Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Líf og starf 28. apríl 2020
Samfélagssjóður Fljótsdals til stuðnings við nýsköpun
Höfundur: smh
Á vegum Fljótsdalshrepps hefur verið stofnað til verkefnasjóðs til stuðnings nýsköpun, menningu og atvinnuskapandi verkefnum í Fljótsdal, undir nafninu Samfélagssjóður Fljótsdals.
Sjóðurinn á rætur í samfélagsverkefninu Fögur framtíð í Fljótsdal, sem stofnað var til með samfélagsþingi síðastliðið vor.
Ferðaþjónsta, sauðfjárrækt og skógrækt
Helstu atvinnugreinar Fljótsdals eru iðnaður er tengist Fljótsdalsstöð, ferðaþjónusta en tugþúsundir ferðamanna og útivistarfólks heimsækja dalinn á hverju ári. Sauðfjárrækt er megingrein landbúnaðar og búin nokkuð mörg þar, en auk kjötframleiðslu eru unnar afurðir úr sauðamjólk. Þá er úrvinnsla úr skógarafurðum vaxandi grein á svæðinu.
Styrkirnir eru opnir fyrir alla einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir sem vilja byggja upp Fljótsdalinn og styðja við þá starfsemi sem þar er. Við fyrstu úthlutun sjóðsins verður allt að 12 milljónum króna veitt í styrki og er umsóknarfrestur til miðnættis 30. apríl 2020.
Verkefni tengdum búskap vænleg
Ásdís Helga Bjarnadóttir er verkefnisstjóri fyrir Samfélagssjóð Fljótsdals.
Það er Ásdís Helga Bjarnadóttir sem heldur utan um starfsemi sjóðsins, en hún starfar sem verkefnastjóri hjá Austurbrú en Fljótsdalshreppur samdi við Austurbrú um stjórn verkefnisins til tveggja ára. „Öll verkefni sem stuðla að jákvæðri samfélagsþróun og eflt geta atvinnu, nýsköpun, velferð og menningu eru vel þegin. Á samfélagsþingi sem haldið var vorið 2019 voru það einmitt verkefni sem tengjast búskap sem skoruðu hvað hæst. Í því samhengi var m.a. talað um betri og fjölbreyttari nýtingu sauðfjárafurða og verið þá að horfa til alls sem fellur til í þeim búskap ásamt mögulega samspili við ferðaþjónustuna. Einnig var tíðrætt um akuryrkjuna til fóðurs, matvæla, fæðubótarefna og til hráefnisframleiðslu hvers konar,“ segir Ásdís Helga þegar hún er spurð um hvort þarna væru tækifæri í akuryrkju eða annars konar landbúnaði.
„Verkefni tengd skóginum komu líka til tals enda svæðið með fyrstu bændaskógræktarsvæðum á landinu samanber Fljótsdalsáætlunina sem hófst fyrir um 50 árum síðan. Fljótsdalurinn er almennt mjög heppilegt svæði fyrir landbúnað og margs konar ræktun enda veðursældin með eindæmum. Á svæðinu liggja því ýmis tækifæri, ekki bara fyrir bændur og ferðaþjónustuaðila heldur einnig ýmsa frumkvöðla sem hafa áhuga á að nýta það fjölbreytta hráefni sem bæði finnst í dalnum sem og má rækta með samstarfi við landeigendur. Svo má líka nefna þann möguleika að ágætis aðstaða er fyrir einstaklinga að sinna fjarvinnslu frá Fljótsdal sem gefur tækifæri á tímabundinni dvöl og þá möguleika á að framkvæma ýmis verkefni, miðla fræðslu eða standa fyrir viðburðum,“ bætir Ásdís Helga við, en margir kunna að þekkja til starfa hennar fyrir Landbúnaðarháskóla Íslands þar sem hún var um árabil.
Austurbrú vinnur að hagsmunamálum Austurlands
„Ég er fædd og uppalin á Hvanneyri, fór þar í gegnum öll skólastigin og starfaði líklega í ein 20 ár við Landbúnaðarháskólann þannig að það var kominn tími til að sjá og upplifa eitthvað nýtt. Ég hafði verið í Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað, sem heitir nú Hallormsstaðaskóli, fyrir allmörgum árum og leið þar vel í skóginum og því horfði ég fyrst og fremst þangað. Til að byrja með fékk ég starf við búfjáreftirlit hjá Matvælastofnun og ferðaðist um allt Austurland, frá Öræfasveit til Vopnafjarðar, frábær tími. Þaðan fór ég til Umhverfisstofnunar í veiði- og verndarteymi og hélt utan um ýmis námskeið fyrir veiðimenn og leiðsögumenn á hreindýraveiðum. Virkilega fróðlegt og skemmtilegt. Svo í haust sá ég auglýsingu um þetta verkefni, Fögur framtíð í Fljótsdal, sem lét mig ekki í friði fyrr en ég sótti um og var svo heppin að fá. Ég er ráðin af Austurbrú sem verkefnastjóri, en Fljótsdalshreppur samdi við Austurbrú um stjórn þessa átaksverkefnis til tveggja ára. Austurbrú er sjálfseignarstofnun sem vinnur að hagsmunamálum Austurlands og veitir þverfaglega þjónustu og ráðgjöf tengda atvinnulífi, menntun og menningu. Austurbrú kemur því að fjölmörgum verkefnum með tengingu við ríkisvaldið, sveitarstjórnarstigið, fyrirtæki, stofnanir, félög og einstaklinga.
Starfsstöðvar Austurbrúar eru víða, það er á Djúpavogi, Reyðarfirði, í Neskaupstað, á Seyðisfirði, Vopnafirði og svo er starfsmaður á Borgarfirði eystri sem leiðir þar verkefnið Betri Borgarfjörður sem er Brothættra byggða-verkefni á vegum Byggðastofnunar. Það verkefni sem ég stjórna er svipað uppbyggt eins og brothættu byggðaverkefnin. Unnið er með hugmyndir íbúanna, reynt að ramma þær inn í raunhæf verkefni og þeim svo fylgt eftir. Nú þegar samhliða er til verkefnasjóður geta einstaklingar, félög og lögaðilar sótt um til að framkvæma verkefnin. Ég sem verkefnastjóri er þá líka til staðar til að veita upplýsingar, tengja aðila saman, veita ráð og aðstoða með öllum tiltækum ráðum með það að markmiði að stuðla að jákvæðari samfélagsþróun og/eða til eflingar atvinnulífs í Fljótsdal. Sem verkefnastjóri vinn ég líka náið með skipaðri samfélagsnefnd og fylgi eftir þeim áherslum og verkefnum sem hún vill leggja upp með hverju sinni. Virkilega fjölbreytt og skemmtilegt starf með ákveðnum áskorunum sem gaman er að takast á við,“ segir Ásdís Helga.