Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Líf og starf 26. nóvember 2018
Var henni gefið nafnið Flugfreyja
Höfundur: Hörður Kristjánsson
Sá óvenjulegi heimsatburður átti sér stað í flugskýli flugfélagsins Ernis sunnudaginn 11. nóvember, að þar var tekið á móti norðlenskri forystukind sem kom fljúgandi frá Húsavík og henni gefið nafn með viðhöfn.
Eigandi kindarinnar, Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, var þar mættur ásamt fríðu föruneyti til að taka á móti kindinni.
„Þetta er gert forystukindinni til heiðurs. Hún er með mannsvit í veðrum, leiðir hjörðina og bóndann heim,“ segir Guðni.
Hópur manna kemur árlega saman á kótilettukvöldi í Þingborg í Flóa til að safna fé til styrktar útgáfu Flóamannabókar. Þar eru kálfar og ýmsir aðrir vinningar í verðlaun í happdrætti og síðustu þrjú árin hefur einnig verið meðal vinninga forystugimbur frá Skúla Ragnarssyni, bónda á Ytra-Álandi í Þistilfirði. Sá sem hreppti gimbrina í haust gat ekki tekið við henni og gerðu þeir Guðni þá kaup með sér og Guðni eignaðist kindina. Gimbrin er þrílembingur undan Slyddu á Ytra-Álandi og Strump frá Gunnarsstöðum, svört með hvítar hosur.
Guðni hringdi í Aðalstein Baldursson, verkalýðsforingja á Húsavík, og bað hann um að sækja fyrir sig svörtu gimbrina og koma henni suður. Gimbrina geymdi Aðalsteinn í bílskúrnum heima hjá sér og sendi síðan með áætlunarvél Ernis til Reykjavíkur á sunnudag.
Tekið var við henni með viðhöfn á Reykjavíkurflugvelli. Hörður Guðmundsson, eigandi flugfélagsins, hellti yfir hana sunnlensku rigningarvatni úr glasi og gaf henni nafnið Flugfreyja.
Jónína Guðmundsdóttir, eiginkona Harðar og meðeigandi í flugfélaginu Erni, gaf Guðna Ágústsyni fyrsta bitann af tertunni góðu. Næstur í röðinni var Jóhannes Kristjánsson eftirherma og Guðni hinn mesti.
Guðni segir að Geir Gíslason, bóndi á Stóru-Reykjum í Flóa, muni fóstra gimbrina fyrir sig. Vænti Guðni þess að Flugfreyja muni fara fyrir kindahjörð hans, en hún verður þó ekki eina forystukindin í þeirri hjörð. „Forystukindin er sérstakt fjárkyn, einstakt á heimsvísu. Þyrfti að rannsaka það frekar, meðal annars hvaðan kynið er komið,“ segir Guðni.
Við athöfnina var boðið upp á veglega tertu með nafni Flugfreyju undir mynd af henni sjálfri. Þá lýsti Ólafur R. Dýrmundsson stuttlega þessu einstaka fjárkyni.
Árið 2015 var forystufé tekið um borð í Bragðörkina (Ark of Taste) hjá Stofnun Slow Food um líffræðilegan fjölbreytileika. Komst forystukindin þar inn ásamt sauðkindinni og landnámshænunni.
Í Bragðörkinni er safnað saman gæðamatvælum sem eru talin búa yfir menningarlegu verðmæti og í útrýmingarhættu; til að mynda búfjárkynjum, ávaxta- og grænmetistegundum, ostum, verkuðu kjöt- og fiskmeti og kornafurðum. Um 2.700 skráningar eru nú yfir matvæli í Bragðörkinni og eiga Íslendingar 13 þeirra.