Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Samstarf þeirra Guðmundar Björgvinssonar og Hrímnis frá Ósi hefur verið farsælt. Þeir hafa unnið til fjölda verðlauna heima á Íslandi og luku nú ferli sínum saman með heimsmeistaratitli í fjórgangi. Full stúka áhorfenda hyllti Guðmund og Hrímni að lokinni
Samstarf þeirra Guðmundar Björgvinssonar og Hrímnis frá Ósi hefur verið farsælt. Þeir hafa unnið til fjölda verðlauna heima á Íslandi og luku nú ferli sínum saman með heimsmeistaratitli í fjórgangi. Full stúka áhorfenda hyllti Guðmund og Hrímni að lokinni
Fréttir 21. ágúst 2015

Átta íslenskir heimsmeistarar á Heimsleikum íslenska hestsins

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Það ríkti hátíðarstemning á Heims­meistaramóti íslenska hestsins sem fór fram í Herning í Danmörku dagana 3. til 9. ágúst. Þar öttu kappi glæsilegir fulltrúar hins ís­lenska gæðings í íþróttakeppni og kynbótasýningum. Íslenska lands­liðið var sigursælt og vann til fjölda verðlauna.
 
Óvæntustu  úrslit mótsins voru ef­laust sigur Kristínar Lárusdóttur, bónda í Syðri-Fljótum í Vestur-Skaftafellssýslu, og Þokka frá Efstu-Grund, í firnasterkri töltkeppni. Jóhann R. Skúlason hefur unnið greinina sex sinnum á síðustu átta mótum, en lét sér nú linda 4. sæti á nýjum keppnishesti Garpi frá Hojgaarden. Fimmti, með sömu lokaeinkunn og Jóhann, varð Sigurbjörn Bárðarson á Jarli frá Mið-Fossum. 
 
Kristín og Þokki komu óvænt inn í íslenska landsliðið, tveimur viku­m fyrir mót, eftir að Sigurður Sigurðarson ákvað að draga sig úr liðinu. Sigur þeirra var því einkar sætur. Kristín og Þokki voru í 4. sæti fyrir úrslit en sýning þeirra í úrslitum var sannfærandi. Hlutu þau 8,44 í lokaeinkunn, en Nils Christian Larsen og Viktor frá Diisa frá Noregi, sem urðu í 2. sæti, hlutu 7,94. 
 
Þeir Nils Christian og Viktor hlutu einnig silfur í firnasterkum úr­slitum fjórgangs en þar hampaði Guðmundur Björgvinsson og Hrímnir frá Ósi sigri, en aðeins skildi að 0,05 stig. Guðmundur og Hrímnir komu efstir inn í úrslit en þeir eiga langan og farsælan keppnisferil að baki hér heima sem lauk nú með heimsmeistaratitli.
 
Reynir Örn Pálmason og Greifi frá Holtsmúla gengu frá móti með þrenn verðlaun. Þeir urðu heimsmeistarar í samanlögðum fimmgangsgreinum, en þann titil hlýtur sá keppandi sem reynist vera með hæstu meðaleinkunn úr forkeppni í fimmgangi og slak­tauma­tölti. Þeir félagar urðu í 2. sæti beggja flokka. Sigurvegari í fimmgangi varð hin danska Julie Christiansen á Hug frá Flugumýri II og heimsmeistari í slaktaumatölti varð Vignir Jónasson sem keppir fyrir Svíþjóð á Ivan från Hammarby.
 
Svíar áberandi í skeiði
 
Keppt var í þremur skeiðgreinum: 100 metra flug­skeiði, 250 metra skeiði og gæðingaskeiði. 
Svíar voru sigursælir í skeiðgrein­um en Íslendingar áttu þar kraftmikla fulltrúa. Hinn ungi Teitur Árnason og Tumi frá Borgarhóli voru hlutskarpastir í gæðingaskeiði og skaut Teitur þar sér eldri og reyndari knöpum ref fyrir rass. Þeir Teitur og Tumi bættu svo við bronsverðlaunum í 250 metra skeiði en þar sigraði Guðmundur Einarsson og Sproti frá Sjávarborg, sem keppa fyrir Svíþjóð, á nýju heimsmeti, 21,49 sekúndum.
 
Helmut Bramesfeld frá Þýska­landi á Blöndal vom Stördal urðu svo fljótastir keppenda í 100 metra skeiði, en Íslendingar fengu silfur og brons. Styrmir Árnason var annar á hryssunni Neyslu frá Schloßberg og fyrrum heimsmeistarinn Bergþór Eggertsson á Lotus frá Aldenghoor varð í 3. sæti. Þess má einnig geta að Svíar hömpuðu sigri í 250 og 100 metra skeiði ungmenna. 
 
Spennandi keppni ungra knapa
 
Ungir knapar íslenska landsliðsins stóðu sig einnig afar vel á mótinu. Jó­hanna Margrét Snorradóttir á Stimpli frá Vatni hlaut silfurverðlaun eftir spennandi úrslit ungmenna í slaktaumatölti. Aðeins munaði 0,04 stigum á henni og sigurvegaranum, hinni þýsku Lucie Maxheimer og Stjörn frá Eifelhaus.
Gústaf Ágeir Hinriksson og Geisli frá Svanavatni urðu í 2. sæti í fimmgangi en þeir félagar leiddu úrslitin framan af. Sigurvegari þar var Marvin Heinze frá Þýskalandi á Myrkva frá Quillerhof.
Guðmunda Ellen Sigurðardóttir og Týr frá Skálatjörn hlutu brons í fjórgangi en hún varð fyrir því óláni að Týr steig úr braut í forkeppni slak­tauma­tölts, sem var þeirra sterkasta grein. Þau komu því ákveðin til leiks í úrslit og unnu sig upp um þrjú sæti frá forkeppni og enduðu á verðlaunapalli. Sigurvegari fjórgangs ungmenna var Pierre Sandsten Hoyos frá Svíþjóð á Falka frá Karlsro.
 
Heiðraði minningu Einars
 
Andi Einars Öders Magnússonar, reið­kennara, sveif yfir Herning þegar gæðingur hans og vinur, Glóðafeykir frá Halakoti, kom fram fyrir hönd Íslands í elsta flokki stóðhesta á kynbótasýningu heimsmeistaramótsins. Glóðafeykir stóð þar efstur allra kynbótahrossa með 8,74 í aðaleinkunn. Daníel Jónsson sýndi Glóðafeyki sem hlaut 9,02 fyrir kosti, þar af einkunnina 9,5 fyrir tölt, brokk og vilja og geðslag. Glóðafeykir sýndi í fyrsta sinni skeið á kynbótasýningu fyrr á árinu en hann hlaut nú 8 fyrir skeið. Glóðafeykir og Einar Öder sigruðu B-flokk gæðinga á Landsmóti hestamanna árið 2012.
Þá sigraði Kengála frá Neðri-Rauðalæk elsta flokk hryssna með einkunnina 8,53. Knapi á Kengálu var Agnar Snorri Stefánsson. Garún frá Árbæ hlaut hæstu aðaleinkunn sex vetra hryssna, 8,62, en knapi hennar var Guðmundur Björgvinsson. Andvari frá Auðsholtshjáleigu hlaut hæstu einkuknn fimm vetra stóðhesta, 8,49. Knapi hans var Árni Björn Pálsson.
 
Ríkey frá Flekkudal var í 2. sæti í flokki 5 vetra hryssna með aðaleinkunnina 8,42. Hæstu aðaleink­unn þar hlaut þýska hryssan Hrönn frá Kronshof sem hlaut 8,52. Svaði frá Hólum hlaut næst hæstu einkunn sex vetra stóðhesta, 8,63. Sigurvegari í flokknum var Viking från Österåker frá Svíþjóð með aðaleinkunnina 8,69.
 
Ánægja með framkvæmd mótsins
 
Um 9000 gestir voru viðstaddir Heims­meistaramótið í Danmörku. Heimsmeistaramót hefur áður verið haldið á þessu glæsilega keppnisvæði í Herning, en það var árið 2001. Þá var Norðurlandamótið haldið þar í fyrra. Mótið þótti takast með miklum ágætum og vel var staðið að skipu­lagningu þess. Framkvæmd þess var nú í fyrsta sinn samstarfsverkefni allra Norðurlandaþjóðanna og FEIF, alþjóðasamtaka um íslenska hestinn.
 
Keppendur komu fram fyrir hönd 14 þátttökuþjóða, en alls eru 19 þjóðir með skráð félög í FEIF.
Liðsbikar mótins fór að þessu sinni til Svíþjóðar og er það í fyrsta sinn sem Svíþjóð hlýtur þau eftirsóttu ver­ðlaun. Var það ekki síst að þakka góðu gengi ungra knapa frá Svíþjóð og glæsilegum árangri í skeiði.
 

35 myndir:

Áhyggjur af nýliðun í bændastétt og afkomuvanda
Fréttir 10. apríl 2025

Áhyggjur af nýliðun í bændastétt og afkomuvanda

Fundaferð Bændasamtaka Íslands og atvinnuvegaráðherra lauk í gær. Helstu málefni...

Lóu og spóa fækkar ört
Fréttir 10. apríl 2025

Lóu og spóa fækkar ört

Hljóðheimur íslenska sumarsins er að breytast því bæði lóum og spóum hefur fækka...

Stuðningur við innleiðingu á LED-ljósabúnaði
Fréttir 10. apríl 2025

Stuðningur við innleiðingu á LED-ljósabúnaði

Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orkuog loftslagsráðherra hefur ákveðið að sty...

Alþjóðlegt samstarf um líffræðilega fjölbreytni
Fréttir 4. apríl 2025

Alþjóðlegt samstarf um líffræðilega fjölbreytni

Í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu er nú hafin vinna við að undirbúa að...

Huldar verur í sviðsljósið
Fréttir 3. apríl 2025

Huldar verur í sviðsljósið

Völva og sjáandi á Akureyri hefur unnið ötullega að því að efla samtal og áhuga ...

Framleiða pakkasósur úr villisveppum á Flateyri
Fréttir 3. apríl 2025

Framleiða pakkasósur úr villisveppum á Flateyri

Hjónin Sæbjörg Freyja Gísladóttir og Eyvindur Atli Ásvaldsson framleiða pakkasós...

Ólíklegt að veiðar verði heimilaðar
Fréttir 2. apríl 2025

Ólíklegt að veiðar verði heimilaðar

Líklegt þykir að þingsályktunartillaga um veiðar á álft og gæs utan hefðbundins ...

Vínbruggun í Húnaþingi í gerjun
Fréttir 2. apríl 2025

Vínbruggun í Húnaþingi í gerjun

Á Hvammstanga er verið að þróa framleiðslu á íslensku víni. Rabarbarafreyðivínið...