Afföll í hamp- og kannabisrækt
Eldar, skordýr, sveppasýking og kuldi er meðal þess sem hamp- og kannabisræktendur í Bandaríkjum Norður-Ameríku hafa mátt glíma við á þessu ári. Áföll í ræktuninni hafa orðið þess valdandi að víða hefur uppskeran eyðilagst áður en hún komst í hús.
Í Kaliforníu og Oregon-ríki hafa stórir akrar af kannabis orðið eldi að bráð og valdið miklu fjárhagstjóni fyrir bændur í ríkjunum. Einn talsmaður bænda sem rækta kannabis og iðnaðarhamp sagði í viðtali að hampur væri eins og hver önnur ræktunarplantna og að ræktun hans fylgdu sömu vandamál
Ekki er nóg með að eldurinn brenni akrana heldur skemmir aska einnig afurðirnar og reykurinn af eldunum hefur áhrif á bragðgæði kannabisins.
Bændur í Oregon og Montana-ríkjum hafa einnig átt í baráttu við plágu af engisprettum sem herjar á akra þeirra og er talið að hamp- og kannabisuppskera í ríkjunum tveimur muni dragast saman um 25% af völdum plágunnar.
Í Colorado snúast vandræði bændanna um snemmkomin haustfrost og jafnvel snjókomu. Ekki er þar með öll sagan sögð því í Louisiana-ríki lagðist sveppasýking á blöð og rætur plantnanna og drap allt milli 20 til 50% þeirra og í Arkansas ollu rigningar og flóð talsverðum skaða á hamp- og kannabisökrum.