Hundrað hesta setningarathöfn
Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.
Að þessu sinni tóku um hundrað hross og knapar þátt í hópreið með Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra í broddi fylkingar. Hestamennirnir komu frá 46 hestamannafélögum, mörg langt að og var fagnað af mannfjölda í áhorfendabrekku Víðidals. Mikill fjöldi barna og fáka þeirra tók þátt í viðburðinum.
Landsmót hestamanna var nú haldið í tuttugasta og fimmta sinn en þetta er í fjórða skipti sem það fer fram í höfuðborginni. Það var fyrst haldið á Þingvöllum 1950.
Um 800 hross komu fram á mótinu í keppni, kynbótadómi og ræktunarbússýningum og hópreiðinni. Veðrið lék við keppendur og áhorfendur yfir helgina og var það mál manna að hátíðin hafi verið afar vel heppnuð að þessu sinni.