Ódýr og hollur matur vinnur til verðlauna
Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir
Sænskur frumkvöðull sem kynnir heilsusamlegan, sjálfbæran og ódýran mat vann nýverið til verðlauna upp á rúma milljón íslenskra króna á ráðstefnu eatforum-samtakanna. Bloggarinn og sigurvegarinn Hanna Olvenmark heldur úti síðunni Portionen Under Tian þar sem hún leggur fram uppskriftir sem kosta undir tíu krónum sænskum á mann eða rétt rúmlega 100 krónur íslenskar.
Hanna er 29 ára gamall næringarfræðingur sem langaði að deila ráðum og veita fólki innblástur að heilsusamlegum mat sem kostar lítið. Því gerði hún heimasíðuna þar sem hún deilir með fólki sjálfbærum og góðum máltíðum. Nú fara þúsundir netverja inn á síðuna daglega og með myllumerkinu #staycheap langar henni að ögra þeim misskilningi að fólk þurfi að fara inn á dýra veitingastaði til að verða sér úti um góðan og hollan mat. Ástríða Hönnu er að koma inn heilsusamlegri lífsstíl hjá fólki um allan heim og sýna því að það geti bæði bragðast vel og að allir hafi tækifæri til þess að njóta, óháð efnahag. Vegna vinsælda síðunnar langar Hönnu nú að ná til enn fleiri og stefnir á markaði utan Svíþjóðar ásamt því að þróa fræðslumyndbönd inni á síðunni. Hanna hefur deilt þremur góðum ráðum til notenda síðunnar til að eyða minna og borða betur:
- Borðið meira úr plönturíkinu, belgjurtir eru ódýrar og heilsusamlegar.
- Skipuleggið matarinnkaupin, það mun spara þér tíma og peninga.
- Taktu með þér nesti.
Uppskrift af undertian.com
Kostnaður um 400 kr. íslenskar. Kostnaður fyrir hvern skammt um 100 kr. íslenskar.
Maís- og kókossúpa fyrir fjóra
Hráefni:
1 pakki frystur maís (450 g)
1 rauð paprika
1 chilialdin
1 gulur laukur
2 hvítlauksrif
2 tsk. broddkúmen
1 grænmetisteningur
5 dl vatn
2 dl kókosmjólk
5 dl soðnar svartar baunir, um 350 g
Olía til steikingar
Aðferð:
Deilið chili-aldinum í tvennt, takið fræin úr og skerið smátt ásamt lauk og hvítlauk. Takið fræin innan úr paprikunni og skerið í smáa bita. Hitið olíu í potti og setjið broddkúmen út í, bætið chili-aldinum, lauk, hvítlauk og papriku út í ásamt frosnum maísnum. Látið steikjast í 5 mínútur, bætið því næst vatninu við og grænmetisteningnum, látið malla í 15 mínútur. Setjið síðan í blandara og maukið vel saman. Hellið síðan blöndunni aftur í pottinn og bætið kókosmjólk út í ásamt svörtu baununum.