Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir og Ómar Helgason eru með 110 mjólkurkýr og 70 holdakýr í Lambhaga en alls eru nautgripirnir á búinu um 540.
Margrét Harpa Guðsteinsdóttir og Ómar Helgason eru með 110 mjólkurkýr og 70 holdakýr í Lambhaga en alls eru nautgripirnir á búinu um 540.
Mynd / smh
Líf og starf 22. júní 2022

Lambhagabændur rýna í einstaka þætti búrekstrarins

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Auglýst hefur verið eftir 15 nautgripabændum til viðbótar til þátttöku í verkefninu Lofts­ lagsvænn landbúnaður. Tvö ár eru liðin síðan verkefnið var sett af stað en það er hluti af aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum.

Svo virðist vera sem stjórnvöld ætli að bæta verulega í stuðning við verkefnið í náinni framtíð. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra talaði um það við setningu síðasta Búnaðarþings að hún sæi það fyrir sér að verkefnið muni skila auknum árangri á komandi árum þannig að hægt sé að víkka það út til svo miklu fleiri bænda.

Verkefnið gengur í grund­ vallaratriðum út á að bændurnir geri aðgerðaráætlun fyrir búin um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka kolefnisbindingu.

Fjósið er að sögn Lambhagabænda dæmigert tveggja róbóta fjós. Það var flutt inn í það árið 2019. Grunnflöturinn er 1.700 fermetrar og þau gætu verið með 120 kýr, en eru nú með 110. Þau eru með „kanalkerfi“ í haughúsinu og gjafakerfi þeirra gerir það að verkum að það er nánast fullkomin nýting á fóðrinu. Með flutningunum yfir í nýtt fjós jókst nyt kúnna mjög mikið. Margrét Harpa og Ómar eru meðvituð um að minnka metangasmyndunina í haughúsum, með haugmeltu og því að hafa skítinn á hreyfingu. Mynd / Lambhagi

Nautgripirnir alls um 540

„Við fórum inn í verkefnið með blandað bú,“ segir Margrét Harpa Guðsteinsdóttir, sem býr ásamt Ómari Helgasyni í Lambhaga á Rangárvöllum.

Þar reka þau ásamt öðrum nautgripa­ og sauðfjárbú. Þau segja að aðalstarfið sé þó mjólkur-­ og nautakjötsframleiðsla og þeirra nálgun á markmið verkefnisins sé fyrst og fremst í gegnum þann hluta búskaparins. Þau eru með 110 mjólkurkýr og 70 holdakýr – en alls eru nautgripirnir á búinu um 540. Svo eru þau með 90 kindur.

Ræktað land er um 300 hektarar, bæði slegið og beitt. Jörðin er um 450 hektarar að heildarstærð. Um 60 hektara landgræðsluland eru þau með á Geitasandi í landi Landgræðslunnar.

Loftslagsnálgunin er sú sem koma skal

„Við komum inn í byrjun árs 2021 og það má segja að ástæðan fyrir því að við sóttum um hafi verið sú að við teljum að þessi nálgun sé sú sem koma skal. Þetta er líka spurning um ímyndina – það er þörf á því að auka velvild almennings í garð landbúnaðarins á Íslandi og að við sýnum að við séum meðvituð um þessi mál eins og hver annar Íslendingur,“ segir Margrét Harpa.

Ómar bætir við að einnig hafi verið sú hugsun að athuga hvort það væri eitthvað í búrekstrinum sem mætti endurskoða til framfara.

„Maður vill auðvitað hagræða eins og hægt er og í gegnum verkefnið var hægt að sækja sér ráðgjöf, sem hefur reynst okkur vel.“

Margrét Harpa og Ómar segjast hafa viljað hagræða eins og hægt væri og í gegnum verkefnið var hægt að sækja sér ráðgjöf, sem hefur reynst vel.

Engir umhverfissóðar

Þau segjast síður en svo þurfa að gangast við því að vera einhvers konar umhverfissóðar – fjölskyldan hafi stundað landgræðslu af krafti og fékk landgræðsluverðlaun árið 2020.

„En það er eitt og annað í umræðunni og í verkefninu sem segja má að orki tvímælis,“ segir Ómar.

„Þarna er til dæmis mikil áhersla á skógrækt en það hentar okkur alls ekki og að mínu mati ekki á okkar landsvæði hér á Suðurlandi. Þetta ætti að taka frá sem landbúnaðarland fyrir búfé og akuryrkju – en það vantar alveg skipulagningu og flokkun á því sem er hugsað til notkunar fyrir landbúnað í framtíðinni. Þú ræktar til dæmis ekki land svo glatt á svæðum þar sem skógrækt hefur verið stunduð,“ bætir hann við.

Margrét Harpa segir að þetta snúist allt einmitt um þetta, hvort við ætlum að vera með eigin matvælaframleiðslu á Íslandi.

„Ef við ætlum að gera það, verðum við að vernda svæðin sem eru hentug til þess.“

Nóg er til af landi á Íslandi sem hentar ekki til akuryrkju og er þá kjörið til skógræktar, eins og til dæmis Hekluskógaverkefnið í Rangárvallasýslu.

Eitt og annað hægt að bæta í verkefninu

Margrét Harpa tekur einnig undir með Ómari að það sé svigrúm til að bæta eitt og annað varðandi útfærslu verkefnisins. Þau hafi talið, þegar þau fóru inn í verkefnið, að þeirra framlag til landgræðslu myndi telja talsvert varðandi þann hluta verkefnisins sem snýr að kolefnisbindingu.

„En svo kom í ljós að grasræktun okkar á söndunum hérna fyrir ofan, í landi Landgræðslunnar telst ekki til kolefnisbindingar nema að mjög litlu leyti. Landið okkar er líka mjög vel gróið og engin dauð svæði í því sem hefði verið hægt að nýta til skógræktar. Við skoðuðum því að fara í skjólbeltagerð eða rækta skógarlundi, en þá kemur það í ljós að slík skógrækt reiknast ekki inn í loftslagsbókhald verkefnisins. Við spurðum okkur þess vegna að því hvað við gætum þá gert – og niðurstaðan var sú að leggja aðaláherslu á búrekstrarþáttinn,“ segir hún.

Rýnt í búrekstrarþættina

„Það er margt í verkefninu sem hefur hvatt okkur til að rýna betur í einstaka þætti búrekstrarins, til dæmis varðandi búfjáráburðinn. Áður en við byrjuðum í verkefninu vorum við farin að huga að betri nýtingu á búfjáráburðinum og byrjuðum að fella hann niður – sem hefur gefist mjög vel – og eftir að við hófum þátttöku höfum við farið enn betur ofan í áburðarmálin. Nú látum við mæla allt í bak og fyrir; innihald búfjáráburðarins, tökum jarðvegssýni og fleira mætti nefna.

Þannig er okkar nálgun í verkefninu; við horfum mest í það hvernig hægt sé að bæta búreksturinn með því til dæmis að stytta eldistíma gripa, auka frjósemi og afurðir auk þess að draga úr kostnaði. Þannig hefur þátttakan í verkefninu orðið til þess að maður er sífellt að hugsa um hvernig megi gera betur,“ segir Ómar.

Gjafarinn gefur tíu sinnum á sólarhring og kýrnar éta nánast alltaf upp allt heyið. Heyið er saxað úr stæðunni sem gerir heyið mjög lystugt. Steinefnum er svo bætt saman við og maís.

Hagkvæmni stæðuverkunar

Til að nefna fleiri hagnýt atriði sem þau hafi nýtt sér til betri búrekstrar, segir Ómar að þau hafi farið út í stæðuverkun á heyi.

„Hagkvæmnin í því er augljós, því sparnaður er bæði fjárhagslegur og loftslagslegur í plastnotkuninni. Við höfum líka farið að kaupa aðföng inn í stærri skömmtum. Á þessum sviðum hefur ráðgjöfin í verkefninu nýst okkur mjög vel.“

Margrét telur að verkefnið geti hjálpað til við að rétta af hina ósanngjörnu umræðu um loftslagsmál, sem nautgripabændur þurfi gjarnan að sitja undir.

„Reyndar er staðan nú þannig að ef fram heldur sem horfir verður sjálfhætt í nautakjötsframleiðslu, því staðan varðandi afurðaverð til bænda er orðin grafalvarleg. Það hefur engan veginn náð að halda í við hinar gríðarmiklu launa- og aðfangaverðshækkanir,“ segir Margrét.

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...