Stúdentar fluttir í Sögu
Félagsstofnun stúdenta og Háskóli Íslands hafa unnið að því að breyta Hótel Sögu í kennslurými og stúdentagarða. Í mars fluttu fyrstu stúdentarnir í nýjar íbúðir og er stefnt að því að koma öllum íbúðunum í útleigu fyrir lok maí.
Menntavísindasvið Háskóla Íslands flytur höfuðstöðvar sínar í Sögu sumarið 2024.
Íbúðirnar voru hannaðar af Félagsstofnun stúdenta (FS) í samstarfi við Andrúm arkitekta, sem hafa yfirumsjón með endurbótum á húsnæðinu að utan sem innan. Innréttingarnar sem voru áður í herbergjunum voru ónýtar og ekki hægt að nýta neitt sem var áður. FS flutti inn nýjar innréttingar smíðaðar í Litáen.
FS mun nýta fjórðung hússins og lýkur sínum framkvæmdum núna í maí. Háskóli Íslands hefur yfirráð yfir því sem eftir stendur og er áætlað að öllum endurbótum verði lokið á næstu tveimur árum.
Íbúðirnar eru ferns konar, allt frá því að vera 20 fermetra stúdíóíbúðir, upp í 43 fermetra íbúðir. Flestar íbúðirnar eru 25 fermetrar. Stúdentar sem sækja um húsnæði hjá FS geta óskað sérstaklega eftir að flytja á Sögu. Jafnframt geta núverandi leigjendur hjá FS óskað eftir milliflutningi þangað.
Áætlað er að kennsla hefjist á haustönn 2024. Mjög fjölbreyttar kennslustofur verða í húsinu sem geta þjálfað tilvonandi kennara í bóklegum fögum og sérhæfðum verklegum greinum. Lágmarksbreytingar verða gerðar á ráðstefnusölum á annarri hæð. Súlnasalur mun að mestu halda sér og mun m.a. nýtast við leiklistar- og tónlistarkennslu. Skrifstofurýmin á þriðju hæð, þar sem höfuðstöðvar Bændasamtaka Íslands voru áður, verða nýtt án breytinga.
Samkvæmt upplýsingum frá Framkvæmda- og tæknisviði HÍ er stefnt að því að hafa Grillið sem fjölnota sal. Endanleg útfærsla er ekki komin á hreint, en vilji er fyrir að halda áfram veitingaþjónustu.
Húsnæðið heitir ekki lengur Bændahöllin og hefur skiltið á hlið
hússins verið fjarlægt.