Áhugafólk um iðnaðarhamp streymir heim að bænum
Ábúendurnir á bænum Gautavík í Berufirði, þau Pálmi Einarsson, Oddný Anna Björnsdóttir og drengirnir þeirra þrír, 15, 13 og 7 ára, hafa ákveðið að opna býlið fyrir ferðamönnum í sumar. Formleg opnun verður 1. júlí og er planið að hafa opið frá kl. 11-16 alla daga vikunnar fram að skólabyrjun. Hópar geta komið utan þess tíma ef samið er um það fyrirfram.
„Frá því við byrjuðum að rækta iðnaðarhamp sumarið 2019, ári eftir að við fluttum, hefur fjöldi fólks streymt til okkar vegna áhuga á því sem við erum að gera. Við ákváðum því að búa til ákveðinn ramma utan um það sem við höfum upp á að bjóða, hafa fleira í boði en áður og gera þetta svona meira formlegt,“ segir Oddný.
Fræðslusetur um iðnaðarhamp og samrækt
Hún segir að þeir sem sæki Gautavík heim í sumar fái færi á að skoða fræðslusetur um iðnaðarhamp og samrækt (e: aquaponics) sem þau vilji með tímanum einnig gera að hampsafni. Í sama rými er inniræktun á hampi, jarðarberjum og silungi í 900 lítra heimagerðu fiskabúri. „Þar er svokölluð samrækt á ferðinni, þar sem skíturinn frá fiskunum nærir plönturnar. Silungunum er svo slátrað til matar þegar þeir hafa náð sláturstærð,“ segir Oddný. Fyrir framan fræðslusetrið er akur með iðnaðarhampi, en á því svæði er einnig ræktaður hampur í kúluhúsum, kartöflur með sérstakri aðferð, ásamt rófum, gulrótum og fleiru í gömlum görðum úr fjárhúsunum.
Dýrin á bænum
Þeir sem hafa áhuga á dýrum geta heilsað upp á dýrin á bænum, en spökustu kindunum og lömbum þeirra var haldið eftir þegar hinar fóru á fjall á afgirtu svæði við hlið útihúsanna. Á því svæði eru einnig hestar, en ekki til útreiða. Á bænum eru einnig grísir, landnámshænur og gæsir sem vappa um svæðið. Þá eru silungar í fiskabúri inni í fræðslusetrinu sem áður sagði. Tveir hundar eru á bænum, annar er afar vinalegur fjárhundur, Týra, sem röltir sallaróleg í kringum dýrin og þá gesti sem sækja Gautavík heim. Hinn er smáhundur, Lilla Krútt, „sem er sætust í heimi; voffar að ókunnugum en bráðnar um leið og hún er tekin upp,“ segir Oddný.
Golf, íþróttasvæði, á og fjara
Áhugafólk um golf getur spilað á heimatilbúnum 7-holu par 3 golfvelli en verða að koma sjálf með golfsett. Inni í hlöðunni hafa þau útbúið íþróttasvæði sem gott er að hafa til taks, sérstaklega á veturna þegar algert myrkur ríkir allt að 18 tíma á sólarhring. Þar má meðal annars spila fótbolta, körfubolta, borðtennis, fara í pílukast og berja í boxbúða. Úti er eitt stórt fótboltamark, hefðbundnar rólur og trampólín. Inni í skógarrjóðrinu er eldstæði, ungbarna- og trjáróla, en þar getur fólk verið í skjóli og fengið sér snarl.
„Á túninu verðum við svo með sumarleikföng, en þar má einnig breiða úr teppi og fá sér gott í gogginn þegar vel viðrar, segir Oddný. „Framhjá bænum rennur falleg á sem börnum er velkomið að leika sér við og í þegar ekki er of mikið í henni, en rétt er að taka fram að börn eru alfarið á ábyrgð forráðamanna þar sem annars staðar á svæðinu.“
Þá geta gestir einnig rölt niður að fjörunni og víkinni sem bærinn dregur nafn sitt af, en þar er fjölbreytt fuglalíf, litríkir steinar, skeljar og sjávargróður. Þeir sem stunda sjósund geta lagst til sunds í víkinni, en þar eru einnig brattir klettar sem strákunum í Gautavík finnst gaman að stökkva af ofan í sjóinn. Þegar ber eru tekin að vaxa á svæðinu er fólki velkomið að tína upp í sig, en eru ekki hugsuð fyrir berjatínslu til að taka með.
Forn verslunarstaður
Gautavík er forn verslunarstaður með fornminjum, en um staðinn má lesa m.a. á vef Þjóðminjasafns Íslands og Wikipedia. Gestum er velkomið að ganga um staðinn eftir merktum gönguleiðum og njóta umhverfisins sem er ægifagurt. Hinn 700 metra hái Búlandstindur, sem margir trúa að sé orkustöð og gnæfir yfir eins og fullkominn píramídi, lætur engan ósnortinn.
Verslun og verkstæði – íslenskt handverk
Pálmi, sem er iðnhönnuður að mennt, hannar og framleiðir gjafavörur, minjagripi og módel- leikföng undir vörumerkinu Geislar Gautavík í skemmu við hlið íbúðarhússins, en vörur Geisla eru seldar í verslunum hringinn í kringum landið. Þær eru einnig seldar í versluninni á bænum sem komið var upp í skemmunni. Í sumar verður einnig boðið upp á heita og kalda drykki, ís- og frostpinna ásamt snarli í lokuðum umbúðum, m.a. frá smáframleiðendum matvæla, en Oddný gegnir meðal annars starfi framkvæmdastjóra Samtaka smáframleiðenda matvæla. Eins verður boðið upp á takmarkað magn af afurðum af bænum.
Sævar Kári heilsar upp á kindurnar, sem var haldið eftir heima, þær Betu, Slæðu, Flekku og Láru og lömbin þeirra.
Samrækt (aquaponics). Innst í fræðslusetrinu er innræktun á hampi, jarðarberjum og silungi.
Frjálst að njóta alls sem í boði er
Aðgangseyrir verður 1.500 kr. fyrir fullorðna og 750 kr. fyrir börn á aldrinum 6–17 ára. Ókeypis verður fyrir börn yngri en 6 ára. Leiðsögn ábúenda er innifalin og boðið er upp á afslátt fyrir hópa.
„Hugmyndin er að stilla þessu þannig upp að fólk mæti á heila tímanum, þ.e. kl. 11, 12, 13, 14 eða 15 og að leiðsögn um ræktunarsvæðin, fræðslusetrið og að dýrunum hefjist korter yfir og standi í um það bil hálftíma. Eftir það verður fólki frjálst að njóta alls annars sem í boði er fram að lokun kl. 16,“ segir Oddný að lokum.
Hjónin halda úti Facebook-hópi fyrir þá sem hafa áhuga á að fylgjast með lífi og starfi á bænum, en hann heitir Geislar Gautavík – opið býli – hampur, húsdýr, handverk/snarl, golf o.fl.
Hjónin og frumkvöðlarnir í Gautavík, Oddný Anna Björnsdóttir og Pálmi Einarsson.