Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Skjaldfönn í Skjaldfannardal við Ísafjarðardjúp. Bæjarnafnið hefur löngum verið talið dregið af skjaldarlaga hjarðfönn sem liggur í kvos í brúninni ofan við bæinn.
Skjaldfönn í Skjaldfannardal við Ísafjarðardjúp. Bæjarnafnið hefur löngum verið talið dregið af skjaldarlaga hjarðfönn sem liggur í kvos í brúninni ofan við bæinn.
Mynd / HKr.
Líf og starf 10. september 2021

Undirbýr smalamennsku og framboð til setu á Alþingi þó orðinn sé áttræður

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Indriði Aðalsteinsson, bóndi á Skjaldfönn við Ísafjarðardjúp, var með 150 kindur á fóðrum síðasta vetur. Hann hefur verið þekktur fyrir í gegnum tíðina að skila vænum dilkum í sláturhús á haustin. Hann varð áttræður í sumar en ber sig vel í fámenninu í Skjaldfannardal.

„Ég get ekki tekið undir að það sé erfitt að vera hér einn. Maður þarf þó auðvitað að fá stuðning á ákveðnum álagspunktum, einkum við sauðburð og haustleitir. Síðan fæ ég liðsauka í sambandi við heyskap. Þar á ég feikigóðan frændgarð og vinahóp til að sækja í sem er tilbúinn að stökkva til þegar maður þarf á að halda. Nú er maður að undirbúa smalamennsku. Það verður smalað hjá mér helgina 11. og 12. september. Þar verður sú nýbreytni að smalar sem hingað koma verða allir að vera testaðir.“

Indriði segir að lífið í Skjald­fannar­dal gangi annars sinn vanagang og að fjarskiptamálin hafi líka breyst til hins betra.

Indriði Aðalsteinsson fyrir framan bæjarhúsin á Skjaldfönn.

Kominn með ljósleiðara og fer í framboð

„Það er kominn hér ljósleiðari svo allt slíkt er ekki lakara en annars staðar.“

– Þú getur þá skrifað pistla og sent í New York Times eða aðra stóra miðla úti í heimi?
„Ég er nú ekki kominn svo langt enn þá,“ segir Indriði og hlær, „en ég moka vísum í þá sem hafa gaman af þeim. Svo er ég meira að segja kominn í framboð. Þar var ég beðinn um að setjast í heiðursæti hjá Sósíalistaflokknum. Ég var alveg til í það,“ segir Indriði. Hann er svo sem ekki óvanur pólitísku vafstri frá þeim árum þegar Alþýðubandalagið var og hét.

Þann 22. mars árið 2020 flaug TF-Gró, þyrla Landhelgisgæslunnar, að Skjaldfönn með vistir handa Indriða. Þá hafði han verið innilokaður vegna snjóa og óveðurs síðan í byrjun janúar. Mynd / Landhelgisgæslan

Skjaldfönn stendur sannarlega undir nafni

Þegar blaðamann bar að garði í byrjun ágúst mátti enn sjá vænan snjóskafl í fjallsbrúninni ofan við bæinn. Barátta við snjóþyngsli á vetrum er því ekkert einsdæmi hjá Skjaldfannarbónda. Frægt var þegar allt var komið á kaf í snjó og allar leiðir til og frá bænum ófærar svo að TF-Gró, þyrla Landhelgisgæslunnar, var send að Skjaldfönn með vistir handa Indriða 22. mars 2020. Þyrlu­sveit Landhelgisgæslunnar hafði þá verið að sinna verkefnum í samvinnu við lögreglu og Veðurstofu Íslands. Var hún þá fengin til að fara á Ísafjörð að undirlagi vina Indriða og sótti þar vistir sem lögreglan hafði komið fyrir í pappakössum og ætlaðar voru innlyksa bóndanum á Skjaldfönn. Var hann þá búinn að vera innilokaður á Skjaldfönn vegna snjóa og óveðurs síðan í byrjun janúar. Það má því segja að bæjarnafnið skjaldfönn standi alveg fyrir sínu.

Indriði segir að einu ummerkin eftir síðasta vetur sé skaflinn í fjallsbrúninni, en hann hverfi stundum alveg á haustin, þó það gerist ekki alltaf. Enn má t.d. greina þar snjó sem er frá vetrinum 2020.

– Hvað með heilsuna, ert þú sæmi­lega hraustur enn?
„Auðvitað er maður farinn að reskjast, en ég hef verið sæmilega hraustur. Maður er þó farinn að leggja sig um miðjan daginn til að hvíla bakið. Þannig lá ég út af þegar þú hringdir áðan og boðaðir komu þína, en það var líka tími til kominn að vakna og takast á við næsta heyskaparáfanga.“

Ákvað að spara sér bæði áburðar- og kjarnfóðurkaup

Indriði á svo sem næg tún sem dugað hafa fyrir mun stærri bústofn. Hann hefur reynt að draga saman útgjaldaliði til að mæta fækkun í bústofni. Þannig sleppti hann kaupum á tilbúnum áburði og nýtir eingöngu skít undan sauðfénu til áburðar. Segir hann það hafa gefist vel þó auðvitað spretti ekki eins kröftuglega og ef hann notaði tilbúinn áburð.

„Það þarf þó ekki að taka það fram að það er auðvitað ekki sama flatarmál sem ég er að heyja í dag og áður. Veðráttan í sumar hefur verið yndisleg þrátt fyrir kalt vor og aldrei of þurrt. Ég hef ekki borið á eitt korn af áburði, en heyin eru samt ágæt.

Ef þú horfir hér yfir túnin, sum nýslegin og önnur ekki, þá sérðu að það er ekkert lífsspursmál að moka tilbúnum áburði á tún. Samt eru þessi tún beitt af lambánum alveg fram undir Jónsmessu. Síðan eru þau nöguð öll haust, alveg niður í rót. Samt spjara þau sig svona vel. Á þessi tún ber ég bara kindaskít og engan tilbúinn áburð og hef ekki gert í áratug.

Það voru skorin niður útgjöldin vegna áburðarkaupa þegar verð á áburði hækkaði sem mest fyrir áratug síðan. Þá hafði áburðurinn verið að kosta mig fast að milljón og varð síðan enn dýrari. Slíkt tínir maður ekkert upp úr götunni. Þá varð maður bara að láta á það reyna og það hefur lukkast bærilega. Ég hef heldur ekki gefið korn eða annan fóðurbæti og skar niður þessa tvo þungu útgjaldaliði til að lifa þetta af fjárhagslega.

Hugsanlega eru eitthvað minni afurðir, enda var það allt í lagi. Maður var lengi vel með eitt afurðahæsta bú landsins og því engin ástæða til að sperra sig og gera mikla atlögu að því að hanga áfram í þeim sætum. Sú viðleitni myndi líka hafa í för með sér veruleg fóðurbætiskaup. Menn þurfa jú að sníða sér stakk eftir vexti og ég hef verið að reyna það.“

Kal í túnum bætt með kindaskít

Indriði segir að í fyrravor hafi verið talsvert kal í túnum í Skjaldfannardal. Þrátt fyrir það voru þau tún ekki tekin til endurræktunar líkt og tíðkast hefur, en eru samt í góðu standi í dag.

„Í fyrra var það metið hér af ráðunaut sem hingað kom til að skoða kalskemmdir í fyrravor að það væru um tveir þriðju af túnunum meira og minna stórskemmd eða alónýt. Þú sérð ekki miklar skellur eða meinbugi á túnum hér núna.

Ég vil meina að góð veðrátta í vor og sumar ásamt fræi í kindaskítnum hafi gjörsamlega lokað öllum kalskellum. Þú sérð hvergi nokkurs staðar bera á slíku í dag.“

– Þú hefur þá ekkert þurft eða viljað fara í endurrækt á túnunum?

„Biddu fyrir þér. Hér er jarðvegur mjög grunnur ofan á mölinni og að ætla sér að umbylta honum og ausa mölinni upp væri skelfilegt dæmi. Mér datt því ekki í hug að reyna slíkt. Ég er búinn að hreinsa svo mikið grjót úr túnum á minni ævi að ég ætla ekki að fara að auka við það. Nei, hreint alls ekki,“ segir Indriði og kveður fast að. – „Ég þarf þess heldur ekki.“
Indriði segir það í raun stórmerkilegt hvað tekist hafi að græða alvarlegar kalskemmdir á aðeins einu ári og það bara með því að moka á túnin kindaskít.
„Það kom mér sjálfum reyndar mjög á óvart hversu vel þetta heppnaðist.“

Náttúran fer ekki alltaf mjúkum höndum um tún Skjaldfannarbónda

Náttúran í Skjaldfannardal hefur svo sem ekki farið blíðum höndum um tún bænda í gegnum tíðina. Þekktar eru af fréttum tíðindi af svellalögum fram á vor, jafnframt því sem Selá og aðrar ár í dalnum hafa átt það til að flæmast yfir tún þegar klakastíflur hafa myndast í þeim á vorin og í stórrigningum og leysingum á jöklinum á haustin.

„Áin getur verið snarvitlaus stundum og á það til að flæmast hér um allt, sérstaklega í rigningum á haustin. Einn ágætur sérfræðingur hjá Landgræðslunni, sem kom hér fyrir fjórum árum og hefur verið að ráðleggja mönnum varðandi fyrirhleðslur og annað, var með ágætt svar við þessu. Þegar hann leit hér yfir leirinn sem lá yfir túnum sagði hann: – „Þú verður að horfa á björtu hliðarnar, Indriði. Það er áburður í þessum leir.“

Það er alveg rétt hjá honum, leirinn hefur reynst vera ágætur áburður fyrir gróðurinn svo fremi að leirlagið sé ekki svo þykkt að það kæfi grasið sem undir er.“
Indriði segir að stórvextir í ánni eigi sér yfirleitt stað síðsumars.

„Þegar það leggst á eitt hvassviðri, hlýindi og mikil rigning, þá ést svo upp yfirborðið á jöklinum. Ef það eru líka miklar fannir til fjallsins þá getur þetta gerst mjög snöggt og vatnið flæðir hér niður. Sambúðin við Selána hefur því oft verið til vandræða.“

Friðun á ref byggð á miklum misskilningi

Annar fjandi sem Indriði er lítt hrifinn af er refurinn. Hann segir að friðun á refnum á Hornströndum geti hvorki flokkast undir náttúruvernd né dýravernd og byggi á miklum misskilningi um eðli lífríkisins. Afleiðing þessarar friðunar sjáist nú glöggt víða um land, þar sem refurinn hefur hreinsað vel til í varplöndum fugla. Víða í sveitum sé svo komið að það heyrist vart lengur kvak í fugli. Varla sé hægt að segja að það felist mikil náttúruvernd í slíkri útrýmingu fugla.

Rjúpan nær sér ekki á strik

„Meðan svona er nær rjúpnastofninn sér ekki á strik. Svo fær minkurinn líka að vera óáreittur og hann drepur svo lengi sem hann hefur eitthvað að drepa og ekki bara vegna flæðuöflunar,“ segir Indriði Aðalsteinsson.

Indriði Aðalasteinsson bóndi á Skjaldfönn hefur komið fyrir upplýsingaskilti um staðinn við heimreiðina að bænum til upplýsinga fyrir ferðamenn. Allt of lítið er um að slíkt sé gert við sveitabæi landsins og mættu fleiri gjarnan fara að dæmi Indriða og taka upp þennan sið.

– Góðir ferðalangar –

Hér við vegarenda stendur bærinn Skjaldfönn, fyrrum í Nauteyrar­hreppi, í Stranda­byggð. Jörðin á land fram til Drangajökuls sem liggur fyrr botn Skjaldfannardals. Nafnið Skjaldfönn hefur löngum verið talið dregið af skjaldarlaga hjarðfönn sem liggur í kvos í brúninni skammt ofan við bæinn. Þessi fönn er áberandi og einkennandi fyrir staðinn. Hana tók sjaldan að fullu upp á sumrum fram undir 1950, en oftar og oftar eftir það. Jörðin er harðviðrasöm og snjóþung, vetrarbeit óviss og fjárgæsla vor og haust var afar erfið fyrir tíma hagagirðinga. Sumur geta aftur á móti orðið hlý.

Snjóflóðahætta er beggja megin bæjarhúsa. Féll hér seinast stórt snjóflóð árið 1953, spillti túni og grandaði fé og peningshúsum. Jörðin er óvenju rík örnefnum og eru skráð á henni yfir 400 örnefni.

Á Skjaldfönn hefur sama ættin búið mann fram af manni síðan 1826. Kúabúskap var hætt á jörðinni um 1980, ekki síst vegna þess hve erfitt var að koma mjólkinni á markað yfir vetrartímann, meðan allir slíkir flutningar urðu að fara fram með Djúpbátnum. Síðan hefur eingöngu verið búið hér með sauðfé. Vegna kynbóta og góðra sumarhaga hafa dilkar um árabil verið með þeim allra vænstu á landinu og líflömb héðan verið eftirsótt um allt land.

Selá, sem rennur með túninu, er jökulá og ein vatnsmesta á á Vestfjörðum. Selá getur orðið afar illvíg og brýtur land til skaða í vatnavöxtum.

Um Skjaldfannardal lá leið norður á Strandir fyrrum og voru meðal annars farnar svokallaðar viðarferðir frá Ströndum yfir Drangajökul og vestur að Djúpi. Rekaviður var þá dreginn snemma sumars á hestum frá Dröngum, þvert yfir jökul og niður í Skjaldfannardal. Síðasta viðarferðin var farin vorið 1915.

Góða ferð og takk fyrir komuna.

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...