Norðurljós í nóvember
Tími tunglsins og norðurljósanna hefur nú gengið í garð, en óvenjubjart hefur verið yfir þessar vikurnar. Fyrsti vetrardagur var í lok október og með dimmari dögum og lækkandi hitastigi er tunglsljósið bjartara, stjörnur og önnur himinljós skærari.
Þann 15. nóvember klukkan hálftíu að staðartíma birtist okkur á himninum ofurmáni sem indíánar N-Ameríku kalla frostmána og Keltar sorgartungl. Hann er sá fjórði í röð ofurmána nú síðan í ágúst, stór og bjartur vegna nálægðar sinnar við jörðina og u.þ.b. 14% stærri en vanalega. Ofurmáni er nýtt eða fullt tungl sem verður þegar tunglið er í hvað minnstri fjarlægð frá jörðu á braut sinni.
Samkvæmt stjörnuspekinni var þetta síðasta fulla tungl ársins í merki nautsins. Orkan sem það tímabil gaf okkur – og gefur út mánuðinn býður upp á óvænt tækifæri til að tengjast öðrum, auka sjálfstraust og finna jafnvægi innra með okkur. Leita að innstu sýn okkar, draumum og því sem við elskum mest með framtíðarmarkmið í huga.
Ljósin dansa til norðurs og suðurs eftir segulsviðslínum jarðar
Annar birtugjafi vetrartímans eru norðurljósin sem einnig þekkjast undir latnesku heiti þeirra, aurora borealis. Merking orðsins aurora er dögun og kemur frá rómverskri goðafræði, en Aurora eða Áróra er gyðja dögunar. Borealis merkir að norðan og má því segja að dögun norðursins dansi um loftin þegar norðurljósin láta á sér kræla.
Við suðurheimskautið sjást hliðstæð ljós sem nefnast suðurljós, aurora australis, þá ljós dögunar í suðri.
Segulljós er samheiti yfir norður- og suðurljósin, en samkvæmt rannsóknum á segulsviði jarðar hefur komið í ljós að það er samhverft milli norður- og suðurhvelsins. Ljósin eru nátengd segulsviði jarðar, en á vefsíðu Smithsonian er fjallað um hvernig litadýrð norðurljósanna myndast – þegar sólvindar, straumar af rafhlöðnum eindum koma inn í segulsvið jarðar, beinast þær að pólunum, þar sem segulsviðið er sterkast.
Eindirnar rekast á andrúmsloftið ef svo má segja – í um 100 km hæð og við það losnar orka sem birtist sem ljós. Þær eru einungis nokkrar sekúndur að ferðast milli Norður-og Suðurpólsins, og því getur sami hópur hlaðinna einda valdið ljósagangi á norður- og suðurhveli nær samstundis.
Litadýrðin er fegurst í frostinu
Á meðan við þekkjum græna, bláa og hvíta liti norðurljósanna okkar eru suðurljósin oftar bleik, gulgræn eða fjólublá. Smithsonian segir frá því að fegurstu suðurljósin megi m.a. finna í Ástralíu, á Suðurskautslandinu og Suður-Georgíueyjum, sem eru staðsettar í Suður-Atlantshafinu, en þar telur íbúafjöldinn tuttugu manns.
En nú er bara að njóta þess þegar himinninn er heiðskír og hiti við frostmark. Norðurljósin skína þá sem skærast að næturlagi.