst séu þurrkuðu blómin og laufin vætt í etanóli eða öðru leysiefni. Etanólið – sem kannabínóðarnir eru búnir að leysast upp í – er svo síað frá og eimað og eftir standa þá einangraðir kannabínóðar. Þar sem það hentar ekki til inntöku er það sett út í svokallaða burðarolíu, til dæmis ólífuolíu, kókosolíu eða hampfræolíu og miðað við ákveðið magn CBD í einum dropa.

Ríkjum ESB óheimilt að hindra viðskipti með CBD

Oddný segir að í nóvember 2020 hafi Evrópudómstóllinn úrskurðað að CBD flokkaðist sem matvæli en ekki lyfjaefni og að ríkjum sambandsins væri óheimilt að hindra viðskipti með það – og framkvæmdastjórn ESB hafi verið á sama máli. Hún segir að Ísland hafi innleitt matvælalöggjöf ESB í gegnum EES samninginn og því eigi þessi dómur einnig við hér á landi. „Í kjölfarið hefur opinber sala á CBD húðolíum – sem eru hæfar til inntöku – aukist mjög, verslanir sem sérhæfa sig í CBD-vörum sprottið upp og ýmsir hafið tilraunaframleiðslu á matvörum með CBD, en fram að því var sala á CBD-olíum til inntöku öll á „gráa markaðinum“.

Velferðarnefnd lagði til í áliti sínu í vor að landbúnaðarráðherra skipi starfshóp sem hafi það markmið að skoða hvort eitthvað í regluverkinu hér á landi hindri sölu á CBD vörum. „Starfshópurinn á að skila af sér eigi síðar en 1. desember næstkomandi, enda brýnt að þetta sé skýrt í regluverkinu og að innlendir framleiðendur missi ekki af lestinni, því samkvæmt Grand View Research var heimsmarkaður með CBD árið 2020 metinn á 2,8 milljarða Bandaríkjadala, sem eru rúmir 350 milljarðar íslenskra króna, og búist við að hann vaxi um 20 prósent á ári frá 2021 til 2028, það er, verði um 1.500 milljarðar árið 2028,“ segir Oddný.

Allt að 15 tonn af þurrkuðum blómum og laufum 

Pálmi í pökkunaraðstöðunni.

Könnun Hampfélagsins í vor í Facebook-hópnum þeirra, „Hamp­ræktendur og markaðstorg“, gaf til kynna að hampur yrði ræktaður á að lágmarki 150 hekturum lands í sumar. .Að sögn Oddnýjar hefur fólk verið að deila myndum og myndböndum af sinni ræktun í þeim hópi, þar sem víða ríkir mikil bjartsýni með ræktunina.

„Fólk er nú í kappi við tímann að tína og þurrka blómin áður en fyrsta haustlægð og næturfrost skellur á því þau fara illa í því. Ef ræktendur næðu að tína þau öll yrði til hér á landi allt að 15 tonn af þurru efni sem hægt væri að nýta beint sem te og krydd eða bæta út í matvæli. Það eru því ansi margir sem munu súpa á hamptei og fleiri hampafurðum í vetur úr eigin ræktun eða annarra. Og þá eru stilkarnir eftir sem hafa fjölbreytt notagildi eins og mikið hefur verið rætt um,“ segir Oddný.

Þeim sem vilja kynna sér búskapinn í Gautavík betur er bent á Facebook-hópinn Geislar Gautavík  – opið býli – hampur, húsdýr, handverk/snarl, golf o.fl.

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...