„Mikilvægt að vínin endurspegli náttúruna á svæðinu“
Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir
Höskuldur Ari Hauksson og kona hans, Sara Hauksson, búa ásamt sonum sínum tveimur, Elíasi og Bjarka Jóni, í Hünenberg See í kantónunni Zug í miðhluta Sviss þar sem þau rækta vínvið til vínframleiðslu og leggja aðaláherslu á Pinot Noir-þrúguna.
Á rúmlega fimm hektara svæði fá þau í kringum 40 tonn af þrúgum til að vinna úr árlega og hefur framleiðslan vaxið jafnt og þétt á þeim sex árum sem þau hafa verið í framleiðslu.
„Ég fór út til framhaldsnáms í stærðfræði í Kaliforníu 1994 og hef lítið búið á Íslandi síðan. Eftir námið hóf ég störf í fjármálageiranum og vann þar í tæplega 20 ár. Fyrsta starfið mitt var í Zürich þar sem ég kynntist konunni minni en leiðin lá svo fljótlega til London þar sem við bjuggum í sjö ár. Eftir London tók við stutt stopp á Íslandi áður en við fórum aftur til Sviss. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á víni og byrjaði árið 2013 að framleiða vín heima í þvottahúsinu hérna í Sviss.“
Jarðvegur eins og í Búrgund-héraði
Eftir að Höskuldur fór að þróa sig áfram með víngerðina fyrir sex árum komst hann fljótt á bragðið og hefur áhugamálið nú orðið að atvinnu fyrir hann og fjölskylduna.
„Í upphafi keypti ég um eitt tonn af Pinot Noir þrúgum á ári. Þetta áhugamál varð svo einhvern veginn alltaf stærra en 2015 tók ég við fyrstu ekrunni minni í Gordemo í Ticino í ítölskumælandi hluta Sviss. Í byrjun árs 2017 voru svo ákveðnar breytingar hjá mér í starfi og í framhaldi af því ákvað ég að fara út í vínrækt í fullu starfi. Ég tók við fyrsta býlinu mínu í Remigen í Aargau í Norðurhluta Sviss vorið 2017 og svo við öðru býlinu skammt frá í Döttingen síðastliðið vor,“ útskýrir Höskuldur og segir jafnframt:
„Við erum núna með fimm og hálfan hektara af vínviði sem gefur af sér 30 til 40 tonn af þrúgum ár hvert. Ég erfði frá forverum mínum mjög margar mismunandi tegundir af vínviði. Síðastliðið sumar unnum við að því að einfalda þetta mikið og fækkuðum frá 16 niður í 10 tegundir en aðaláherslan er á Pinot Noir. Við erum með sama jarðveg og Búrgund-héraðið í Frakklandi og því hentar þessi þrúga ákaflega vel fyrir okkar svæði.“
Einfaldar aðferðir
Það er að ýmsu að huga í framleiðslunni og þó að mesta yfirlegan og umhyggjan fyrir ræktunarsvæðunum sé á vorin, sumrin og fram á haustið er þetta vinna allt árið, að sögn Höskuldar.
„Á veturna þurfum við að klippa vínviðinn og gera við víravirkið sem vínviðurinn vex á, auk þess að huga að tækjum og tólum. Veturinn nota ég gjarnan líka til þess að fylla á og til að vera í sambandi við viðskiptavinina okkar. Náttúran fer svo aftur í gang í apríl og yfir sumarið þurfum við að sjá til þess að vínviðurinn vaxi upp eftir víravirkinu, að berin fái nóg sólarljós, að verja vínviðinn gegn sýkingum og slá grasið,“ segir Höskuldur og bætir við:
„Í lok september fer svo uppskeran í gang og vinnan í kjallaranum í kjölfar þess. Þegar vínin eru búin að gerjast þá pressum við skinnin frá víninu og fyllum það svo á eikartunnurnar. Skinnin eru síðan notuð til þess að búa til kompóst samkvæmt lífefldum aðferðarfræðum og hann svo borinn út á ekrurnar. Við reynum að nota eins einfaldar aðferðir og við getum við víngerðina. Við nýtum villta gerilinn sem er til staðar á ekrunum okkar til þess að gerja vínin. Eins reynum við að láta allt grugg falla náttúrulega út úr vínunum til þess að komast hjá því að sía þau. Aðalatriðið er að þau fái ró og næði til þess að þroskast og að þau endurspegli náttúruna á staðnum þar sem þau uxu.“
Mjúk og þægileg vín í sölu
Þau hjónin selja vínin sín í Sviss og á Íslandi en hægt er að nálgast þau í Heiðrúnu á Höfðanum í Reykjavík og í gegnum vínklúbb sem þau hjón halda úti.
„Vínklúbburinn gefur okkur tækifæri á að selja til einstaklinga beint af býli og þar hafa klúbbfélagar aðgang að öllum þeim vínum sem við framleiðum. Þar fyrir utan seljum við vínið okkar líka í Danmörku og Þýskalandi og núna nýverið komum við því inn í flotta vínverslun í nágrenni Bordeaux í Frakklandi,“ segir Höskuldur og þegar talið berst að vinnunni við að selja vöruna er hann fljótur til svars:
„Markaðssetningin gengur ágætlega og við fáum yfirleitt góðar viðtökur. Það er hins vegar erfitt hvað vínin okkar eru enn þá ung. Til dæmis þurfa góð Pinot Noir-vín oft nokkur ár til þess að verða mjúk og þægileg en við þurfum að selja þau núna til að koma veltunni í gang. Hérna erlendis þekkja neytendur það vel að þeir þurfa oft að liggja á vínunum í einhver ár áður en þeir neyta þeirra en það er minna um þessa vitund heima á Íslandi.“
Nútímalegur víngerðarstíll
Höskuldur lítur björtum augum á framtíðina og eru þau hjónin hvergi bangin að þróa sig áfram með framleiðsluna sem á hug þeirra allan.
„Við erum að breyta yfir í lífeflda ræktun þar sem áherslan er á að gera ekrurnar okkar að heilnæmu vistkerfi með heilbrigðum jarðvegsbakteríum og laust við öll eiturefni. Við vonumst eftir jákvæðum áhrifum á gæði vörunnar með þessum breytingum,“ útskýrir Höskuldur og segir jafnframt:
„Framleiðsluaðferðirnar í kjallaranum eru líka að þróast. Við förum eins varlega með þrúgurnar og við getum og notum eins fá bætiefni og mögulegt er. Þar fyrir utan gerjum við núna öll hvítvínin okkar á skinninu til þess að fá meira bragð, kröftugri lit og betri gæði. Þetta er nútímalegur, mínímalískur víngerðarstíll og markaðurinn fyrir slík vín er í örum vexti.“