Árstíðamunur í kalkúnarækt
Undanfarin ár hefur kalkúnaframleiðslan hjá Reykjabúinu verið í hægum og stígandi vexti, segir Jón Magnús Jónsson framkvæmdastjóri.
Mesta neyslan á kalkúnakjöti sé frá þakkargjörðarhátíðinni fram að áramótum, ásamt örlitlum sölutoppi um páskana. Drjúg neysla sé þó yfir allt árið á smásölumarkaði og þá fari mikið inn á veitingahúsa- og mötuneytamarkaðinn.
Reykjabúið í Mosfellsbæ er eina kalkúnabúið á landinu. Aðspurður um áskoranir sem fylgi því segir Jón Magnús að þau þurfi að passa upp á að eiga alltaf nóg, sem þeim hafi tekist alllengi.
Þetta sé ekki stór markaður, sem skýri að hluta til af hverju þau séu síðasti kalkúnaræktandinn. Þá hafi verið ákveðin þrjóska að halda þessu úti og að vera ein eftir hafi ekki verið þeirra val.
Hann segir greinilegt að neytendur sækist eftir þeirra vörum og séu meðvitaðir um að velja innlenda framleiðslu í smásölu. „Hins vegar er þetta alltaf erfitt þar sem þú sérð ekki vörumerkið. Ef þú ferð á veitingastaði eða í veislu þá veistu ekki hvaðan þetta er nema að rannsaka það á staðnum,“ segir Jón Magnús.