Á fimmta þúsund fjár stefnt í Melarétt
Réttað var í Fljótsdal um miðjan september, í Melarétt.
Þrátt fyrir spá um leiðindaveður víða um land slapp til með göngur og réttir en kalsaveður, þokur og dumbungur settu þó sitt mark á smalamennskuna.
Um eða yfir 4.000 fjár er smalað til Melaréttar og það reiknað í um 140 dagsverkum. Samkvæmt gangnaseðli eru það fjárbýlin Arnheiðarstaðir, Bessastaðagerði, Brekka, Brekkugerði, Egilsstaðir, Eyrarland, Fremri-Víðivellir, Glúmsstaðir 2, Hrafnkelsstaðir, Langhús, Melar og Valþjófsstaður II sem draga fé sitt í dilka í Melarétt. Það svæði sem smalað er tekur m.a. til Rana, undir Fell, Múla, Gilsárdals, Villingadals, Flatarheiðar, Kiðafells og Útheiðar. Jafnan er fyrsta ganga farin í Fell, svo í Rana, síðan á Hraun og Kiðafell, þá Múla og síðast Útheiði.
Fé af Jökuldal, 100–200 kindur, og eitthvað svipað eða nokkru minna úr Fellum, slæmist gjarnan saman við Fljótsdalsféð og jafnvel líka fé utan úr Hróarstungu.
Þegar flest fé var í Fljótsdal var um 9.000 vetrarfóðrað en er nú um 4.500 talsins.
Líklega má segja að Melarétt sé helsta réttin sem eftir er á Austurlandi en vissulega eru þær fleiri, hingað og þangað um fjórðunginn.