Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Á þjóðgarður ekki að sameina frekar en sundra?
Fréttir 28. febrúar 2020

Á þjóðgarður ekki að sameina frekar en sundra?

Höfundur: Jón Björn Hákonarson
Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að ræða um Miðhálendisþjóðgarð nú en meðan ekki fæst skynsamleg niðurstaða í því máli þá finnst mér rétt að vekja athygli á nokkrum atriðum varðandi það. 
 
Undanfarin misseri hafa verið haldnir fjöldi funda á vegum umhverfisráðuneytisins til að kynna málið fyrir heimafólki víðs vegar um landið. Ekki er að heyra að þessir fundir hafi snúið þeirri gagnrýni sem komið hefur fram á málið frá lunga þess fólks sem þá hefur sótt og verr er að það virðist vera lítill áhugi fundarboðenda á að hlusta á athugasemdir heimamanna á þeim svæðum sem snúa að hugsanlegum þjóðgarðshugmyndum. Hefur þetta gert það að verkum að frekar hefur vaxið tortryggni og vantraust á efndir og loforð þeirra sem boða þessar þjóðgarðshugmyndir og er það eitt og sér nægjanlegt til að kominn sé tími á endurmat málsins. 
 
Eitt er að stofna þjóðgarð og annað að þjónusta svæði hans og huga að uppbyggingu. Því miður kennir sagan okkur það að ríkisvaldið hefur, í gegnum tíðina, ekki staðið sig sem skyldi á þeim stöðum sem búið er að friðlýsa, jafnvel fyrir áratugum síðan. Mörgum þeim svæðum hefur ekki verið sinnt sem skyldi og eru mörg þeirra mjög illa á sig komin vegna ágangs ferðamanna og ónógrar landvörslu. Þó svo ríkar kröfur hafi komið frá íbúum landsins um slíkt og ekki hefur fengist  fjármagn í nauðsynlegar framkvæmdir eða viðhald á þeim. En á sama tíma á að fara að friðlýsa enn meira án þess að gert hafi verið fyllilega grein fyrir því hvernig skuli fjármagna slíkt og á meðan sitja hin fjölmörgu friðlýstu svæði sem utan þjóðgarðs eru enn eftir. 
 
Höldum í hestana
 
Það er mín skoðun að skynsamlegra sé nú fyrir stjórnvöld að doka aðeins við með þessar ráðagerðir sínar. Enda er þetta fley á leið upp á sker og ljóst að hægja þarf á. Skoða fyrst hina ýmsu vankanta sem á málinu eru. Því ekki verður þjóðarsátt um þjóðgarð ef skella á skollaeyrum við gagnrýni. Þau mál sem brýnast er að skoða betur í þessu samhengi eru skipulagsvald sveitarfélaga, sem þarf að tryggja að verði óskert algerlega hjá þeim. Fjármögnun verði að fullu tryggð í Miðhálendisþjóðgarð sem og önnur friðlýst svæði á landinu. 
 
Sennilega er best að byrja á því að tryggja fjármagn í verkefni utan garðsins svo þau verði ekki hornreka áfram. Tryggja þarf með óyggjandi hætti áframhaldandi beitarrétt bænda án þess að í löggjöfinni séu holur sem eru til þess fallnar að hægt verði að loka ákveðnum svæðum með klækjum. Tryggja verður orkuöflun fyrir komandi áratugi og að hægt verði að leggja nauðsynlegar línur inni á hálendinu. Síðast en ekki síst er æskilegast að sveitarfélög verði sjálfráð um það hvort og hvenær þau þá koma inn með sitt land í þjóðgarðinn. Og veigamest er náttúrlega það að stærstur hluti sveitarfélaga er málið varðar og land eiga að áðurnefndum Miðhálendisþjóðgarði eru áformunum andsnúinn eins og þau eru sett fram í dag. Það eitt og sér er nóg að mínu mati til að stoppa nú við og meta málin upp á nýtt í samráði við þau og íbúa þeirra.
 
Offors og æsingur
 
Einnig, eins og ég hef áður vikið að í grein um málið, má segja að einu sinni enn sé verið að byrja á röngum enda í jafn stóru máli og hér er á ferðinni. Við þurfum að byrja á því að tryggja innviði fyrir íbúa landsins áður en haldið verður lengra. Gerum áætlun um hvernig skal tryggja raforkuöryggi með uppbyggingu flutningskerfis raforku um land allt ásamt fjarskiptatengingum. Hvar við ætlum að virkja til framtíðar til að tryggja okkur endurnýjanlega orkugjafa vegna orkuskipta. Tökum þetta samtal við sveitarfélögin, hvernig þessum málum er best háttað fyrir landið okkar. Þegar þetta liggur fyrir, þá skulum við svo taka til við þjóðgarðamál aftur og byggja hann í kringum þessa framtíðarsýn. Getum við ekki öll verið sammála um það? 
 
Jón Björn Hákonarson,
ritari Framsóknarflokksins