Árna afhent tóbakshorn
Höfundur: Sigurgeir Hreinsson
Árni Snæbjörnsson lét af störfum, vegna aldurs, sem framkvæmdastjóri Bjargráðasjóðs 1. apríl sl. en hann hefur verið þar í forsvari frá ársbyrjun 2010. Hann mun áfram sinna framkvæmdastjórn Landssamtaka veiðifélaga.
Árni lauk prófi úr búvísindadeild Bændaskólans á Hvanneyri 1970 og hóf störf við skólann það haust. Eftir að hann lauk meistaraprófi í jarðvegsfræði og vatnsmiðlun, frá Edinborgarháskóla 1977, kenndi Árni við búvísindadeildina á Hvanneyri til 1985, þegar hann var ráðinn sem jarðræktar- og hlunnindaráðunautur hjá BÍ. Hjá Bændasamtökunum hefur hann sinnt fjölmörgum verkefnum á síðustu 30 árum.
Á síðasta fundi stjórnar sjóðsins voru honum þökkuð einkar góð samskipti og farsæl handleiðsla allar götur. Fékk Árni tóbakshorn sem viðurkenningarvott fyrir starf sitt, sem Guðmundur Ísfeld handverksbóndi gerði.