Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Ineos Grenadier er nýr jeppi af gamla skólanum. Öll hönnun bílsins miðar að því að gera eins gott torfærutæki og kostur er. Hann kemur byggður á grind, með hásingar að framan og aftan, ásamt læstum millikassa og driflæsingum að framan og aftan.
Ineos Grenadier er nýr jeppi af gamla skólanum. Öll hönnun bílsins miðar að því að gera eins gott torfærutæki og kostur er. Hann kemur byggður á grind, með hásingar að framan og aftan, ásamt læstum millikassa og driflæsingum að framan og aftan.
Mynd / Daníel Freyr Árnason
Líf og starf 3. júlí 2023

Takk, Jim Ratcliffe

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Um þessar mundir eru fyrstu eintökin af nýja jeppanum Ineos Grenadier að berast eigendum sínum hér á Íslandi. Hið nýstofnaða bílaumboð Verðir bauð Bændablaðinu að þjösnast á fyrsta bílnum sem fékk íslenskt skráningarnúmer.

Grenadier jepparnir eru hugarfóstur Jim Ratcliffe. Hann er einn ríkasti maður Bretlands, en er þekktur á Íslandi fyrir kaup á jörðum á norðausturhorni landsins og verndarstarf í þágu villta laxins.

Ratcliffe tók því illa þegar Land Rover hætti framleiðslu á uppáhaldsbílnum hans árið 2016 – hinum klassíska Defender. Bauðst hann því til að kaupa verksmiðjuna og halda framleiðslu þeirra jeppa áfram, en Land Rover vildi ekki selja. Ratcliffe hófst því handa við að þróa nýjan bíl sem er einfaldur og sterkbyggður torfærujeppi byggður á grind, sem er á margan hátt í anda gömlu Defender.

Engu var til sparað í þróunarvinnunni og voru valdir sterkir og gamalreyndir íhlutir í drifrás og fjöðrun. Vélarnar koma úr smiðju BMW og er hægt að velja á milli bensín eða dísil. Báðar eru sex strokka með þriggja lítra rúmtaki. Sjálfskiptingin kemur frá ZF, sem er einn þekktasti framleiðandinn á því sviði og skaffar mörgum bílaframleiðendum skiptingar. Þar má nefna BMW, Rolls Royce, Jeep og fleiri.

Flatar hliðar og skörp horn

Ef horft er á Grenadier úr mikilli fjarlægð er auðvelt að rugla honum saman við gamla Defender. Þegar nær er komið sést að hér er eitthvað annað á ferðinni, enda eiga Defender og Grenadier ekkert sameiginlegt. Hægt er að ímynda sér að hönnuðir Grenadier hafi lagt saman Jeep Wrangler, Mercedes Benz G og Land Rover Defender og fengið úr þeim meðaltal sem er útlit þessa bíls.

Fjögur hringlaga ljós á framenda bílsins, þykkur stuðarinn, grill úr svörtu plastefni, nær lóðréttar og flatar hliðar og skörp horn eru afgerandi útlitseinkenni. Ólíklegt má teljast að hann hafi verið prufaður í vindgöngum. Sumir munu eflaust dæma bílinn ófríðan út frá myndum, en þegar hann sést í persónu kemur þetta allt heim og saman.

Þessi bíll er með litnum Magic Mushroom, sem kemur vel út þegar bifreiðin er skoðuð í persónu. Mynd/ÁL

Sterkbyggð innrétting

Fyrst um sinn koma Grenadier jepparnir í þremur meginútfærslum. Fyrst ber að nefna Utility Wagon, sem er strípaður bíll, ýmist með tveimur eða fimm sætum. Síðan eru tvær útgáfur af Station Wagon. Í fyrsta lagi Trialmaster, sem er hugsaður fyrir þá sem vilja hreinræktað torfærutæki með driflæsingum á öllum hjólum, snorkeli, tausætum o.s.frv. Í öðru lagi Fieldmaster, sem býr yfir ögn meiri fágun, með leðursætum, topplúgum o.s.frv. Kaupendum stendur svo til boða að sérsníða bílana eftir eigin þörfum, sem er auðvelt að gera á heimasíðu Ineos Grenadier.

Bíllinn í þessum prufuakstri var í grunninn Fieldmaster, en var pantaður sérstaklega með driflæsingum, snorkeli og grófmynstruðum dekkjum. Þegar sest er upp í bílinn tekur á móti manni kraftaleg innrétting. Gólfin eru klædd með þykku og seigu plastefni, sem er sambærilegt því og er á gólfum dráttarvéla og vinnuvéla. Sérsniðin teppi fylgja með.

Sætin eru með þykku leðri og veita mikinn stuðning. Hægt er að færa framsætin lengst aftur, þannig að hávaxnir geta teygt úr sér. Aftursætin rúma þrjá fullorðna einstaklinga með sóma. Það er allt fullt af stórum tökkum og lítil þörf á að nota margmiðlunarskjáinn, nema til að velja lagalista á Spotify, þegar búið er að tengja símann með Android Auto eða Apple CarPlay, eða til að sjá akstursupplýsingar. Innréttingin var greinilega hönnuð til að láta ökumanninum líða eins og setið sé í flugvél eða háþróuðu iðnaðartæki.

Uppi í loftinu eru hnappar sem snúa að því sem viðkemur torfæruakstri, eins og að kveikja á driflæsingum. Einnig er hægt að velja tvær torfærustillingar. Annars vegar Wading Mode, sem slekkur á kæliviftunni fyrir vélina, aftengir rafmagnið í sætishiturum (svona ef allt fyllist af vatni) og setur á inniloftið. Hins vegar Offroad Mode, sem slekkur á nálægðarskynjurum og vælinu sem minnir mann á að vera í belti. Einnig eru takkar fyrir aukabúnað, en bíllinn kemur úr verksmiðjunni með rafmagnsleiðslur sem auðvelt er að tengja við seinnitíma viðbætur.

Sætin eru þægileg og er innréttingin vel skrúfuð saman. Takkar eru til að stjórna flestum skipunum og minna á stjórntæki í orrustuflugvél. Mynd / ÁL

Hljómar eins og bensínvél

BMW díselvélin skilar 249 hestöflum og berst af henni þýður ómur, sem minnir á hljóðið í sex strokka bensínvél. Vindhljóð er í algjöru lágmarki, en á malarvegum eða grófu slitlagi ber aðeins á veghljóði. Sjálfskiptingin er með átta gírum og veit maður varla af henni. Ökumaðurinn sér alfarið um aksturinn, en það eru engir skynjarar sem væla eða taka í stýrið ef sveigt er af akreininni. Þar sem ökumannshúsið er vel hljóðeinangrað og sætin eru þægileg mun Grenadier sóma sér vel í löngum þjóðvegaakstri.

Venjast þarf stýrinu, en það leitar af minni ákafa í miðjustöðu en í flestum bílum. Skýrist það atriði af því að beygjubúnaðurinn er hannaður til að hámarka getu bifreiðarinnar í utanvegaakstri.

Torfærur

Þegar ekið er út fyrir þjóðvegina finnst mjög hratt hversu öflugur Grenadier er. Veghæðin er svo mikil að hægt er að aka yfir stór grjót og skarpar brúnir án þess að nudda undirvagninn.

Skelli kviðurinn í yfirborðið þarf þó ekki að hafa miklar áhyggjur, því þar eru viðkvæmir hlutir vel varðir og það sem er berskjaldað er úr þykku stáli.

Grenadier er alltaf í fjórhjóladrifi. Á milli sætanna er stöng til að stjórna millikassanum, en með því að færa hana aftur er lága drifið valið. Með því að ýta stönginni til hliðar er millikassanum læst. Það er hægt að vera í lágu drifi með ólæstan millikassa, sem er hentugt við sumar aðstæður. Í fyrsta gír og lága drifinu rétt lullar bifreiðin áfram. Sjálfskiptingin býður upp á þann möguleika að velja nákvæmlega þann gír sem hentar hverju sinni.

Mikill sveigjanleiki er í fjöðrun- inni, sem má þakka heilum hásingum að framan og aftan, ásamt gormum á öllum hjólum. Þegar búið er að læsa millikassa og báðum öxlum er ekkert sem stoppar Grenadier. Í þessum prufuakstri var jeppanum ekið yfir grófar ár með lausu yfirborði, áraura með miklum skorningum og upp snarbrattar brekkur með lausri möl og djúpum holum. Ekkert af þessu reyndist fyrirstaða og var eins og bíllinn kallaði eftir frekari áskorunum. Síðan var brunað á miklum hraða yfir grófa slóða og hvergi tókst að ofbjóða farartækinu.

Upplifunin var á margan hátt sambærileg því og að aka sexhjóli við svipaðar aðstæður.

Vinnutæki

Skottið á Grenadier er næstum alveg ferkantað og nýtist því vel til að stafla miklum farangri. Það er klætt í hólf og gólf með sama þykka plastefninu og er annars staðar í bílnum. Fjölmargar festingar eru til að tjóðra hluti niður. Skotthlerinn er tvískiptur og opnast minni helmingurinn fyrst – sem er rétt mátulega breiður til að hleypa sumargamalli gimbur eða vikugömlum kálfi í gegn. Litlu máli skiptir þó sóðaskapur fylgi farminum, því það er hægt að spúla yfirborðið. Dráttargeta Grenadier er 3.500 kílógrömm og finnur hann lítið fyrir þeirri þyngd í akstri.

Að lokum

Grenadier er fyrst og fremst vel úthugsað torfærutæki, sem vill til að er líka þægilegt á malbikinu. Þeir sem eru að íhuga kaup á stórum jeppa af gamla skólanum ættu að taka þennan bíl í reikninginn.

Verðið á Grenadier er sambærilegt því og gerist hjá samkeppninni. Strípaður fimm manna vinnubíll kostar frá 18.500.000 krónum. Fieldmaster og Trailmaster kosta 20.500.000 krónur án aukahluta en bíllinn í þessum prufuakstri kostar 21.538.000 krónur hjá Vörðum í Grafarvogi (verð með vsk.).

Spurningin er þó – á að vinka þeim sem maður mætir akandi á Land Rover Defender? Ekki gafst tækifæri til að reyna það í þessum prufuakstri.

Skylt efni: prufuakstur

Tólf slaga hönd á Blómaeyjunni
Líf og starf 3. desember 2024

Tólf slaga hönd á Blómaeyjunni

Stefán Jónsson briddsspilari hefur reynst Bridgesambandi Íslands hvalreki með áh...

Augnlitir í sauðfé
Líf og starf 3. desember 2024

Augnlitir í sauðfé

Sjöunda útgáfa Hvammshlíðar­dagatals hefur litið dagsins ljós.

Norðurljós í nóvember
Líf og starf 2. desember 2024

Norðurljós í nóvember

Tími tunglsins og norðurljósanna hefur nú gengið í garð, en óvenjubjart hefur ve...

Vefnaður úr kasmír
Líf og starf 2. desember 2024

Vefnaður úr kasmír

Hlýlegir treflar, sjöl og peysur úr kasmír er eitthvað sem okkur flestum þykir ó...

Kjötbókin 30 ára
Líf og starf 2. desember 2024

Kjötbókin 30 ára

Kjötbókin er 30 ára á þessu ári. Hún kom fyrst út í prentaðri útgáfu árið 1994 o...

Skákþrautir á netinu
Líf og starf 2. desember 2024

Skákþrautir á netinu

Gríðarlegur fjöldi skákþrauta standa skákáhugafólki til boða til að æfa sig á á ...

Sveitabúðin Una
Líf og starf 28. nóvember 2024

Sveitabúðin Una

Hjónin Rebekka Katrínardóttir og Magnús Haraldsson hafa rekið sveitabúðina Unu n...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 25. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn gæti átt von á þrálátum veikindum. Hann ætti að gæta vel að sjálfum ...