Íslenskur hópur á heimsþing dreifbýliskvenna
Dagana 17.-25. maí nk. fer fram 30. heimsþing Alþjóðasambands dreifbýliskvenna (ACWW) í Kuala Lumpur í Malasíu.
Auk þingstarfa og kosninga verður boðið upp á skoðunarferðir um nágrennið og blásið til hátíðarkvölds í Þjóðarhöll Malasíu.
Samtökin beita sér fyrir hagsmunum dreifbýliskvenna um heim allan og bættri stöðu þeirra innan eigin samfélaga.
Á vefnum acww.org.uk kemur fram að auk brýnna umhverfissjónarmiða er fókusinn fram til ársins 2026 meðal annars settur á umhverfisvæna tæknivædda ræktun, heilbrigði kvenna í dreifbýli og kennslu og þróunarverkefni ýmis, stór og smá.
Sem dæmi um slíkt verkefni er að safna fé fyrir áveitukerfi fyrir þorp í Afríku. ACWW hefur ráðgefandi stöðu hjá Sameinuðu þjóðunum varðandi málefni dreifbýliskvenna.
Jenný Jóakimsdóttir á skrifstofu Kvenfélagasambands Íslands á Hallveigarstöðum segir að 10 íslenskar konur, einkum af Suður- og Suðvesturlandi, séu skráðar í ferðina. Um 450 þátttakendur frá öllum heimsálfum hafi boðað komu sína á þingið að þessu sinni.
Jenný sótti einnig Evrópuþing samtakanna í Skotlandi í haust. Hún segir íslenska hópinn hlakka mjög til að sækja þingið og kynna sér starf og áherslur ACWW nánar.