Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Ríkharð Lúðvíksson skipstjóri á veiðum á Magnúsi Jóni ÓF út af Ólafsfirði.
Ríkharð Lúðvíksson skipstjóri á veiðum á Magnúsi Jóni ÓF út af Ólafsfirði.
Líf og starf 23. júní 2020

Vill grásleppuveiðar í kvóta

Höfundur: Vilmundur Hansen

Vertíðin var heilt yfir góð að sögn grásleppusjómanns sem gerir út frá Ólafsfirði, að minnsta kosti fyrir þá sem komust á sjó áður en veiðarmar voru stöðvaðar. Hann segist hlynntur því að setja grásleppuveiðar í kvóta enda séu ólympískar veiðar í ákveðið marga daga tímaskekkja.

„Ég lagði fyrstu netin 12. mars, eða tveimur dögum eftir að vertíðin hófst,“ segir Ríkharð Lúðvíksson smábátasjómaður, eins og viðeigandi þykir að kalla grásleppukarla í dag. Ríkharð gerir út tvo báta, Magnús Jón ÓF, sem er handfæra- og grásleppubátur, og línu- og handfærabát sem heitir Kópur ÓF. Að sögn Ríkharðs gerir hann bátana ekki út báða í einu heldur klárar leyfið á Magnúsi Jóni áður en hann fer á veiðar á Kóp ÓF.

Fengum svakalegan skell

„Grásleppuvertíðin í ár var brösug framan af. Ég lagði fyrstu netin og svo lagði annar bátur daginn eftir. Ég vitjaði um strax eftir fyrstu nóttina og fékk ágæta veiði sem er eðlilegt eftir að lagt er á ósært svæði. Með tímanum minnkar veiðin eftir því sem fleiri leggja og svæðið þornar smám saman upp. Við fengum á okkur svakalegan hvell og hafrót um það bil viku eftir að við lögðum og töluvert af netum skemmdust og bara teinarnir sem komu upp eða þá að trossurnar voru fullar af grjóti.“

Ríkharð segir að vegna aðstæðna á grásleppuslóð við Ólafsfjörð sé fjöldi neta í trossu misjafn. „Kraginn sem grásleppan heldur sig á út að dýpinu er svo stuttur eða þröngur og menn nokkuð samstiga með það hér að vera með mest fimm net í trossu og niður í tvö.

Skrýtin vertíð

„Heilt yfir gekk vertíðin vel því á seinni hluta hennar var hreint mok, tíðin betri og tíðin er það sem skiptir mestu máli hvað grásleppuveiðar varðar. Veiðin er mjög misjöfn á milli ára og ég hef ekki enn áttað mig á því hvað veldur. Í ár var til dæmis mjög góð veiði fyrir austan og norðan land en minni fyrir sunnan.“

Skylda er að koma afla í land

Ríkharð nýtir sér slægingarþjónustu í landi í stað þess að skera grásleppuna um borð. „Við sem löndum í Ólafsfirði seljum flestir Brim aflann og því miður var verðið í ár fremur slakt, eða 220 krónur fyrir kílóið af grásleppu. Í raun er verðið bara byrjunarverð og ekki endanlegt því enn eru margir óvissuþættir vegna sölu afurðanna og líklegt að við fáum uppbót þegar lokaverðið er ljóst.

Að vísu var vertíðin í ár mjög skrýtin að öllu leyti. Í fyrsta lagi vegna COVID, sem veldur því að við vitum ekki enn hvort Kínverjar ætla að kaupa búkinn. Það stoppaðist bara allt og söluhorfurnar enn óvissar. Annað sem hamlar sölu er að við misstum MCS vottunina og erum ekki búnir að fá hana aftur og land eins og til dæmis Frakkland kaupir ekki hrogn nema að þau séu vottuð.“

Má veiða í 44 daga

Grásleppuveiðar gengu vel við Grænland í ár og segir Ríkharð að þeir hafi hreinlega verið stoppaðir af vegna mikillar veiði umfram ráðgjöf og það sem teljast sjálfbærar veiðar.

„Veiðar á grásleppu er það sem við köllum ólympískar veiðar og mega þeir sem hafa leyfi til veiðanna veiða eins mikið og þeir geta á þeim 44 dögum sem leyfið nær til. Ég nýtti alla dagana á bátnum sem ég byrjaði á en viku á seinni bátnum áður en veiðarnar voru stöðvaðar og fékk um 42 tonn í heildina.

Ríkharð segir að sjávarútvegsráðherra hafi í raun ekki getað annað í stöðunni en að stöðva veiðarnar í vor með tilliti til ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar varðandi grásleppuveiðar.

Umdeilanleg ráðgjöf Hafró

„Veiðarnar stefndu í að verða langt umfram ráðgjöf Hafró sem er ekki gott en svo er ráðgjöfin út af fyrir sig allt annað mál og umdeilanleg og margir sammála um að sé bull og byggi á röngum forsendum. Það eru flestir á því að ráðgjöfin byggi einfaldlega ekki á nógu góðum vísindum. Stofnstærð grásleppu er byggð á togararalli sem gefur engan veginn nógu góða mynd af magni hennar í hafinu.

Ég hef verið viðloðandi grá­sleppu­veiðar síðan 1985 þegar ég fór til sjós á grásleppu með Júlíusi Magnússyni, aflaskipstjóra á Freymundi ÓF, og reynsla mín er sú að engin vertíð sé eins og nánast ómögulegt að segja til um hegðun hennar milli ára. Afli í fyrra var til dæmis mjög lítill en í vor blossaði aftur á móti upp mikið magn af grásleppu hér um slóðir á þess að nokkur geti útskýrt hvers vegna.“

Vill grásleppu í kvóta

Ríkharð segir að í dag sé hann fylgjandi hugmyndinni um að setja grásleppuveiðar í kvóta og að helsta ástæða þess sé að framkvæmd veiðanna í dag sé í óviðeigandi ástandi. „Þetta sýndi sig greinilega í vor þegar veiðarnar voru stoppaðar og sumir náðu ekki einum degi á sjó á meðan þeir sem gátu byrjað fyrr veiddu vel. Að mínu mati eru reglurnar í dag tímaskekkja og alveg hægt að setja reglur sem koma í veg fyrir að grásleppukvótinn safnist á fáar hendur og til verði einhverjir fáir grásleppukvótakóngar.

Jólin komu snemma fyrir norðan
Líf og starf 27. desember 2024

Jólin komu snemma fyrir norðan

Það mátti greina spennu og tilhlökkun í augum Þingeyings sem óðamála sagði umsjó...

Sinn er siður í landi hverju
Líf og starf 27. desember 2024

Sinn er siður í landi hverju

Líkt og Íslendingar eiga Grænlendingar og Færeyingar sér sterkar jólahefðir sem ...

Ár umbreytinga og innsæis
Líf og starf 27. desember 2024

Ár umbreytinga og innsæis

Eins og siður er kastaði völva Bændablaðsins beinum sínum og opnaði fyrir flæði ...

Hvað er í jólamatinn og af hverju?
Líf og starf 23. desember 2024

Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Spurning dagsins: Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...