Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Flott fjölskylda, Margrét Harpa og Ómar ásamt börnunum sínum en þau heita Kolfinna Sjöfn, Hafdís Laufey, Hrafnkell Frosti og Helgi Tómas.
Flott fjölskylda, Margrét Harpa og Ómar ásamt börnunum sínum en þau heita Kolfinna Sjöfn, Hafdís Laufey, Hrafnkell Frosti og Helgi Tómas.
Mynd / Úr einkasafni
Líf og starf 14. október 2020

Landgræðsluverðlaunin komin í hús og hugað að frekari stækkun búsins

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

Það er einstaklega gaman að heimsækja ábúendur á bænum Lambhaga á Rangárvöllum í Rangárþingi ytra því þar er allt svo snyrtilegt, vel hugsað um skepnurnar og mikill hugur í bændunum á bænum þrátt fyrir að það séu blikur á lofti í landbúnaði með auknum innflutningi og lækkunum á afurðaverði. Þá eru mörg börn á hlaðinu, sem eru dugleg að taka þátt í búrekstrinum og stunda ýmsar tómstundir samhliða því að vera í skóla.

Margrét Harpa Guðsteinsdóttir og Ómar Helgason settust niður með blaðamanni og svöruðu nokkrum laufléttum spurningum.

– En byrjum á byrjuninni, hver er saga bæjarins, hvernig jörð er þetta, hverjir búa þar í dag og hvers konar búskapur er stundaður á bænum?

„Já, þú segir nokkuð,“ segir Ómar. Helgi Jónsson (f. 6. júlí 1943, d. 7. apríl 1993) og Sjöfn Guðmundsdóttir keyptu Lambhaga vorið 1970 og hófu þar búskap með 21 nautgrip og 28 ær við bágborinn húsakost. Helgi og Sjöfn eignuðust 6 börn og búa nú tveir synir þeirra í Lambhaga ásamt fjölskyldum okkar og móður og rekum við í sameiningu Lambhagabúið ehf. Í Lambhaga eru þrjú íbúðarhús og  gripahús fyrir bústofninn,“ segir Ómar.  Í Lambhaga er rekið blandað bú með áherslu á mjólkurframleiðslu og nautakjötsframleiðslu. Bústofn telur nú um 530 nautgripi, þar af 110 mjólkurkýr og 75 holdakýr, 85 ær, 10 hænur, hundana Týru og Perlu og nokkra ketti. Ómar segir að jörðin sé um 450 hektarar, þar af um 280 hektarar ræktað land og er hluti af því nýttur til beitar. „Um 1970 var jörðin nánast öll sandur og ræktað land aðeins um 20 hektarar. Við höfum verið iðin í landgræðslu og er nú nánast öll jörðin uppgrædd. Við höfum einnig ræktað um 60 hektara af sandi frá Landgræðslu ríkisins og nýtum nú sem tún,“ segir Ómar. Ábúendur á jörðinni eru Sjöfn Guðmundsdóttir (mamma strákanna), Ómar Helgason og Margrét Harpa Guðsteinsdóttir. Börn þeirra eru: Kolfinna Sjöfn, Hafdís Laufey, Hrafnkell Frosti og Helgi Tómas. Í hinni fjölskyldunni eru Björgvin Reynir Helgason og Dóra Steinsdóttir. Börn þeirra eru; Ásberg Ævarr, Þorbjörg Helga, Steinn Skúli, Pétur Freyr og Óli Þórir. Bræðurnir Ómar og Björgvin eru fæddir og uppaldir í Lambhaga og eru Rangæingar í húð og hár. Margrét Harpa er úr Flóanum og Dóra úr Reykjavík.

Árni Bragason landgræðslustjóri afhendir hér Sjöfn í Lambhaga Landgræðsluverðlaunin 2020, strákarnir hennar, þeir Ómar og Björgvin Reynir, fylgjast spenntir með.

Mynd / Áskell Þórisson

Hugur bræðranna hefur alltaf verið við búskap

– Hvað kom til að þið ákváðuð á sínum tíma að gerast bændur á Lambhaga?

„Hugur bræðranna hefur alltaf verið við búskap og kom lítið annað til greina hjá þeim annað en að verða bændur. Ég og Dóra fluttum á svæðið með þeim formerkjum að vinna að mestu annars staðar en við búið, en við höfum þó verið ansi uppteknar síðustu ár við að koma nýjum einstaklingum í heiminn og sinna þeim,“ segir Margrét Harpa og hlær.

  Hvernig hefur búskapurinn verið að þróast eftir að þið tókuð við og hvernig er staðan í dag á búskapnum, og hvernig gengur að reka félagsbú, eru margir kostir við það  eða er það flókið?

Ómar er snöggur og svarar hér. „Já, búið hefur stækkað mjög mikið síðustu 20 árin og það sem þótti mikið fyrir nokkrum árum þykir það ekki í dag. Samstarfið gengur mjög vel og erum við  bræðurnir mjög góðir í að lesa hugsanir hvor annars. Svona bú er erfitt að reka nema með aðkomu fleiri en eins er mikilvægt að samkomulagið sé gott. Við höfum alla tíð notast mikið við verktaka fyrir alls konar verk. Það er nauðsynlegt í nútímasamfélagi að geta komist í frí og veislur án þess að þurfa að kalla til afleysingafólk og teljum við það vera helsta kostinn við að búa í félagsbúi. Þegar fleiri en einn kemur að rekstri koma oft góðar hugmyndir og aðferðir til að vinna hlutina og þá vinnast verkin líka betur.“ Margrét Harpa skýtur hér inn í og segir að samkomulagið á hlaðinu sé býsna gott. „ Já, bræðurnir eru með ákveðna verkaskiptingu sem enginn skilur en gengur afskaplega vel upp. Krakkarnir okkar eru dugleg að leika saman og eins er ómetanlegt að hafa ömmu í næsta húsi til að spjalla við um lífið og tilveruna.“

Nýtt og myndarlegt fjós

– Þið eruð nýbúin að byggja stórt og myndarlegt fjós, hvað getið þið sagt mér um þá byggingu og er þetta allt annað líf að vera komin með mjaltaþjóna og þurfa ekki að setja tækin sjálf á kýrnar?

„Fjósið er frá Landstólpa og sáu þeir um uppsetningu á því. Um steypuvinnu sá nágranni okkar, Birkir á Móeiðarhvoli, sem er líka bóndi. Það skiptir máli að fjós sé byggt og hannað af mönnum sem hafa komið og unnið í fjósi. Fjósið er tæpir 1.700 fermetrar, með kanal-kerfi í haughúsi, er með sjálfvirku gjafakerfi og tveimur Merlin-róbótum. Það var byggt á 360 dögum sem er í sjálfu sér ótrúlegt og gekk samstarfið við Landstólpa og Birki mjög vel. Vinnan er öðruvísi í svona tæknifjósi, velferð kúnna er til fyrirmyndar og skilar það sér í auknum afurðum. Við förum enn í fjósið kvölds og morgna en bindingin er ekki eins mikil og áður var, vinnan er öðruvísi. Nú þarf að gefa kálfum, fylgjast með kúnum, þrífa, setja í fóðurkerfið og svo er tölvuvinna orðin ansi stór þáttur í daglegum störfum,“ segir Ómar.

– Þið eruð líka með mikið af holdanautum, hvað getið þið sagt mér um þann búskap?

„Það er þannig að kálfarnir fæðast flestir frá maí til september og ganga undir kúnum fram yfir áramót og eru þá teknir inn. Holdanautin eru yfirleitt róleg og þægileg í umgengni en nýborin holdakýr er yfirleitt varasöm eða stórhættuleg, þær gera allt til að verja kálfana sína. Holdagripir gefa mun meira og betra kjöt en íslenska kynið gerir, það er bara staðreyndir,“ segir Margrét Harpa.

– Íslenska sauðkindin á líka heima í Lambhaga, hvað eruð þið með margar kindur og hvernig gengur sú ræktun?

„Já, við erum með um 85 kindur, aðallega til gamans. Húsakostur er til staðar fyrir þær og reynum við að gera alla vinnu við þær sem auðveldasta, enda er afkoma af þeim frekar lítil og skiptir afskaplega litlu máli í heildarafkomu búsins. Kindastofninn er ágætur en við leggjum mikið upp úr að eiga alla liti, má segja að markmiðið sé að rækta bæði gerð og liti. Það verða nú að vera til lömb í Lambhaga,“ segir Ómar og hlær.

– Það eru margir krakkar á hlaðinu á Lambhaga, eru þau dugleg að taka þátt í búskapnum og hafa áhuga á honum?

Margrét Harpa verður til svars. „Krakkarnir hafa mismikinn áhuga en eru alla jafna áhugasöm um að hjálpa til við störfin. Með aukinni tæknivæðingu fækkar þó störfunum sem lítil börn ráða við. Svo á bara eftir að koma í ljós hvort eitthvert þeirra hafi áhuga á að leggja búskap fyrir sig en við teljum að það velti á því hvernig framtíð íslensks landbúnaðar verður, kannski verður bara allt flutt inn eða of lítið upp úr búskapnum að hafa.“

Ómar staddur í fallegum kornakri í Lambhaga. Mynd / MHH.

Erum bjartsýn að eðlisfari

– Ef við horfum til íslensks landbúnaðar í dag, hvernig líst ykkur á stöðuna og framtíðina?

„Við erum bjartsýn að eðlisfari og sjáum óteljandi tækifæri í íslenskum landbúnaði. Við erum með leyfi til að selja kjöt og teljum vera sóknarfæri í að selja vörur beint frá býli. Okkar kúnnar kunna að meta að vita hvaðan varan kemur, það virðist vera í tísku að versla beint og því fer þessi hluti búrekstrarins ört stækkandi. Við erum að skoða að byggja nautaeldishús en ætlum aðeins að sjá til hvort íslensk stjórnvöld átti sig ekki á mikilvægi íslenskrar landbúnaðarframleiðslu og hætti að hleypa hverju sem er inn í landið, því allt er hægt að fá ódýrara í útlöndum enda verkamannalaun þar lág borið saman við Ísland,“ segir Ómar.

 Einkennileg stefna að leyfa aukinn innflutning á landbúnaðarvörum 

– Hvað segið þið um innflutning á landbúnaðarvörum, hver er afstaða ykkar til þess máls?

Nú setur Ómar í brýrnar og svarar:

„Okkur þykir einkennileg sú stefna stjórnvalda að leyfa aukinn innflutning á landbúnaðarvörum sem hægt er að framleiða hér á landi. Á sama tíma og verið er að hvetja fólk til að ferðast innanlands og settur stórpeningur í að halda í störf þá auka stjórnvöld innflutning á landbúnaðarvörum með því að hafa lága tolla á þeim.“

– Merkingar á matvælum, þið hafið skoðanir á því, hvað viljið þið segja um það?

„Já, upprunamerkingar matvæla í verslunum þurfa að vera meira áberandi og eins þarf að sérmerkja íslenskar vörur sem íslenskar, ekki ganga út frá því að neytendur viti að varan sé íslensk. Eins ætti að vera ríkari skylda að veitingastaðir og mötuneyti greini frá upprunalandi hráefna sem þar eru notuð, því við teljum að langflestir neytendur vilji íslenskar vörur. Það mætti stundum halda að þeir sem selja innflutta landbúnaðarvöru þori ekki að segja hvaðan varan kemur, eru stundum að líkja eftir íslenskum umbúðum og hafa oft texta á íslensku á þeim og mætti halda að það sé stundum verið að villa um fyrir neytendum. Láta þá halda að þeir séu að kaupa íslenska vöru,“ segir Margrét Harpa.

Hin  fjölskyldan á bænum. Björgvin Reynir Helgason og Dóra Steinsdóttir með börnum sínum, þeim Ásbergi Ævari, Þorbjörgu Helgu, Steini Skúla, Pétri Frey og Óla Þóri.

Landgræðsluverðlaunin 2020

– Þið fenguð Landgræðsluverðlaunin 2020, hvernig tilfinning var að fá þessi verðlaun og hvaða þýðingu hafa þau?

„Það var mikill heiður og hvatning að fá þessi verðlaun. Við höfum unnið markvisst að landgræðslu í 50 ár og teljum að landgræðsla og stýrð búfjárbeit geti farið ágætlega saman eins og raun ber vitni í Lambhaga. Við höfum aðallega breytt söndum í tún og nýtt kúamykju og heymoð sem áburð, ásamt tilbúnum áburði,“ segir Ómar.

–Hvernig sjáið þið framtíð landbúnaðar og búsins hjá ykkur næstu 20 til 30 árin?

„Vonandi hjálpast allir að sem standa að íslenskum landbúnaði eins og  stjórnvöld, bændur, afurðastöðvar, verslanir og neytendur, til að gera þessa atvinnugrein enn þá öflugri. Við þurfum að hugsa um fæðuöryggi þjóðarinnar og eins öll þau störf sem skapast af landbúnaði. Við alla vega stefnum að því að halda ótrauð áfram að framleiða góða og hreina matvöru,“ segir Ómar hvergi banginn.

– Þegar þið eruð ekki að hugsa um sveitina og skepnurnar, hvað gerið þið ykkur til ánægju og afþreyingar, fjölskyldan, til að brjóta upp hversdaginn?

„Það er ýmislegt, við höfum t.d. gaman af útiveru og samveru við vini og fjölskyldu. Veiði, leikhús, bíltúrar og þess háttar. Það er þó lítið um löng frí enda má segja að búskapurinn sé að vissu leyti bæði vinna og áhugamál, það er ákveðinn lífsstíll að vera bóndi,“ segir Margrét Harpa og Ómar tekur undir með henni. 

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu
Líf og starf 27. desember 2024

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu

Á seinni hluta nítjándu aldar hófu kvenfélög að stinga upp kolllinum hérlendis, ...

Jólin komu snemma fyrir norðan
Líf og starf 27. desember 2024

Jólin komu snemma fyrir norðan

Það mátti greina spennu og tilhlökkun í augum Þingeyings sem óðamála sagði umsjó...

Sinn er siður í landi hverju
Líf og starf 27. desember 2024

Sinn er siður í landi hverju

Líkt og Íslendingar eiga Grænlendingar og Færeyingar sér sterkar jólahefðir sem ...

Ár umbreytinga og innsæis
Líf og starf 27. desember 2024

Ár umbreytinga og innsæis

Eins og siður er kastaði völva Bændablaðsins beinum sínum og opnaði fyrir flæði ...

Hvað er í jólamatinn og af hverju?
Líf og starf 23. desember 2024

Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Spurning dagsins: Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...