Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Steinþór Logi Arnarson og Eydís Anna Kristófersdóttir með soninn Kristófer Loga. Þau tóku formlega við búskapnum á Stórholti snemma á síðasta ári af foreldrum Steinþórs.
Steinþór Logi Arnarson og Eydís Anna Kristófersdóttir með soninn Kristófer Loga. Þau tóku formlega við búskapnum á Stórholti snemma á síðasta ári af foreldrum Steinþórs.
Mynd / smh
Líf og starf 16. maí 2023

Íslenskur landbúnaður á tímamótum

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Á Stórholti í Dölum, við utanverðan Gilsfjörð, búa þau Steinþór Logi Arnarsson og Eydís Anna Kristófersdóttir. Þau tóku á síðasta ári formlega við sauðfjárbúskapnum af foreldrum Steinþórs, sem þarna eiga rætur. Þau búa nú í íbúðarhúsnæðinu á jörðinni með níu mánaða son sinn, Kristófer Loga, en foreldrarnir eru fluttir á aðra jörð í sömu sveit þar sem faðir Steinþórs ólst upp. Steinþór tók við formennsku í Samtökum ungra bænda í lok janúar á síðasta ári og nú nýverið við formennsku í Félagi sauðfjárbænda í Dalasýslu. Hann telur íslenskan landbúnað að mörgu leyti standa á tímamótum.

„Okkar fyrsta verk í fyrra var að kaupa áburðinn – einmitt á besta tíma,“ segir Steinþór kaldhæðinn. „Foreldrar mínir fylgdu sínum lömbum til loka sláturtíðar en við tókum svo við búinu alfarið þá, eftir að hafa lagt drög að næstu framleiðslu, það er dilkum í haust.“

Kynntust í Bændaskólanum

Eydís Anna er frá Finnmörk í Fitjárdal í Vestur-Húnavatnssýslu, frá sambærilegu sauðfjárbúi þar – en þau Steinþór kynntust í Bændaskólanum á Hvanneyri í búfræði þar sem þau voru saman í bekk. „Þetta er svona ekta,“ segir Steinþór og brosir. „Við erum ekki fyrsta bændaparið sem kynnist þar.“

Þegar Steinþór er spurður um framtíðarplön, segir hann að þau kunni vel við sig þarna og þetta líferni. „Að öllu óbreyttu verður þetta okkar lífsstíll og atvinna – það er að segja ef það verða forsendur til þess. Það er auðvitað lykilatriðið. Það er oft talað um að það sé komið að tímamótum í þessari búgrein en núna er ástandið þannig að það hefur sjaldan verið eins mikil eftirvænting eftir almennilegum skilaboðum stjórnvalda um hvað þau vilji gera til framtíðar,“ segir hann.

Beðið eftir skýrum skilaboðum stjórnvalda

Í sauðfjárrækt hefur þróunin verið sú að fé fækkar jafnt og þétt í landinu. Að vissu leyti hefur sú tilhneigingin orðið að þau bú sem eftir verða stækka mörg hver en önnur minnka niður í frístundastærðir, þar sem ábúendur stunda aðra atvinnu meðfram búrekstrinum. „Já, það virðist vera,“ svarar Steinþór. „En það eru þó margir sem enn bíða og sjá hvað verður. Í raun er beðið eftir skýrum skilaboðum stjórnvalda. Það er ekkert sjálfsagt mál til dæmis að kynslóðaskipti eigi sér stað á sauðfjárbúum, með himinháum vöxtum á lánum og verð á aðföngum í hæstu hæðum, það á líka við í fleiri búgreinum.

Afurðaverð hefur kannski haldið nokkuð í við hækkun aðfanga en samt erum við enn nokkuð langt frá því að það hafi tekist að leiðrétta þau eins og þörf var á, fyrir þessar hækkanir á áburði til dæmis. Það er auðvitað forvitnilegt að sjá hvað kemur út úr endurskoðun búvörusamninganna og svo er stutt í nýjan búvörusamning í framhaldi af því,“ segir Steinþór þegar hann er spurður út í hvenær von sé á skilaboðum stjórnvalda.

Ánægja með núverandi fyrirkomulag

Steinþór segir að lesa megi sitthvað út úr áformum stjórnvalda með því að rýna í þingsályktunartillögu um landbúnaðarstefnu fyrir Ísland, en drög að henni lágu í Samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar í febrúar. „Þar er snert á talsverðum breytingum á styrkjafyrirkomulagi við land- búnaðinn, til dæmis hvað varðar framleiðslustýringu, og svo eru þar hugmyndir um aukna styrki út á landbúnaðarland á kostnað beinna styrkja við búgreinar. Við höfum lýst ánægju okkar að mestu leyti með kerfið okkar eins og það er nú – svona í grundvallaratriðum.

Við erum núna með þetta greiðslumark til dæmis í sauðfjárræktinni, sem er svona grundvöllurinn að stuðningsfyrirkomulagi við greinina í dag, það er góður fyrirsjáanleiki í því. Markmiðið er auðvitað að tryggja framleiðslu á þessum búvörum, að þær séu aðgengilegar íslenskum neytendum á viðráðanlegu verði og að rekstraröryggi bænda sé tryggt. Þetta eru mikilvægir punktar þegar stefnt er að góðu fæðuöryggi, að landbúnaðurinn byggi á traustum grunni. Það er mikilvægt þegar á reynir. Og með það í huga er kannski ekkert óeðlilegt að ríkið komi inn með sterkari hætti, með meira fjármagni.

„En jú, það er frekar óheppilegt að vera að skipta ítrekað um stefnu í þessu máli,“ segir Steinþór um þá staðreynd að sauðfjárbændur hafa í tvígang samþykkt niðurtröppun á greiðslumarki í gegnum búvörusamninga en vilja nú við endurskoðun þeirra halda í fyrirkomulagið. „Staðreyndin er hins vegar sú að ungir bændur hafa hlutfallslega fjárfest mikið í heildargreiðslumarki sauðfjárbænda og ef það er ekki hægt að treysta á stuðning á þeim grunni þá rýrnar fyrirsjáanleiki rekstrargrundvallar þeirra um leið. Sérstaklega ef hluti þess þróast yfir í eitthvað annað form stuðnings sem síðan er breytt kannski á nokkurra ára fresti,“ segir Steinþór. Hann segir að það sé þó jákvætt það sem hafi kvisast út um búvörusamningana að þeir verði gerðir í sátt á milli samningsaðila, vonandi þýði það að ekki eigi að neyða sauðfjárbændur til niðurtröppunar á greiðslumarki til dæmis.

Fleiri óvissuþættir

Fleiri þættir í rekstrarumhverfi sauðfjárbænda eru óvissu háðir, að sögn Steinþórs. „Þrátt fyrir að nú sé komið vel yfir ár síðan bændur fóru að leggja drög að framleiðslunni þetta árið eru enn ekki komnar fram afurðaverðskrár sláturleyfishafa.“

Þegar Steinþór er spurður um hvernig hann sjái hinar búgreinarnar þróast á næstu árum, hvort til dæmis bændur skoði það í auknum mæli að blanda búgreinum saman á bæjum til að styrkja afkomumöguleika sína – segir hann að það sé til umræðu og hafi í raun þróast að vissu leyti í þá átt með aukinni ferðaþjónustu í landinu. „Já, hún á góða samleið með landbúnaði upp að vissu marki. En um leið má ekki gleyma mikilvægi þess að fólk verði að geta einbeitt sér að kjarnanum í búrekstri sínum, sérhæfing leiðir til þróunar og aukinnar hagkvæmni búgreina. Það er víst ekki hægt að gera allt þó vissulega séu góðir kostir við það að reka fjölbreytt og blönduð bú.“

Möguleikar með auknu fjármagni til akuryrkju

„En sjálfsagt opnast einhverjir möguleikar fyrir bændur með búfjárhald nú þegar stjórnvöld hafa ákveðið að setja mikið fjármagn í akuryrkju og grænmetisframleiðslu – og að endurvekja eyðijarðir. Á slíkum jörðum gæti verið minni tilkostnaður að fara út í búskap heldur en að fjárfesta í jörðum sem hafa verið í ábúð. Hins vegar til að koma nautgripa- og sauðfjárbændum til bjargar, sem margir hverjir eru í alvarlegum rekstrarvanda, verður að koma sterkt útspil frá stjórnvöldum.

En jú, við verðum að fara að hugsa út fyrir boxið. Til dæmis bara með aukinni skógrækt þá munu skapast alls konar hliðargreinar út frá henni sem vonandi hjálpa til við að efla byggðafestu,“ segir Steinþór.

Hann er ekki sannfærður um að lagasetning sem heimili meiri samvinnu á milli kjötafurðastöðva muni breyta miklu um afkomu bænda. „Ég held bara að traust bænda gagnvart afurðastöðvunum sé ekki nógu mikið. Fólk spyr sig í ljósi sögunnar hvort það verði virkilega til góðs fyrir bændur þótt afurðastöðvarnar fái að vinna meira saman – þær hafa sýnt að þær virðast hugsa mikið um eigin hag.“ Hann segir að margir hafi spurt sig að þessu sömuleiðis í tengslum við sameiginleg hagsmunasamtök bænda og samtaka fyrirtækja í landbúnaði í ljósi þess að í dag virðist vera unnið að ólíkum markmiðum og hagsmunum. Það séu þó mikil tækifæri fólgin í því og mikilvægt að öll keðjan vinni betur saman, það sé til hagsbóta fyrir alla.

Steinþór og Eydís eru með um 570 fjár, en sauðburður var ekki hafinn þegar blaðamaður var á ferð um Dalina.
Nýliðun nauðsynleg

Steinþór sat búgreinaþing sauðfjárbænda 2023 og síðan Búnaðarþing 2023 sem fulltrúi Samtaka ungra bænda. Á Búnaðarþingi kom hann að gerð ályktunar um nýliðun í landbúnaði, sem svo rataði inn í heildarstefnumörkun Bændasamtaka Íslands. Í henni segir meðal annars að nýliðun í landbúnaði sé nauðsynleg til að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar og byggðafestu. Auka þurfi framlög í nýliðunarstuðning, endurskoða fyrirkomulagið, sem og að leita nýrra leiða til að styðja við kynslóðaskipti.

Atvinnugreinin þurfi aðgang að þolinmóðu fjármagni á lágum vöxtum til að nýliðar sjái sér hag í að velja landbúnað umfram annan rekstur. Til að svo megi verða þurfi landbúnaðarstefnan að vera til lengri tíma og megi ekki sveiflast vegna geðþóttaákvarðana einstakra valdhafa hverju sinni. Framleiðendur verði að geta búið við fyrirsjáanleika og stöðugleika. Lagt er til að styðja sérstaklega við þá frumkvöðla sem hefja ræktun á nýjum tegundum, enda þurfi að auka fjölbreytni í íslenskri frumframleiðslu matvæla.

„Það er ljóst að við búum við þau skilyrði til lántöku þar sem lánveitendur eru ekki mjög þolinmóðir. Fyrir venjulegar fjölskyldur er það bara orðið ansi stór biti að ráðast í fjárfestingar á bújörðum – og í raun óraunhæft að þær geti staðið undir þeim nema að afkoman sé góð. Það er líka þessi félagslegi þáttur, að það sé ekki sjálfsagt að fólk afsali sér þeim lífsskilyrðum sem aðrir í þjóðfélaginu búa við, til þess eins að vera bændur. Það er frekar vonlaus staða, eins og dæmi eru um, þegar kannski tveir einstaklingar þurfa að vinna fulla vinnu utan bús, en verja svo afgangstímanum í að sinna búrekstrinum,“ segir Steinþór.

Undirliggjandi bjartsýni bænda

Hann segir að það þurfi líka að uppfæra nýliðunarstuðning í landbúnaði. „Þar er einnig óvissa um, í hvert sinn sem úthlutað sé, hversu mikið hægt sé að búast við. Potturinn er þar bara föst tala sem þynnist svo bara út eftir því hversu margir umsækjendur eru – og þeim fer fjölgandi en kostnaður vegna fjárfestinga hækkar.

Sem betur fer er alltaf undirliggjandi bjartsýni í bændum, því við vitum að þrátt fyrir allt eru náttúruleg skilyrði hér betri en víða. Hér eigum við ýmsar auðlindir eins og gott vatn, hreina orku og landbúnaðarland sem er gaman og krefjandi að vinna við, svo ekki sé minnst á fólkið og þekkinguna. Þetta er líka þegar upp er staðið frábær lífsstíll sem fylgir þessu.“

Góður félagsskapur ungra bænda

Steinþór segist telja að ungt fólk með áhuga á búskap sé upp til hópa jákvætt og sé tilbúið að taka stökkið – hann heyri minna af hinum sem séu tvístígandi og kannski hverfa frá því að fara þessa leið í lífinu. „Og það er ein af áskorununum sem landbúnaðurinn stendur frammi fyrir; hvenær viljum við fá fólk í búskap? Viljum við fá fólkið fljótlega eftir nám – og þá þarf ákveðið átak til að ná því inn – eða dugar að fólkið komi inn þegar það er búið að stofna fjölskyldu og kannski komið með fjárhagslegt sjálfstæði til að geta farið út í búskap sem er svo sem ekkert síðra, þannig séð?“

Að sögn Steinþórs er starfsemi Samtaka ungra bænda í nokkuð föstum skorðum. „Þetta er góður félagsskapur fólks með sömu ástríðu og sömu áskoranir sem gott er að deila skoðunum um. Það eru um 400 félagsmenn núna í samtökunum en fólk svo sem misvirkt. Hagsmuna- og félagsstarfið byggist aðallega á fjórum landshlutasamtökum, sem hvert er með eigin stjórn. Þau sameinast síðan á aðalfundi sem flakkar á milli landshlutanna. Annars reynum við að vera öflugur málsvari ungra bænda og lágmarka þröskulda ungs fólks í landbúnaði svo sem flestir sjái sér fært að vera með.“

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...