Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Þegar kaupin ganga í gegn eru fimm sláturhús á Norðurlandi undir KS. Þau eru á Hvammstanga, Blönduósi, Sauðárkróki, Akureyri og Húsavík. Eitt sláturhús er svo staðsett á Hellu.
Þegar kaupin ganga í gegn eru fimm sláturhús á Norðurlandi undir KS. Þau eru á Hvammstanga, Blönduósi, Sauðárkróki, Akureyri og Húsavík. Eitt sláturhús er svo staðsett á Hellu.
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir og Sigurður Már Harðarson

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er samkvæmt tilkynningu að auka hagkvæmni, lækka kostnað við slátrun og úrvinnslu kjötafurða, bændum og neytendum til hagsbóta.

Það er í samræmi við markmið breytinganna á búvörulögum, sem gerðar voru í vor, þegar kjötafurðastöðvum var veitt undanþága frá samkeppnislögum til að hafa með sér samráð, vinna saman og til að sameinast.

Svínabændur stærstu hluthafar í Búsæld

Samkvæmt heimildum blaðsins báru viðskiptin brátt að, en rúm vika er síðan kauptilboð KS barst inn á borð bræðranna Eiðs og Hreins Gunnlaugssona, sem saman eiga um 57 prósent í KN. Starfsmönnum KN var tilkynnt um fyrirhugaða sölu síðastliðinn mánudag.

Búsæld, félag 464 bænda, á samanlagt um 43 prósent sem fyrrum eigandi Norðlenska. Þeir þurfa nú að taka ákvörðun um mögulega sölu á þeirra eignarhlut. Stærsti hluthafi er félagið Teigur-eignir ehf. í eigu svínabændanna Ingva Stefánssonar og Selmu Drafnar Brynjarsdóttur.

Ingvi segir jákvætt ef bændur geti valið hvort þeir selji eða haldi áfram að eiga sinn hlut í félaginu. „Ég þarf að sjá hvernig þetta lítur allt saman út þegar rykið sest en ég reikna frekar með því að selja. Það er nauðsynlegt að ná frekari hagræðingu til að keppa við síaukinn innflutning og gott að geta losað um fjármagn til að hlúa að eigin rekstri.“

Kaupfélag Skagfirðinga verður með tæplega sjötíu prósent kinda- og nautgripakjötsframleiðslu landsins, miðað við sláturtölur í fyrra.

Kallað eftir hagræðingu í rekstri sláturhúsa

Hvað boðuð hagræðing felur í sér með kaupunum er ekki vitað, en samkvæmt heimildum blaðsins er ekki gert ráð fyrir breytingum á starfsemi starfsstöðva KN fram yfir næstu sláturtíð – í það minnsta. Þó má gera ráð fyrir að sláturhúsum fækki eitthvað, enda hefur verið hvað ákafast kallað eftir hagræðingu í rekstri þeirra í umræðunni um rekstrarvanda greinarinnar. Þegar kaupin verða gengin í gegn eru sex sláturhús í eigu KS; á Hellu, Hvammstanga (í helmingseigu á móti Kaupfélagi Vestur-Húnvetninga), Blönduósi, Sauðárkróki, Akureyri og Húsavík – í sauðfjár- og stórgripaslátrun.

Bætum ekki hag bænda með innflutningi

Þórarinn Ingi Pétursson er þingmaður Framsóknarflokksins, formaður atvinnuveganefndar Alþingis, sauðfjárbóndi í Eyjafirði og hluthafi í Búsæld. Hann mælti fyrir áðurnefndum breytingum nefndarinnar á búvörulögunum síðasta vor. „Kaup KS á hlut þeirra bræðra er jákvætt skref og í takti við þá lagasetningu sem var sett í vetur. Síðan leiðir tíminn í ljós hvað Búsældarfélagar gera í framhaldinu, hverjir vilja selja og svo framvegis.“ Hann segist þó ekki hafa sjálfur tekið ákvörðun um sölu á sínum hlut.

„Með þessum kaupum sé ég fyrst og fremst tækifæri fyrir innlenda matvælaframleiðslu að styrkja rekstrargrunn bænda með þeirri hagræðingu sem hefur verið talað um. Verkefnið fram undan er að auka innlenda matvælaframleiðslu og draga úr innflutningi. Það á að vera verkefni þeirra sem eru í fararbroddi í slátrun og vinnslu að efla innlenda matvælaframleiðslu – til að hægt sé að borga bændum hærra verð fyrir sína framleiðslu.

Sömuleiðis þarf að gæta að því að neytendur fái vöruna á góðu verði. Það er grunnurinn í þeirri lagasetningu sem við settum í vetur, að bæta hag bænda og neytenda. Það gerum við ekki með því að halda áfram þeim innflutningi sem við höfum verið í, heldur með því að auka innlenda matvælaframleiðslu,“ segir Þórarinn.

Ekkert aðhald lengur

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir að sú samkeppni sem hafi verið á milli KS og Kjarnafæðis Norðlenska hafi á síðustu árum skapað aðhald sem hafi haft mikla þýðingu fyrir bændur við ákvörðun fyrirtækjanna um afurðaverð til bænda. „Þetta er ein ástæða hækkandi afurðaverðs til bænda. Aðhaldið hefur jafnframt komið neytendum til góða. Með samruna fyrirtækjanna hverfur þetta aðhald, án þess að neinar aðrar varnir komi í staðinn. Það tjón sem af þessu getur hlotist til lengri tíma er óafturkræft.“

Hann segir enn fremur að vegna þeirra breytinga sem gerðar voru á búvörulögum í mars muni ekki koma til kasta Samkeppniseftirlitsins við samruna fyrirtækjanna. „Þannig mun eftirlitið ekki geta varið hagsmuni bænda og neytenda og samrunaaðilar þurfa ekki að veita stjórnvöldum upplýsingar um samrunann eða með öðrum hætti að sýna fram á að hann skapi ábata fyrir bændur eða neytendur.“

Þegar Norðlenska, Kjarnafæði og SAH afurðir sameinuðust setti Samkeppniseftirlitið samrunanum skilyrði.

„Það var gert í góðu samstarfi við bændur, sem einkum var ætlað að tryggja að bændur nytu ábata sem af samrunanum kynni að hljótast. Talsmenn fyrirtækjanna hafa greint frá því opinberlega að bændur hafi notið þess í hækkandi afurðaverði. Það aðhald sem framangreind skilyrði hafa veitt heyrir nú sögunni til,“ segir Páll.

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...

Pólar hestar fyrirtæki ársins
Fréttir 19. nóvember 2024

Pólar hestar fyrirtæki ársins

Markaðsstofa Norðurlands hefur valið hestaleiguna Pólar hestar sem fyrirtæki árs...

Byggja stóra íþróttamiðstöð
Fréttir 18. nóvember 2024

Byggja stóra íþróttamiðstöð

Í Árnesi er verið að byggja fyrstu íþróttamiðstöðina í Skeiða- og Gnúpverjahrepp...

Afstaða framboða til landbúnaðarmála
Fréttir 15. nóvember 2024

Afstaða framboða til landbúnaðarmála

Stjórnmálaflokkarnir sem eru í framboði til alþingiskosninga, sem fram fara 30. ...

Nýjar höfuðstöðvar
Fréttir 15. nóvember 2024

Nýjar höfuðstöðvar

Samkvæmt ákvörðun Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslagsráðher...

Fiðrildategund nefnd eftir Björk
Fréttir 15. nóvember 2024

Fiðrildategund nefnd eftir Björk

Skordýrafræðingurinn Harry Pavulaan hjá Nebraska-háskóla hefur nefnt nýja fiðril...