Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Ólafur Arnalds, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Ólafur Arnalds, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Fréttir 1. júlí 2019

Alvarlegir hnökrar og margt farið úrskeiðis

Höfundur: Vilmundur Hansen

Í nýju riti Ólafs Arnalds, prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands, er fjallað um landnýtingarþátt gæðastýringar í sauðfjárrækt. Ólafur tekur skýrt fram í upphafi að hér sé um 3% landbúnaðar á Íslandi til umræðu, eða 15% sauðfjárframleiðslunnar, vandinn á alls ekki við alla framleiðendur.

Í ritinu kemur fram að fjármunum til sauðfjárbænda er beint i´ gegnum sérstakt greiðslukerfi þar sem hluti styrkjanna er ha´ður þvi´ að framleiðslan standist a´kveðnar gæðakro¨fur. „Meðal þeirra eru kro¨fur er varða umhverfisa´hrif sauðfjárbeitar; að framleiðslan standist viðmið fyrir sja´lfbærni og a´stand landsins sem er beitt.“

Breytingar sem gerðar hafa verið á gæðastýringunni síðustu 10 ár minnka kröfur er varðar landnýtingu og taka ekki tillit til þekkingar á vistkerfum landsins að mati Ólafs Arnalds.

Ólafur bendir á að gæðastýringin sé liður í samningum sauðfjárbænda við þjóðina um stuðning við atvinnugreinina. „Framkvæmdin varðar verulega fjármuni af almannafé en heildarstuðningur nemur 6 til 7 milljörðum á ári, eða 60 til 70 milljörðum á 10 árum,“ en tekur fram að erfitt sé að fá heildarmynd af þessum stuðningi. Ólafur leggur áherslu á að afar mikilvægt sé að þetta fjármagn styðji ekki við ósjálfbæra nýtingu lands.

Í ritinu rekur Ólafur að tilraun hafi verið gerð til að móta sameiginlega sýn margra hagaðila með gerð viljayfirlýsingar árið 2000 við upphaf verkefnisins, með aðkomu Landgræðslunnar, samtaka bænda, ráðuneytis og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. „Nánari skoðun á þróun laga og reglugerðarumhverfis sýnir hins vegar að horfið hefur verið frá upprunalegri hugsun um framkvæmdina. Síðari tíma breytingar hafa ekki verið gerðar í samráði við þessa aðila og hafi auk þess gengið gegn faglegu áliti Landgræðslunnar.

Breytingar sem gerðar hafa verið á gæðastýringunni síðustu 10 ár minnka kröfur er varðar landnýtingu og taka ekki tillit til þekkingar á vistkerfum landsins. Þá stenst það ekki skoðun að markaðssetja afurðir sem framleiddar eru á verstu svæðunum sem „græna framleiðslu“. Reglur og viðmið um sjálfbæra landnýtingu eiga að hafa að leiðarljósi að náttúran eigi að njóta vafans, sbr. lög 60/2013 um náttúruvernd.“

Ólafur færir rök fyrir því að reglur hafi ítrekað verið færðar í öfuga átt; að náttúran fái einmitt alls ekki að njóta vafans. Framkvæmdin sé því í raun „grænþvottur“ á hluta framleiðslunnar sem líta má sem alvarlegt brot gagnvart neytendum og almenningi sem styrkir framleiðsluna og er eigandi meginhluta þess lands sem um ræðir.

Að mati Ólafs er slíkur „grænþvottur“ afar neikvæður fyrir aðra framleiðendur sem nýta góð beitilönd; framkvæmd gæðastýringarinnar gjaldfellir framleiðsluna í heild, enda þótt vandamál vegna beitarnýtingar varði lítinn hluta framleiðslunnar og afréttarlandsins.

Sjálfbær landnýting misnotað hugtak

Í riti Ólafs segir: „Hugtakið „sjálfbær landnýting“ er misnotað við framkvæmd gæðastýringar í sauðfjárrækt. Nýting á verst förnu afréttum landsins, þar sem landbótaáætlana er krafist, stenst engin þeirra viðmiða sem sett hafa verið fram um sjálfbæra landnýtingu af hálfu FAO. Þá vantar aðkomu almenningsins, félagasamtaka, vísindasamfélags, skóla, sveitarfélaga og samfélagsins í heild til þess að nýtingin samræmist hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.“ 

Ólafur nefnir enn fremur að framkvæmdin standist líklega ekki nokkur ákvæði náttúruverndarlaga. Í samtali við Bændablaðið sagði Ólafur jafnframt að ætla má að farið sé á svig við lög sem heyra undir umhverfisráðuneytið.

Ósamræmi í lagaumhverfi

Í ritinu rekur Ólafur Arnalds samskipti Landgræðslunnar við ráðuneyti landbúnaðarmála, önnur stjórnvöld og samtök bænda. Hann segir að Landgræðslan hafi mótmælt með afgerandi hætti viðmiðum og framkvæmd gæðastýringarinnar, sem þó hafi engu breytt um framkvæmdina. Þar segir: „Mótmæli Landgræðslunnar um framkvæmd landnýtingarþáttar gæðastýringarinnar eru afar eftirtektarverð og lýsa ósamræmi í lagaumhverfi og stjórnsýslu við framkvæmd laga er varða beitarnýtingu á Íslandi. Það verður að teljast mjög alvarleg staða í stjórnsýslu að ekki skuli tekið mark á fagstofnun þjóðarinnar við framkvæmd stuðnings ríkisins við framleiðslu á formi grænna greiðslna og um leið er það áfellisdómur um framkvæmdina.“ 

Hugtakið sjálfbær landnýting er misnotað við framkvæmd gæðastýringar í sauðfjárrækt að sögn Ólafs Arnalds. 

Ólafur segir að þessi aðferðafræði minni helst á vísindastefnu Ráðstjórnarríkjanna sálugu og Trumpisma nútímans, þegar Landgræðslan er síðan þvinguð til þess að votta landnýtingu samkvæmt reglugerð sem er sett af landbúnaðarráðuneytinu enda þótt reglugerðin standist á engan hátt fagleg sjónarmið stofnunarinnar. 

Skortur á þekkingu

Ólafur segir í ritinu: „Mikið skortir á að nútímaleg þekking á sviði beitarvistfræði sé nýtt við framkvæmd gæðastýringarinnar. Það er fullkomlega óásættanlegt að nota eina viðmiðunartölu fyrir æskilegt beitarálag um svæði við mismunandi umhverfisaðstæður, hæð yfir sjávarmál, gróðurfar, ástand gróðurs og næringarforða jarðvegs, eins og hér er gert. Viðmiðunartalan er auk þess allt of há og er notuð til að réttlæta afar þunga beit – klárlega ofbeit á mörgum svæðum – sem er ekki í neinu samræmi við hugmyndafræði um „grænar greiðslur“. Viðmið um beitarþunga er afar nýtingarmiðað, í stað þess að verndun þeirra náttúruauðlinda sem beitin byggir á sé höfð að leiðarljósi. Ljóst er að endurskoða verður leiðbeiningar um beitarálag og beitarþunga í tengslum við gæðastýringuna. Mun heppilegra er að miða við „beitargnótt“, sem miðar við væga beit, sem og aðferðafræðina sem sett var fram af „Nefnd um endurskoðun landgræðslulaga“ árið 2012.“

Ýmislegt farið úrskeiðis

Ólafur fékk aðgang að nálega 40 landbótaáætlunum fyrir afréttarlönd. Í ritinu segir hann: „Nánari skoðun á landbótaáætlunum sem í gildi eru sýnir að ýmislegt hefur farið úrskeiðis við framkvæmdina. Flestir afréttanna falla algjörlega að þeim viðmiðum sem sett hafa verið um nýtingu samkvæmt reglugerðum, þrátt fyrir að viðmiðin séu allt of rúm. Sé landbótaáætlun til staðar, þá stenst landið skoðun og fær vottun, jafnvel þótt ástandið sé svo slæmt að það teljist langt utan viðmiða um ófyrirséða framtíð – niðurstaða sem var harðlega mótmælt af Landgræðslunni. Upplýsingaöflun um náttúrufar og fleira sem vottunin byggir á er ófullnægjandi. Landbótaáætlanirnar leiða oft í ljós takmarkaðan skilning landnotenda á eðli hruninna vistkerfa og auðnasvæða, sem og á tímaskölum er varða bata lands og framvindu gróðurs“.

Í samtali við Bændablaðið spyr Ólafur hvernig það megi eiginlega vera að landnýting sem skítfellur á helstu viðmiðum og þar sem ljóst er að viðmiðum verður ekki náð á næstu áratugum og jafnvel árhundraði fái vottun um sjálfbæra landnýtingu og grænar greiðslur frá almenningi? Slíkt sé vitaskuld fullkomlega fráleitt frá sjónarmiðum um sjálfbæra landnýtingu og í raun brot á neytendum og almenningi.  

Ekki er talin þörf á landbótaáætlunum fyrir
marga afrétti

Í riti Ólafs kemur fram að ekki er talin þörf á landbótaáætlunum fyrir marga afrétti landsins, en þó orkar ástand margra þeirra verulega tvímælis er varðar ástand lands og stærð beitilands miðað við bústofn. Í ritinu er vakin athygli á að meginhluti þess lands sem hér er til umræðu er í almannaeigu og upplýsingar um náttúrufar og nýtingu þessara afréttarsvæða eiga að vera aðgengilegar öllum. Að mikilvægt sé að upplýsingar um öll helstu beitarsvæði og framkvæmd gæðastýringarinnar séu aðgengilegar, svo að samfélagið geti veitt framkvæmdinni eðlilegt aðhald. Slíkt opnar jafnframt á þátttökumiðaðar (e. participatory) ákvarðanir um aðgerðir og nýtingu. Ólafur segir að nýting afréttarsvæða eigi vitaskuld ekki að vera bundin við beitarnýtingu, heldur ætti endurheimt landkosta að vega mjög þungt.

Ólafur segir að þar sé friðun svæða sem eru í slæmu ástandi mikilvæg aðgerð til að ná fram settum markmiðum. „Í flestum sveitarfélögum er til staðar mikil þekking á landgræðslu sem ætti að styðja við endurheimt landgæða á verst förnu afréttunum. Slíkar aðgerðir binda gríðarlega mikið kolefni í vistkerfum, sem er mikilvægt mótvægi við losun gróðurhúsalofttegunda frá annarri starfsemi, meðal annars landbúnaði á Íslandi.“

Rit Ólafs, „Á röngunni. Alvarlegir hnökrar á framkvæmd landnýtingarþáttar gæðastýringar í sauðfjárrækt“, má finna á vef LbhÍ og moldin.net (undir ástand).

Jólakveðja
Fréttir 24. desember 2024

Jólakveðja

Ritstjórn Bændablaðsins óskar lesendum um land allt gleðilegra jóla og farsældar...

Lækkað áburðarverð
Fréttir 23. desember 2024

Lækkað áburðarverð

Fyrsta áburðarverðskráin hefur verið gefin út fyrir næsta ár.

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum
Fréttir 23. desember 2024

Bleikjuharðfiskur úr heimilisbakarofninum

Auðvelt er að gera sinn eigin „harðfisk“ heima í eldhúsi úr flökum smáfisks. Flö...

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum
Fréttir 20. desember 2024

Illa gekk að selja gærur á erlendum mörkuðum

Sala Sláturfélags Suðurlands (SS) á gærum sem féllu til í haust hefur gengið ill...

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta
Fréttir 20. desember 2024

Heildverslanir og fyrirtæki í landbúnaði handhafar tollkvóta

Innnes, Aðföng, Mata, LL42 og Háihólmi eru helstu handhafar tollkvóta á landbúna...

Vænlegt lífgas- og áburðarver
Fréttir 20. desember 2024

Vænlegt lífgas- og áburðarver

Í uppfærðri viðskiptaáætlun Orkídeu fyrir lífgas- og áburðarver í uppsveitum Árn...

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts
Fréttir 19. desember 2024

Fólki stafar ekki hætta af neyslu fuglakjöts

Engin ný tilfelli af fuglainflúensu hafa greinst í alifuglum frá því að sýking m...

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum
Fréttir 19. desember 2024

Breytileikinn T137 fannst á Grímsstöðum

Á Grímsstöðum 4 í Mývatnssveit hafa nýlega fundist tveir gripir með arfgerðarbre...