„Þetta var bölvaður bastarður “
Sigurður Lyngberg Magnússon verktaki gerði út jarðýtur, valtara og aðrar vinnuvélar á byggingarsvæðum í Reykjavík á síðustu öld.
Ein af þeim vélum var ýta af gerðinni Caterpillar 6B, árgerð 1963, sem var breytt til að draga valtara. Sonur hans og nafni, Sigurður Lyngberg Sigurðsson verktaki, vann á þessari vél á sínum tíma og man vel eftir því þegar hún skipti um hlutverk.
Þessi Caterpillar hóf sinn feril eins og hver önnur jarðýta. Hún var til að mynda notuð til að ýta jarðvegi út í Grafarvoginn þegar Gullinbrú var reist. Sigurður Lyngberg hinn eldri, sem rak fyrirtækið Jarðvinnuvélar sf., lagði ýtunni um miðjan áttunda áratuginn, en vantaði skömmu síðar tæki til að draga víbravaltara. Þá brá hann á það ráð að fjarlægja beltin og koma hjólbörðum undir þetta tæki, sem hafði lokið sínu hlutverki sem jarðýta, og þar með breyta henni í hálfgerða dráttarvél. Þegar beltin voru fjarlægð sauð Sigurður eldri sprokket hjólin inn á felgur. Að framan kom hann fyrir hjólaöxli með beygjubúnaði. Aftast var sett mjög öflugt spil og fremst var sett lítil tönn – aðallega til að þyngja framhlutann.
Stýri tengt kúplingu
Sigurður kom fyrir stýri í vélinni, en þeir sem setið hafa í jarðýtu vita að í þeim er ekkert slíkt að finna. Beinskiptar jarðýtur, eins og þessi, eru þess eðlis að nauðsynlegt er að kúpla frá og hemla öðru beltinu þegar tekin er beygja. „Hann leysti það með því að að setja vír. Þegar þú snýrð stýrinu þá vindurðu upp á vírinn og togar í kúplinguna. Þegar maður keyrir hana þarf maður að snúa stýrinu og stíga á bremsuna til að beygja,“ segir Sigurður yngri.
Sigurður segir pabba sinn alltaf hafa reddað sér með að smíða eða breyta tækjum ef þess þurfti. Því voru sumar vinnuvélarnar ekki endilega bestu tækin í þau verk sem þær voru notaðar. „Við vorum með margar leiðinlegar vélar, en þessi var alveg sérstaklega leiðinleg.“ „Pabbi smíðaði allt saman sjálfur. Hann fór aldrei út í búð og keypti eitthvað. Hann var alinn upp á þeim tíma þar sem það voru ekki til varahlutir í eitt eða neitt. Menn urðu bara að búa það til eða laga einhvern veginn,“ segir Sigurður.
Valtaði fjölmarga húsgrunna
Aðspurður í hvaða verkefni vélin var nýtt, segir Sigurður að á þessum tíma hafi fyrirtæki föður hans valtað mjög mikið í húsgrunnum, við götuframkvæmdir og við göngustíga – sérstaklega í Breiðholtinu, Árbæ, Grafarvoginum og vestur í bæ þegar þau hverfi voru að byggjast upp. Á þessum árum voru sjálfkeyrandi valtarar ekki algengir og var því nóg að gera fyrir þessa vél.
Sigurður eldri keypti af Söludeild varnarliðseigna nokkrar vélar sem notaðar höfðu verið til að draga flugvélar uppi á velli og hentuðu miklu betur til að draga valtara.
Vegna þess hversu erfið Caterpillar vélin var í notkun, var henni lagt eftir örfá ár í nýju hlutverki. „Það forðuðust allir að vera á henni,“ segir Sigurður yngri.
Var á leiðinni í brotajárn
„Síðan stóð hún lengi vel á svæðinu uppi á Stórhöfða þar sem pabbi var með aðstöðu.
Bróðir minn er með þessa aðstöðu í dag og hann var að taka til þarna fljótlega eftir hrun og ákvað að fara með þessa ásamt fleiri vélum í brotajárn,“ segir Sigurður. Hann vildi hins vegar bjarga ýtunni frá glötun og ók henni úr portinu við Hringrás yfir á planið hjá Kletti, sem fer með umboðið fyrir Caterpillar, og tilkynnti eigandanum að hann fengi að eiga jarðýtuna.
Þar stóð jarðýtan í nokkur ár, en núna hefur henni verið komið fyrir á Hvanneyri á planinu hjá Hauki Júlíussyni. Haukur segist ekki vera eigandi ýtunnar, heldur sé hún einungis í geymslu hjá honum.